Fara í innihald

Múhameð Ómar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Múhameð Ómar
محمد عمر
Æðsti leiðtogi Afganistans
(umdeilt)
Í embætti
27. september 1996 – 13. nóvember 2001
ForsætisráðherraMohammad Rabbani
ForveriBurhanuddin Rabbani (sem forseti)
EftirmaðurBurhanuddin Rabbani (sem forseti)
Leiðtogi Talíbana
Í embætti
September 1994 – 23. apríl 2013
ForveriEmbætti stofnað
EftirmaðurAkhtar Mansúr
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1960
Khakrez, Kandahar, Afganistan
Látinn23. apríl 2013 Zabul, Afganistan
DánarorsökBerklar
ÞjóðerniAfganskur
StjórnmálaflokkurTalíbanar
Maki3 eiginkonur
TrúarbrögðSúnní
Börn5 eða 6
HáskóliDarul Uloom Haqqania

Múhameð Ómar (pastú: محمد عمر‎, Muḥammad 'Umar; 1960 – 23. apríl 2013), gjarnan kallaður Múlla Ómar, var afganskur múlla (múslimaklerkur) sem stofnaði og leiddi Talíbana, vopnaða hreyfingu íhaldssamra súnní-íslamskra bókstafstrúarmanna. Undir stjórn Múlla Ómars náðu Talíbanar stjórn á Afganistan árið 1996 og réðu yfir mestöllu landinu sem íslömsku emírsdæmi næstu fimm árin. Múlla Ómar tók sér titilinn Amir-ul-Momineen en stjórn hans var ekki viðurkennd af þorra alþjóðasamfélagsins.

Á stjórnartíð Ómars réðu Talíbanar Afganistan harðri hendi með ofstækisfullri túlkun á sjaríalögum. Stjórn hans skaut hlífiskildi yfir íslamska hryðjuverkahópa á borð við Al-Kaída og leiðtoga þeirra, Osama bin Laden. Eftir að Al-Kaída stóð fyrir hryðjuverkaárásunum í New York 11. september 2001 gerðu Bandaríkjamenn innrás í Afganistan og komu Talíbönum frá völdum. Múlla Ómar fór í felur en stýrði skæruhernaði gegn Bandaríkjamönnum og nýrri stjórn Afganistans næstu tólf árin.

Múlla Ómar lést úr berklum árið 2013. Talíbanar héldu dauða hans leyndum í tvö ár.

Talið er að Múhameð Ómar hafi fæðst árið 1960 í þorpinu Chah-i-Himm­at í Kandahar-héraði og hafi verið úr fátækri Pastúnafjölskyldu. Hann gekk í skóla þar sem íslömsk fræði voru mikilvægur hluti af náminu.[1]

Múlla Ómar gekk til liðs við Mujahideen-sveitirnar sem háðu heilagt stríð gegn innrás Sovétmanna í Afganistan á níunda áratugnum. Hann missti annað augað í átökum við Sovétmenn og gengur sú saga meðal Talíbana að hann hafi sjálfur skorið augað úr sér. Líklegra þykir að hann hafi verið fluttur á sjúkrahús í Pakistan þar sem augað var fjarlægt. Eftir að Sovétmenn hörfuðu frá Afganistan árið 1989 sneri Ómar heim til sín og einbeitti sér að bænahaldi og kennslu. Hann laðaði til sín fylgismenn sem fengu árið 1994 nafnið Talíbanar, sem merkir „nemendur“. Talíbanar settu sér það markmið að ná stjórn yfir Afganistan úr höndum stríðsherranna sem höfðu tekið við völdum eftir fall kommúnistastjórnarinnar.[1]

Í apríl 1996 höfðu Talíbanar lagt undir sig mikið landsvæði í Afganistan. Við það tilefni kom Múlla Ómar fram á svölum helgidóms í Kandahar þar sem hann klæddist skikkju sem sögð er hafa tilheyrt Múhameð spámanni. Skikkjan hafði verið geymd í helgidómnum um aldabil og hafði síðast verið snert á fjórða áratugi tuttugustu aldar. Múlla Ómar lýsti sjálfan sig „leiðtoga hinna trúuðu“ (Amir-ul-Momineen) og klæddist skikkjunni til að sýna að hann væri verðugur arftaki spámannsins.[2] Í september sama ár féll afganska höfuðborgin Kabúl í hendur Talíbana og Múlla Ómar varð þannig eiginlegur hæstráðandi landsins. Þrátt fyrir það hélt hann sig að mestu í Kandahar og kom sjaldan fram opinberlega. Hann hafði orð á sér fyrir að vera einangraður og fámáll.[3] Sem stjórnandi Afganistans fyrirskipaði Ómar jafnframt eyðileggingu gríðarstórra Búddalíkneskja sem höggvin voru í kletta Bamyan-fjalla þar sem hann taldi þau móðgun við íslamstrú.[1]

Valdatíð Talibana undir stjórn Múlla Ómars einkenndist af strangri túlkun á sjaríalögum og hörðum refsingum jafnvel við smávægilegum glæpum. Konum og stúlkum var bannað að vinna utan heimilis eða að stunda nám og mannréttindi almennt voru verulega skert. Stjórn Talíbana hélt um leið áfram hernaði gegn Norðurbandalaginu, bandalagi stríðsherra sem beittu sér gegn stjórn þeirra. Með óopinberum stuðningi Pakistana og ýmissa arabískra bakhjarla höfðu Talíbanar náð völdum í um 90 prósentum landsvæðis í Afganistan árið 2001.[4]

Á stjórnartíð Múlla Ómars fengu íslömsku hryðjuverkasamtökin Al-Kaída að starfa óáreitt í Afganistan ásamt leiðtoga sínum, Osama bin Laden, sem kom til Afganistans í lok ársins 1996 eftir að hafa verið vísað frá Súdan. Ómar og bin Laden þekktust frá því að þeir börðust saman gegn Sovétmönnum. Sumar heimildir herma að árið 1998 hafi Ómar kvænst einni af dætrum bin Ladens til að innsigla vinskap þeirra.[1] Talíbanar sjálfir neituðu því ávallt að þessi ráðahafur hafi átt sér stað.[5]

Þann 11. september 2001 stóð Al-Kaída fyrir hryðjuverkaárás í New York þar sem tæplega 3.000 manns létust. Bandaríkjamenn sendu Talíbönum í kjölfarið úrslitakosti um að framselja bin Laden og aðra leiðtoga Al-Kaída, annars yrði ráðist inn í Afganistan. Múlla Ómar fór ekki eftir kröfum Bandaríkjamanna og þann 7. október 2001 gerðu Bandaríkjamenn því innrás í Afganistan ásamt bandamönnum sínum. Eftir fáeinar vikur hertóku Bandaríkjamenn Kabúl og settu á fót nýja ríkisstjórn.[6]

Múlla Ómar fór í felur eftir innrásina en stýrði skæruhernaði Talíbana gegn Bandaríkjaher og nýjum stjórnvöldum í Kabúl. Múlla Ómar sást aldrei opinberlega eftir að Talíbanastjórnin féll en Talíbanar sendu öðru hverju frá sér hljóðupptökur sem þeir sögðu vera frá honum komnar.[7]

Árið 2015 var tilkynnt að Múlla Ómar væri látinn úr berklum. Hafði hann þá verið allur í um tvö ár en Talíbanar höfðu haldið andláti hans leyndu.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Eineygður með „sérstakan" húmor“. mbl.is. 29. júlí 2015. Sótt 22. ágúst 2021.
  2. „Klæddist skikkju Múhameðs spámanns“. mbl.is. 8. desember 2001. Sótt 22. ágúst 2021.
  3. „Leiðtogi talibana var nágranni Bandaríkjahers“. mbl.is. 10. mars 2019. Sótt 22. ágúst 2021.
  4. Erlingur Erlingsson (15. febrúar 2012). „Hvað vitið þið um talíbana, hverjir eru þeir og fyrir hvað standa þeir?“. Vísindavefurinn. Sótt 30. mars 2024.
  5. „Profile: Mullah Mohammed Omar“ (enska). BBC. 29. júlí 2015. Sótt 3. apríl 2024.
  6. „Afganistan“. Globalis. Sótt 22. ágúst 2021.
  7. Þorgils Jónsson (6. ágúst 2013). „Vill semja en hvetur til árása“. Vísir. Sótt 22. ágúst 2021.
  8. „Helsti leiðtogi talíbana allur“. mbl.is. 27. júlí 2015. Sótt 22. ágúst 2021.


Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Leiðtogi Talíbana
(September 199423. apríl 2013)
Eftirmaður:
Akhtar Mansúr
Fyrirrennari:
Burhanuddin Rabbani
(sem forseti)
Æðsti leiðtogi Afganistans
(umdeilt)
(27. september 199613. nóvember 2001)
Eftirmaður:
Burhanuddin Rabbani
(sem forseti)