Emstrur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skálar Ferðafélags Íslands á Emstrum.

Emstrur er afréttarland í Rangárvallasýslu, norðvestan við Mýrdalsjökul. Gönguleiðin Laugavegur (gönguleið), milli Landmannalauga og Þórsmerkur, liggur um Emstrur og kallast vegurnn þaðan og niður í Þórsmörk Emstruleið.

Fremri-Emstruá (Syðri-Emstruá), sem kemur úr Entujökli, skilur á milli Emstra og Almenninga. Nokkru norðar er Innri-Emstruá (Nyrðri-Emstruá) og hafa báðar oft verið miklir farartálmar en á þeim eru nú göngubrýr. Svæðið milli þeirra kallast Fremri-Emstrur en innan við Innri-Emstruá eru Innri-Emstrur og ná þær að Bláfjallakvísl en hún er óbrúuð. Þar fyrir norðan taka Laufaleitir við. Suðaustan við Emstrur er Mýrdalsjökull og norðvestan við þær fellur Markarfljót. Nokkur stök fjöll eru á Emstrum og má helst nefna Hattfell og Stóru-Súlu. Gistiskálar Ferðafélags Íslands eru í Fremri-Botnum, norðan við Fremri-Emstruá.

Áður fyrr var fé sem gekk á afréttinum á sumrum ferjað yfir Markarfljót með bát og síðan í kláfferju en árið 1978 var fljótið brúað. Afréttin er fremur gróðurlítil og hrjóstrug en þó var meiri gróður þar áður, fyrir Kötlugosið 1918, sem spillti gróðri á Emstrum.