Fara í innihald

Benjamín H. J. Eiríksson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Benjamín H. J. Eiríksson (fæddur 19. október 1910, dáinn 23. júlí 2000[1]) var íslenskur hagfræðingur.[2]

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1932 og stundaði nám í Friðriks-Vilhjálms-háskólanum í Berlín 1932–1933, þar sem hann varð vitni að valdatöku nasista. Hann stundaði síðan nám í Uppsölum í Svíþjóð 1933–1935 og í leynilegum flokksskóla, Vesturskólanum í Moskvu 1935–1936. Hann lauk hagfræðiprófi frá Stokkhólmsháskóla 1938, þar sem einn kennari hans var Gunnar Myrdal. Benjamín starfaði næstu ár á Íslandi. Hann hafði gengið í kommúnistaflokkinn og síðan í Sósíalistaflokkinn, en sagði sig úr honum 1939 til að mótmæla fylgispekt flokksins við Ráðstjórnarríkin undir stjórn Stalíns.

Benjamín stundaði framhaldsnám í hagfræði í Minnesota-háskóla í Minneapolis 1942–1944, þar sem einn kennari hans var George Stigler, og Harvard-háskóla í Cambridge, Massachusetts 1944–1946, þar sem einn kennari hans var Joseph Schumpeter. Eftir doktorspróf frá Harvard-háskóla gerðist hann starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en sneri til Íslands 1951 og gerðist ráðunautur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hann var bankastjóri Framkvæmdabanka Íslands 1953–1965, þegar hann dró sig í hlé af heilsufarsástæðum.

Eftir Benjamín liggja margar greinar, ritgerðir og álitsgerðum, og var nokkrum þeirra safnað saman í Rit 1938–1965, sem kom út á áttræðisafmæli hans 1990. Prófessor Hannes H. Gissurarson skrifaði ævisögu hans, sem kom út 1996.

Benjamín H. J. Eiríksson, 1990. Rit 1938–1965. Reykjavík: Stofnun Jóns Þorlákssonar.

Hannes H. Gissurarson, 1996. Benjamín H. J. Eiríksson í stormum sinna tíða. Reykjavík: Bókafélagið.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Minningagrein „Benjamín H. J. Eiríksson“ af Mbl.is (Skoðað 27. júlí 2011).
  2. Ásgeir Jónsson. „Hver var Benjamín H.J. Eiríksson og hvert var hans framlag til hagstjórnar á Íslandi?“. Vísindavefurinn 18.1.2011. http://visindavefur.is/?id=58140. (Skoðað 27.7.2011).
  • „Hver var Benjamín H.J. Eiríksson og hvert var hans framlag til hagstjórnar á Íslandi?“. Vísindavefurinn.
  Þetta æviágrip sem tengist hagfræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.