Fara í innihald

Lenínskólinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lenínskólinn var einn af leynilegum byltingarskólum sem Alþjóðasamband kommúnista, Komintern, rak í Moskvu. Hann var stofnaður 1926 í framhaldi af samþykkt Kominterns um aukinn aga og öflugri byltingaranda í einstökum aðildarflokkum sambandsins. Frá 1926 til 1938 fengu um þrjú þúsund kommúnistar þjálfun í þessum skóla og tveimur öðrum, Austurskólanum, sem ætlaður var byltingarmönnum frá Kína og öðrum austlægum löndum, og Vesturskólanum, sem hafði svipað hlutverk og Lenínskólinn.

Á meðal nemenda í Lenínskólanum, sem síðar urðu kunnir, voru Wladyslaw Gomulka frá Póllandi, Erich Honecker, Heinz Hoffmann og Erich Mielke frá Austur-Þýskalandi og David Alfaro Siquero frá Mexíkó.

Kommúnistaflokkurinn íslenski, sem var deild í Komintern, sendi um tuttugu Íslendinga í Lenínskólann og Vesturskólann. Þar á meðal voru Benjamín H. J. Eiríksson, síðar bankastjóri, og Hallgrímur Hallgrímsson, sem tók þátt í spænska borgarastríðinu. Ýmsir nemendur úr skólunum sátu í miðstjórn Kommúnistaflokksins og síðar Sósíalistaflokksins, Dýrleif Árnadóttir, Eggert Þorbjarnarson, Stefán Pjetursson, Hjalti Árnason, Ásgeir Blöndal Magnússon og Þóroddur Guðmundsson. Tveir nemendur í þessum byltingarskóla sátu á þingi fyrir Sósíalistaflokkinn, Steingrímur Aðalsteinsson og Þóroddur Guðmundsson.

Nemendur lærðu sögu Sovétríkjanna, marxísk fræði og hagfræði, en hlutu einnig þjálfun í vopnaburði og skipulagningu óeirða. Einn kennari þeirra var finnski kommúnistinn Tuure Lehén, sem var herforingi í Rauða hernum og innanríkisráðherra í finnsku leppstjórninni, sem Stalín myndaði eftir innrásina í Finnland 1939.

Lenínskólinn var lagður niður í hreinsunum Stalíns 1938, og var síðasti íslenski nemandinn í honum Ásgeir Blöndal Magnússon 1937–1938.

  • Arnór Hannibalsson: Moskvulínan. Reykjavík 1999: Nýja bókafélagið.
  • Hannes H. Gissurarson: „Í þjálfunarbúðum byltingarmanna: Íslendingar í Lenínskólanum og Vesturskólanum í Moskvu,“ Þjóðmál 4 (4: vetur 2008), 70–86.
  • Jón Ólafsson: Kæru félagar. Reykjavík 1999: Mál og menning.
  • Þór Whitehead: Sovét-Ísland. Óskalandið. Reykjavík 2010: Ugla.