Vesturskólinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vesturskólinn var einn af leynilegum byltingarskólum, sem alþjóðasamband kommúnista, Komintern, rak í Moskvu. Hann hét á rússnesku Коммунистический Университет Национальных Меньшинств Запада sem skammstafað var Кунмз eða KÚNMZ. Hann var stofnaður 28. nóvember 1921 og lagður niður 8. maí 1936. Hann starfaði jafnhliða Lenínskólanum, og var tilgangur beggja skóla að þjálfa byltingarmenn fyrir kommúnistaflokka Vesturlanda. Einnig starfaði í Moskvu Austurskólinn, sem átti að þjálfa byltingarmenn fyrir austlægari lönd, svo sem Kína.

Kommúnistaflokkur Íslands, sem var deild í Komintern, sendi um tuttugu Íslendinga í þjálfun í Vesturskólanum og Lenínskólanum. Fyrsti íslenski nemandinn þar var Jens Figved, sem hlaut þjálfun þar 1929–1931, en hinn síðasti Benjamín H. J. Eiríksson, sem hlaut þar þjálfun 1935–1936.

Á meðal nemenda í Vesturskólanum, sem síðar störfuðu í hinni alþjóðlegu kommúnistahreyfingu, voru Ante Ciliga og Josip Broz Tito frá Króatíu (Júgóslavíu), Peder Furubotn og Arvid G. Hansen frá Noregi og Edvard Kardelj frá Slóveníu (Júgóslavíu).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Arnór Hannibalsson: Moskvulínan. Reykjavík 1999: Nýja bókafélagið.
  • Hannes H. Gissurarson: „Í þjálfunarbúðum byltingarmanna: Íslendingar í Lenínskólanum og Vesturskólanum í Moskvu,“ Þjóðmál 4 (4: vetur 2008), 70–86.
  • Jón Ólafsson: Kæru félagar. Reykjavík 1999: Mál og menning.
  • Þór Whitehead: Sovét-Ísland. Óskalandið. Reykjavík 2010: Ugla.