Lisa Murkowski
Lisa Murkowski | |
---|---|
Öldungadeildarþingmaður fyrir Alaska | |
Núverandi | |
Tók við embætti 20. desember 2002 | |
Forveri | Frank Murkowski |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 22. maí 1957 Ketchikan, Alaska, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarísk |
Stjórnmálaflokkur | Repúblikanaflokkurinn |
Maki | Verne Martell (g. 1987) |
Börn | 2 |
Háskóli | Georgetown-háskóli Willamette-háskóli |
Undirskrift |
Lisa Ann Murkowski (f. 22. maí 1957) er bandarísk stjórnmálakona úr Repúblikanaflokknum sem hefur setið á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Alaska frá árinu 2002.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Lisa Murkowski er dóttir Franks Murkowski, fyrrum öldungadeildarþingmanns fyrir Alaska. Árið 2002 sagði Frank Murkowski upp þingsæti sínu á öldungadeild Bandaríkjaþings þegar hann var kjörinn fylkisstjóri Alaska. Sem fylkisstjóri útnefndi Frank Murkowski dóttur sína, Lisu Murkowski, í þingsætið sem hafði losnað. Ákvörðun hans um að útnefna sína eigin dóttur í þingsætið var mjög umdeild og var víða úthrópuð sem dæmi um frændhygli.[1] Þrátt fyrir að taka við þingsætinu á umdeildan hátt tókst Murkowski að verja sætið á móti frambjóðanda Demókrataflokksins í þingkosningum ársins 2004.
Faðir Murkowski tapaði endurkjöri í fylkisstjórakosningum árið 2006 á móti Söruh Palin og Palin tók afstöðu gegn Lisu Murkowski í forvali Repúblikanaflokksins fyrir kosningar á öldungadeildina árið 2010. Murkowski tapaði í forvalinu á móti frambjóðanda úr Teboðshreyfingunni en bauð sig sjálfstætt fram á þingið og tókst aftur að ná endurkjöri, í þetta sinn án hjálpar Repúblikanaflokksins.[2] Lög Alaska heimila kjósendum að skrifa nafn einhvers annars en þeirra frambjóðenda sem eru á kjörseðlunum og greiða þeim atkvæði. Sigur Murkowski var fyrsta skipti í fimmtíu ár sem frambjóðanda sem ekki var á kjörseðlinum tókst að vinna með þessu móti.[3]
Murkowski er talin heyra til hófsamari vængs Repúblikanaflokksins og hún hefur stundum átt í deilum við íhaldssamari meðlimi í flokknum. Árið 2017 greiddi hún atkvæði gegn lagafrumvarpi Donalds Trump Bandaríkjaforseta um afnám Obamacare-heilbrigðislaganna, sem stuðlaði að því að frumvarpið var fellt þrátt fyrir að Repúblikanar væru þá í meirihluta á öldungadeildinni.[4] Árið 2018 greiddi hún jafnframt atkvæði gegn skipun Bretts Kavanaugh, sem Trump hafði tilnefnt, í sæti við Hæstarétt Bandaríkjanna.[5]
Murkowski var ein af sjö öldungadeildarþingmönnum Repúblikana sem kusu með því að sakfella Trump þegar hann var kærður til embættismissis árið 2021 í kjölfar árásar stuðningsmanna hans á Bandaríkjaþing þann 6. janúar það ár.[6] Fjandskapur þeirra leiddi til þess að Trump lýsti yfir stuðningi við mótframbjóðanda gegn Murkowski innan Repúblikanaflokksins, Kelly Tshibaka, í kosningum á öldungadeildina árið 2022.[7] Murkowski hafði engu að síður betur gegn Tshibaka í kosningunum og hélt þingsæti sínu.[8]
Murkowski hefur oft tjáð sig um málefni Norðurslóða og hefur heimsótt Ísland nokkrum sinnum í tengslum við þau, auk þess sem hún hefur átt í nánu samstarfi við Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrum forseta Íslands.[9] Hún hefur nokkrum sinnum flutt erindi á ráðstefnum Hringborðs Norðurslóða (Arctic Circle), samtaka Ólafs. Á ráðstefnu samtakanna árið 2021 sagðist hún vilja stofna til fríverslunarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og sagðist hafa viðrað þær hugmyndir við Joe Biden forseta.[10][11] Hún var meðal flutningsmanna frumvarps á öldungadeildinni í október 2023 til að auka efnahags- og viðskiptafrelsi Íslendinga við Bandaríkin.[12]
Viðurkenningar
[breyta | breyta frumkóða]Murkowski hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2021 fyrir „framlag til að styrkja og efla tengsl Íslands við Alaska og Bandaríkin“.[13]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Davíð Logi Sigurðsson (26. október 2004). „Repúblikanar líklegir til að hafa áfram meirihluta á þinginu“. Morgunblaðið. bls. 23.
- ↑ Þorgils Jónsson (10. september 2012). „Vill auka verulega samstarf við Ísland“. Fréttablaðið. bls. 8.
- ↑ „Telur sig geta sigrað Barack Obama“. Fréttablaðið. 19. nóvember 2010. bls. 12.
- ↑ Bogi Þór Arason (29. júlí 2017). „Mikið áfall fyrir Donald Trump“. Morgunblaðið. bls. 23.
- ↑ „Kavanaugh skipaður dómari – Einn Repúblikani kaus gegn honum“. DV. 7. október 2018. Sótt 29. ágúst 2023.
- ↑ Hildur Margrét Jóhannsdóttir (13. febrúar 2021). „Trump sýknaður af ákæru um embættisglöp“. RÚV. Sótt 29. ágúst 2023.
- ↑ Kristján Kristjánsson (21. júní 2021). „Þetta er Repúblikaninn sem Trump beinir spjótum sínum að þessa dagana“. DV. Sótt 29. ágúst 2023.
- ↑ Kristján Kristjánsson (24. nóvember 2022). „Enn einn ósigur Trump – Hún er þyrnir í augum hans en hafði betur“. DV. Sótt 29. ágúst 2023.
- ↑ „NYT um ákæruna gegn Trump og afstöðu Lisu Murkowski“. Varðberg. 5. janúar 2020. Sótt 29. ágúst 2023.
- ↑ Heimir Már Pétursson (16. október 2021). „Ekki lengur hrópandinn í eyðimörkinni“. Vísir. Sótt 29. ágúst 2023.
- ↑ Gunnlaugur Snær Ólafsson (14. október 2021). „Vill fríverslunarsamning við Ísland“. mbl.is. Sótt 29. ágúst2023.
- ↑ „Leggja fram frumvarp um Ísland í öldungadeildinni“. mbl.is. 4. október 2023. Sótt 6. október 2023.
- ↑ Sjá Orðuhafaskrá á vefsíðu íslenska forsetaembættisins.