Teboðshreyfingin
Teboðshreyfingin (e. tea-party movement) var heiti sem notað var yfir ýmis grasrótarsamtök sem komu fram á hægrivæng Repúblikanaflokksins eftir sigur Baracks Obama í forsetakosningunum 2008. Nafn sitt dregur hreyfingin af Teboðinu í Boston. Þá hafa liðsmenn hreyfingarinnar útskýrt nafn hreyfingarinnar sem svo að TEA standi fyrir Taxed Enough Already.
Meðlimir hreyfingarinnar kölluðu sig „Teapartiers“, en í bandarískum bloggheimum er oft talað um „teabaggers“ og hreyfingin kölluð „teabagger movement“, þ.e. tepokahreyfingin. Þó nafnið teabaggers hafi í upphafi einnig verði notað af áhangendum hreyfingarinnar var það síðar aðallega notað af andstæðingum hreyfingarinnar. Nafnið kom til vegna þess að eitt allra fyrsta uppátæki forystumanna hreyfingarinnar vorið 2009 var að hvetja reiða kjósendur til að senda þingmönnum tepoka í pósti til að minna þá á teboðið í Boston árið 1773. Hins vegar voru vinstrimenn og grínistar fljótir að benda á að „tea-bagging“ er umdeild kynlífsathöfn og gerðu stólpagrín að teboðshreyfingunni. Eftir það varð „teabagger“ einskonar uppnefni.
Pólítísk stefnumál
[breyta | breyta frumkóða]Teboðshreyfingin var hvorki formleg stjórnmálahreyfing né hafði hún neinn ákveðinn leiðtoga. Teboðshreyfingin hafði enga yfirstjórn á landsvísu en mikið af starfi hreyfingarinnar fór fram í svæðisbundum samtökum sem störfuðu í nafni hreyfingarinnar. Talið er að svæðisbundin teboðshreyfingarsamtök hafi verið um 1000 árið 2010 en að árið 2012 hafði þeim verið búið að fækka töluvert eða niður í rúmlega 600. Flestir meðlimir hreyfingarinnar tilheyrðu Repúblikanaflokknum en þó voru sumir innan Teboðshreyfingarinnar sem studdu Frjálshyggjuflokkinn eða voru óflokksbundnir. Töluverður ágreiningur ríkti milli félagslegra íhaldsmanna og frjálslyndra innan Repúblikanaflokksins. Teboðshreyfingin vildi ekki stuðla að sundrungu innan flokksins og starfaði hreyfingin því sem valdamikill þrýstihópur innan Repúblikanaflokksins.
Teboðshreyfingin hafði gríðarleg áhrif á framvindu mála í fulltrúadeildarkosningum árið 2010. Þá endurheimtu Repúblikanar meirihluta í þingunu með því að bæta við sig 63 sætum frá fyrri kosningum. Sökum vinsælda hreyfingarinnar meðal kjósenda flokksins kepptist fjöldi Repúblikana, bæði innan þings og utan, um að tala máli hreyfingarinnar.
Skipulag
[breyta | breyta frumkóða]Helstu stefnumál Teboðshreyfingarinnar mátti gróflega setja í fimm flokka.
- 1. Fylgjendur hreyfingarinnar vildu að gömlum gildum sem lögð voru fram í stjórnarskránni árið 1788 yrði framfylgt. Þeir túlkuðu stjórnarskrána á íhaldssaman hátt þar sem áhersla var lögð á takmarkað ríkisvald og að valdið skyldi vera í höndum fólksins.
- 2. Teboðshreyfingin var ákaflega mótfallin peningamálastefnu Baracks Obama og taldi hana óábyrga. Talsmenn hreyfingarinnar vildu aðhald í ríkisfjármálum, lækka skatta og minnka opinber útgjöld.
- 3. Í þriðja lagi vildu þeir að frjáls viðskipti væru tryggð. Talsmenn teboðshreyfingarinnar töldu inngrip stjórnvalda á hinn frjálsa markað eina af aðalástæðum þess að fjármálakreppan skall á árið 2008 og því væri mikilvægt sleppa takinu og leyfa markaðnum aðlagast breytingum á eðlilegan hátt.
- 4. Siðferðis- og félagsmál voru mikið rædd meðal áhangenda Teboðshreyfingarinnar, sérstaklega hvað varðaði hin hefðbundnu fjölskyldugildi sem og vandamál sem þeir töldu að fylgdu ólöglegum innflytjendum. Margir liðsmenn hreyfingarinnar vildu herða refsingar er sneru að ólöglegum innflytjendum. Íhaldssamir meðlimir hreyfingarinnar voru margir hverjir mótfallnir þungunarrofum og vildu sumir meina að þær ættu að vera skilgreindar sem morð. Einnig voru langflestir fylgjendur Teboðshreyfingarinnar alfarið á móti hjónaböndum samkynhneigðra.
- 5. Síðast en ekki síst vildu fylgjendur hreyfingarinnar losna við Barack Obama úr forsetastólnum hið snarasta og virtust þeir gera hvað sem í þeirra valdi stóð til að sverta nafn hans og mannorð. Fjöldinn allur af samsæriskenningum um hann hafa litið dagsins ljós þar sem hann er sagður vera nasisti, kommúnisti eða múslimi. Þá héldu sumir því fram að Obama væri í raun og veru ekki „alvöru“ Bandaríkjamaður. Þeir drógu í efa réttmæti hans til að sitja í stól forseta þar sem því var haldið fram að hann væri ekki fæddur í Bandaríkjunum.
Helstu talsmenn
[breyta | breyta frumkóða]Sarah Palin er fyrrverandi ríkisstjóri Alaska og varaforsetaefni John McCains í forsetakosningunum árið 2008. Hún varð fljótt einn mest áberandi talsmaður Teboðshreyfingarinnar. Michele Bachmann var meðlimur á fulltrúadeild Bandaríkjaþings og stofnaði hún þingflokk í nafni Teboðshreyfingarinnar. Hún stefndi að því að verða forsetaefni Repúblikana fyrir kosningarnar árið 2012 en hlaut afhroð í forkosningum í Iowa árið 2011 og dró í kjölfarið framboð sitt til baka.
Ron Paul var megintalsmaður frjálslyndra sjónarmiða innan hreyfingarinnar. Hann hefur hlotið viðurnefnið „Guðfaðir“ Teboðshreyfingarinnar þar sem mörg af helstu baráttumálum hreyfingarinnar komu frá honum. Hann bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna árið 1988 í nafni Frjálshyggjuflokksins en hlaut einungis 0,5 % atkvæða á landsvísu. Þá hefur hann í tvígang sóst eftir útnefningu sem forsetaefni Repúblikana flokksins. Fyrst árið 2008 þar sem hann beið lægri hlut fyrir John McCain og svo árið 2012 þar sem Mitt Romney hreppti hnossið.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var að hluta til „Tea Party movement“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. október 2012.
- Endurheimtum landið! Teboðshreyfingin og orðræða frambjóðenda Repúblikanaflokksins. Skoðað 24. október 2012.