Fara í innihald

Magnús Hinriksson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Magnús Hinriksson (d. 1161) var danskur aðalsmaður og líklega konungur Svíþjóðar 1160-1161. Það er þó óvíst því samkvæmt einhverjum heimildum dó Eiríkur helgi, forveri hans, ekki fyrr en 1162 og afar fáar heimildir eru um konungstíð Magnúsar.

Magnúsar er fyrst getið 1148. Hann var sonur Hinriks halta, sem var sonur Sveins, eins margra sona Sveins Ástríðarsonar Danakonungs. Kona Hinriks og móðir Magnúsar var Ingiríður Rögnvaldsdóttir, dóttir Rögnvaldar konungs stutthöfða. Hún giftist síðar Haraldi gilla Noregskonungi, síðan Óttari birtingi og að lokum Árna Ívarssyni á Stoðreimi. Sonur þeirra Haraldar og hálfbróðir Magnúsar var Ingi krypplingur, Noregskonungur.

Magnús giftist stjúpsystur sinni, Brígiðu, sem var óskilgetin dóttir Haraldar gilla. Ekki er vitað til þess að þau hafi átt barn saman. Árið 1160 tók Magnús sér konungsvald í Svíþjóð eftir að hafa ráðið Eirík konung helga af dögum. Konungstíð hans var þó ekki löng því 1161 féll hann í bardaga við Karl Sörkvisson, sem varð síðan konungur. Brígiða ekkja hans giftist aðalsmanninum Birgi Brosa og átti með honum fjölda barna, þar á meðal Ingigerði, konu Sörkvis yngri Karlssonar.


Fyrirrennari:
Eiríkur helgi
Svíakonungur
(11601161)
Eftirmaður:
Karl Sörkvisson