Brígiða Haraldsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rústir Risebergs-klausturs, þar sem Brígiða bjó síðustu árin.

Brígiða Haraldsdóttir (eftir 11301209), einnig nefnd Birgitta, var norsk konungsdóttir sem var drottning Svíþjóðar skamma hríð, 1160-1161, og einnig gift tveimur sænskum jörlum.

Brígiða var óskilgetin dóttir Haraldar gilla Noregskonungs en móðir hennar er óþekkt þótt þess hafi verið getið til að það kunni að hafa verið Þóra Guttormsdóttir, sem lengi var frilla Haraldar, og hefur Brígiða þá verið alsystir Sigurðar munns. Sagnir herma að hún hafi fyrst verið gift Inga konungi yngri en talið er útilokað að svo hafi verið; fyrsti maður hennar hefur líklega verið sænski jarlinn Karl Súnason (Sónason), sem hefur þá dáið eftir skammvinnt hjónaband.

Brígiða giftist þá danska prinsinum Magnúsi Hinrikssyni, sem var afkomandi Sveins Ástríðarsonar Danakonungs, en móðir Magnúsar var Ingiríður Rögnvaldsdóttir af Svíþjóð, sem hafði verið gift Haraldi gilla og var því stjúpmóðir Brígiðu. Magnús gerði tilkall til sænsku krúnunnar árið 1160 eftir morðið á Eiríki helga (ártöl og fleira er þó mjög á reiki á þessu tímabili sænskrar sögu) og telst hafa verið konungur yfir hluta Svíþjóðar í eitt ár en árið 1161 féll hann í bardaga við Karl Sörkvisson, sem þá varð konungur.

Brígiða giftist síðan öðrum sænskum jarli, Birgi Brosa af Bjälbo-ætt, einum valdamesta manni Svíþjóðar um langt skeið. Þegar Eysteinn meyla, sem kvaðst vera sonur Haraldar gilla og því bróðursonur Brígiðu, gerði tilkall til norsku krúnunnar 1174 leitaði hann stuðnings hjá Brígiðu og Birgi og fékk hann. Tveimur árum seinna leitaði Sverrir Sigurðsson einnig til þeirra eftir stuðningi. Þau vísuðu honum í fyrstu frá sér en ráðlögðu svo birkibeinum að fylgja Sverri sem konungsefni. Filippus, sonur þeirra, gekk líka í þjónustu Sverris og varð jarl hans.

Magnús dó árið 1202 og Brígiða eyddi síðustu æviárunum í Riseberga-klaustri. Ekki er vitað til þess að hún hafi átt börn með fyrri mönnum sínum en þau Birgir eignuðust mörg börn saman, þar á meðal Ingigerði, konu Sörkvis yngri Svíakonungs, Filippus jarl, Knút jarl, sem féll í orrustunni við Lena 1208, og Fólka jarl, sem féll í orrustunni við Gestilren 1210.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]