Marcel Langiller
Marcel Langiller (f. 2. júní 1908 - 25. desember 1980) var franskur knattspyrnumaður sem keppti með franska landsliðinu um tíu ára skeið, þar á meðal í fyrstu heimsmeistarakeppninni árið 1930.
Ævi og ferill
[breyta | breyta frumkóða]Langiller fæddist í Charenton-le-Pont, úthverfi Parísar árið 1908. Hann hóf sem táningur að leika með CA Paris-Charenton og átti félagið eftir að fylgja honum alla tíð. Árið 1928 komst liðið alla leið í úrslit franska bikarsins en tapaði þar fyrir Parísarliðinu Red Star, sem kunnast er fyrir að vera stofnað af fótboltafrumkvöðlinum Jules Rimet.
Sumarið 1928 gekk Lagiller til liðs við Langiller til liðs við Excelsior AC frá Roubaix og lék þar til 1933. Hann kvaddi með því að tryggja félaginu sinn fyrsta og eina titil með sigri á nágrönnunum og erkifjendunum í RC Roubaix í bikarúrslitunum þar sem Lagiller var meðal markaskorara. Næst lá leið hans til Red Star í eina leiktíð, þar sem Rauða stjarnan fór með sigur af hólmi í 2. deild og komst á ný í deild þeirra bestu. Frá 1935-37 lék Langiller með AS Saint-Étienne uns hann sneri aftur til uppeldisfélagsins til að ljúka ferlinum.
Landsleikir Lagiller urðu 30 á árabilinu 1927 til 1937. Mörkin urðu sjö, þar af tvö á móti Englandi, sem þótti sérstakt keppikefli á þessum árum. Hann var meðal leikmanna Frakka í knattspyrnukeppni ÓL 1928 þar sem liðið mátti sætta sig við að fara heim eftir tap í fyrsta leik gegn Ítölum.
Frakkar voru meðal örfárra Evrópuþjóða sem létu sig hafa ferðalagið langa á heimsmeistarakeppnina í Úrúgvæ 1930. Frakkland mætti Mexíkó í opnunarleik þar sem Lagillier skoraði eitt mark og hafði áður lagt upp fyrsta mark HM-sögunnar fyrir félaga sinn Lucien Laurent. Sigurinn í fyrsta leiknum dugði þó skammt því Frakkar töpuðu næstu tveimur leikjum og féllu úr keppni. Lagillier var ekki í landsliðshópnum á HM 1934.
Að síðari heimsstyrjöldinni lokinni hélt Lagillier áfram að starfa fyrir CA Paris-Charenton sem átti í vaxandi fjárhagserfiðleikum. Hann var stjórnarformaður félagsins árið 1963 þegar það þurfti að taka þá erfiðu ákvörðun að hætta atvinnuknattspyrnu og skrá félagið sem áhugamannalið. Lagillier lést í París árið 1980, 72 ára að aldri.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Marcel Langiller“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 5. ágúst 2023.