Fara í innihald

Fýll

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Múkki)
Fýll

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Pípunefir (Procellariiformes)
Ætt: Fýlingaætt (Procellariidae)
Ættkvísl: Fulmarus
Tegund:
F. glacialis

Tvínefni
Fulmaris glacialis
(Linnaeus, 1761)
Kort sem sýnir útbreiðslu fýls. Gulu svæðin eru varpsvæði.
Kort sem sýnir útbreiðslu fýls. Gulu svæðin eru varpsvæði.
Fýlsegg.

Fýll eða múkki (fræðiheiti: Fulmarus glacialis) er pípunefur af fýlingaætt sem er ein algengasta fuglategund Íslands. Hann er hvítur á höfði, hálsi og að neðanverðu, grár á síðu, stéli og ofan á vængjum og hefur dökkgráa vængbrodda. Augun eru svört og fætur grábleikir. Goggurinn er gulgrár með pípunasir ofaná og ef honum er ógnað spýtir hann illa lyktandi magaolíu á andstæðinginn. Fýla er að finna í klettum og björgum þar sem kaldtemprað loftslag er ríkjandi á Norðurslóðum, bæði við sjó og inni í landi, jafnvel marga tugi kílómetra frá sjó á varptímum. Hann heldur sig við land mest frá janúar og allt fram í byrjun september, en fer á flakk á haustin og ferðast þá þúsundir kílómetra í leit að æti.

Fýll og systurtegund hans, silfurfýll, sem lifir við Suðurskautslandið, eru einu tegundir ættkvíslarinnar Fulmarus af ættbálki pípunefja. Þeir eiga ýmis einkenni sameiginleg, eins og margskiptan gogg með pípum sem sitja efst á goggnum. Þeir hafa kirtlamaga sem geymir magaolíuna sem þeir nota bæði til að verja sig og til að næra unga sína. Olían getur mattað fjaðrir ránfugla og leitt þá þannig til dauða. Þeir hafa auk þess saltkirtil ofan við gogginn sem dregur salt úr sjó sem þeir innbyrða og blæs út um nefið.[2]

Carl Linneus lýsti fýlnum formlega fyrstur manna árið 1761 byggt á eintaki frá Svalbarða.[3] Múkkafjall (Mallemukfjeldet) á Norðaustur-Grænlandi var nefnt eftir fýlnum (danska: Mallemuk).

Fýllinn er stór sjófugl sem minnir á máf, þéttvaxinn og hálsdigur með langa og mjóa vængi. Hann er hvítleitur á höfði, hálsi og að neðan. Hann er grár að ofan og á yfirvængnum með dökka vængbrodda. Síður gumpur og stél eru grá, undirvængir gráir með dökkum jöðrum. Goggurinn er stuttur og gildur, gráleitur að ofan en gulleitur að neðan með nasirnar í pípum ofan á goggmæni. Fæturnir eru grábleikir. Fýllinn hefur stór áberandi dökk augu. Hann er 45-50 cm að lengd, hann er um 800 gr að þyngd og vænghafið er 102-112 cm. Hann er auðgreindur frá máfum á einkennandi fluglagi, þar sem hann tekur fáein vængjatök og lætur sig svo svífa á stífum vængjunum. Hann er léttur á sundi en á oft erfitt með að hefja sig á loft, sérstaklega í logni. Hann er þungur til gangs.

Varp- og ungatímabilið er frá byrjun maí og þangað til um miðjan september. Hreiðrið er oftast grunn skál án hreiðurefna, en stundum safnar fuglinn steinvölum og skeljum í skálina. Eggið er aðeins eitt og því er orpið frá seinni hluta maí og fram eftir júni.

Fýllinn leita sér ætis bæði á flugi og syndandi, gjarnan kringum fiskiskip í höfnum og við fiskvinnslustöðvar. Aðalfæða hans er fiskur, krabbadýr og úrgangur frá fiskiskipum.

Fýllinn hefur sérstaka aðferð til að verja sig þannig að ef þeir eru áreittir spúa þeir sérstakri magaolíu sem af er megn stækja, svonefnd „fýlaspýja“. Olían kemur úr maganum en ekki úr nefinu eins og margir halda, og inniheldur meðal annars vaxestra og þríglýseríð. Olían hefur lága seigju og storknar ef hún nær að kólna. Fýlar gefa frá sér frekjulegt rámt gagg og rámt „nefmælt“ garg.

Við Ísland

[breyta | breyta frumkóða]

Fýlar hafa verið merktir í allmiklum mæli á Íslandi, einkum í Vestmannaeyjum og Breiðafjarðareyjum og því nokkuð vitað um farhætti þeirra. Þeir eru sjófuglar sem sjást við landið allt árið um kring en halda sig á rúmsjó og sækja mikið að skipum í von um æti. Geta þeir skipt þúsundum við fiskiskip þegar verið er að hífa veiðarfæri eða gera að afla. Fýlar nálgast land á hvaða árstíma sem er en mikill dagamunur er á fjölda þeirra á veturnar. Þá setjast þeir við og við upp á varpstöðvum, en þó aðallega í hálku og við landið sunnanvert. Fýlar baða sig oft í ferskvatni og á sumrin sjást þeir á flugi yfir ám og vötnum langt inni í landi, jafnvel uppi á hálendi. Fýlar eru afar algengir varpfuglar með ströndum, hömrum og nálægt sjó og eyjum allt í kringum landið. Þá er einnig víða að finna í smáklettum og sjávarbökkum og í hömrum og giljum inn til landsins. Varplönd þeirra eru lengst um 50 km frá sjó (miðað við fluglínu eftir ám), við Þingvallavatn og í Emstrum vestan Mýrdalsjökuls.

Talið er að fjöldi varppara sé 1-2 milljónir og að á bilinu 1-5 milljónir fugla séu á íslensku hafsvæði yfir veturinn. Fýlar eru með algengustu fuglum landsins og hefur stofninn stækkað jafnt og þétt síðustu tvær aldir eða svo. Fyrrum var töluvert um veiðar á fýlum og sérstaklega sterk hefð var fyrir fýlatekju í Mýrdal og Vestmannaeyjum. Upp úr 1930 kom upp veiki í mönnum í Færeyjum sem rakin var til fýlaáts, sjúkdóms sem kallast fýlasótt sem vart var í Vestmannaeyjum árið 1939.

Undirtegundir

[breyta | breyta frumkóða]

Þrjár undirtegundir fýla hafa verið greindar:

  • Fulmarus glacialis glacialis - einkennistegundin sem er algengust við Ísland
  • Fulmarus glacialis auduboni - sunnar í Atlantshafi við Nýfundnaland, en ferðast víða
  • Fulmarus glacialis rodgersii - stundum nefndur kyrrahafsfýll, finnst við strendur Alaska og Síberíu“[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. BirdLife International (2018). Fulmarus glacialis. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2018: e.T22697866A132609419. doi:10.2305/IUCN.UK.2018-2.RLTS.T22697866A132609419.en. Sótt 19. nóvember 2021.
  2. Ehrlich, Paul R.; Dobkin, David, S.; Wheye, Darryl (1988). The Birders Handbook (First. útgáfa). New York, NY: Simon & Schuster. bls. 14, 29–31. ISBN 0-671-65989-8.
  3. Maynard, B.J. (2003). „Shearwaters, petrels, and fulmars (Procellariidae)“. Í Hutchins, Michael; Jackson, Jerome A.; Bock, Walter J.; Olendorf, Donna (ritstjórar). Grzimek's Animal Life Encyclopedia. 8 Birds I Tinamous and Ratites to Hoatzins. árgangur (2nd. útgáfa). Farmington Hills, MI: Gale Group. bls. 123–133. ISBN 0-7876-5784-0.
  4. Hanzak, J. (1971). Stóra fuglabók Fjölva (Friðrik Sigurbjörnsson þýddi). Fjölvi.
  Þessi fuglagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.