Fara í innihald

Lucien Laurent

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lucien Laurent (f. 10. desember 1907 - 11. apríl 2005) var franskur knattspyrnumaður sem kunnastur er fyrir að skora fyrsta markið í sögu heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu.

Ævi og ferill

[breyta | breyta frumkóða]

Lucien Laurent fæddist í einu af úthverfum Parísar. Eldri bróðir hans, Jean Laurent, var einnig knattspyrnumaður og voru þeir báðir í franska landsliðinu á HM 1930.

Frá 1921-30 lék Laurent með hálf-atvinnumannaliðinu CA Paris-Charenton samhliða störfum sínum hjá Peugeot-verksmiðjunum. Þar sem hann taldist áhugamaður fékk hann einungis greitt vinnutap frá Franska knattspyrnusamnbandinu fyrir ferð sína á heimsmeistaramótið. Frá 1930 lék hann sem atvinnumaður fyrir fjölda félaga uns hann lagði skóna á hilluna árið 1946. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þjónaði Laurent í hernum og var stríðsfangi Þjóðverja í þrjú ár frá 1940-43.

Laurent lék tíu landsleiki á árunum 1930 til 1934 og skoraði í þeim tvö mörk. Hann ritaði nafn sitt í knattspyrnusöguna þegar hann skoraði fyrsta markið í sögu HM í 4:1 sigri á Mexíkó. Fjórum árum síðar var Laurent aftur í landsliðshópnum á HM á Ítalíu en kom ekki við sögu vegna meiðsla. Hann var eini leikmaðurinn úr franska landsliðinu frá 1930 sem lifði það að sjá þjóð sína vinna HM 1998.