Hallgrímur Hallgrímsson (f. 1910)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hallgrímur Hallgrímsson
Fæddur10. nóvember 1910
Sléttu á Mjóafirði, Íslandi
Dáinn14. nóvember 1942 (32 ára)
undan ströndum Austurlands á línuveiðaranum Sæborg
DánarorsökDrukknun
ÞjóðerniÍslenskur
MenntunVesturskólinn
Lenínskólinn
StörfVerkamaður, verkalýðsleiðtogi, byltingarmaður
FlokkurKommúnistaflokkur Íslands (1930-1938)
Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn (1938-1942)
MakiOddný Pétursdóttir
Börn1
ForeldrarKristján Hallgrímur Jónsson og Sigríður Björnsdóttir

Hallgrímur Baldi Hallgrímsson (10. nóvember 1910 – 14. nóvember 1942) var íslenskur verkalýðsleiðtogi, byltingarmaður og kommúnisti. Hann var einn þriggja Íslendinga sem ferðuðust til Spánar til að berjast með her lýðveldissinna í spænsku borgarastyrjöldinni á fjórða áratugnum. Á hernámsárum Breta á Íslandi sat hann um hríð í fangelsi vegna Dreifibréfsmálsins. Hann lést árið 1942 um borð á línuveiðaranum Sæborg, sem fórst á leið frá Seyðisfirði til Húsavíkur.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Hallgrímur fæddist á Sléttu á Mjóafirði þann 10. nóvember árið 1910. Faðir Hallgríms, Kristján Hallgrímur Jónsson, hafði látist í sjóslysi sumarið áður en Hallgrímur fæddist. Í æsku fylgdi Hallgrímur móður sinni, Sigríði Björnsdóttur, í vinnumennsku víðs vegar um Þingeyjarsýslu. Á meðan Hallgrímur gekk í Gagnfræðaskóla Akureyrar sem unglingur sótti hann kvöldnámskeið á vegum Einars Olgeirssonar þar sem hann kynntist marxískum kenningum og gerðist róttækur jafnaðarmaður. Hallgrímur hætti námi eftir gagnfræðipróf til að mótmæla brottrekstri tveggja nemenda úr Gagnfræðaskóla Akureyrar sem var gefið að sök að hafa ritað áróður fyrir Jafnaðarmannafélag Akureyrar.[2]

Hallgrímur flutti til Reykjavíkur þegar hann var tvítugur og var þar virkur bæði í greinaskrifum og verkalýðsbaráttu samhliða því sem hann vann daglaunavinnu við höfnina. Veturinn 1930 tók Hallgrímur þátt í stofnun Kommúnistaflokks Íslands. Næsta ár var Hallgrímur sendur ásamt fleiri ungliðum flokksins til Moskvu, þar sem Komintern, Alþjóðasamtök kommúnista, hafði gefið þeim umboð til að ganga í skóla.[3] Hallgrímur var eini Íslendingurinn sem gekk þar bæði í Vesturskólann og Lenínskólann, þar sem líklegt er að hann hafi hlotið nokkra þjálfun í vopnaburði.[4]

Hallgrímur sneri heim til Íslands árið 1932 og tók við stjórn Varnarliðs verkalýðsins, baráttusveitar íslenskra kommúnista sem ætlað var að veita vopnuðum lögreglusveitum Reykjavíkur og sveitum íslenskra nasista mótvægi. Hallgrímur vann sér inn mikla hylli meðal kommúnista árið 1933 þegar hann réðst ásamt félögum sínum á þýska skipið Eider við höfn Reykjavíkur og stal hakakrossfána úr stefni þess, sem Einar Olgeirsson traðkaði síðan á um kvöldið á flokksfundi Kommúnistaflokksins.[5]

Þátttaka í Spánarstríðinu[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 1937 ferðaðist Hallgrímur til Spánar í gegnum Frakkland til þess að berjast með spænska lýðveldishernum í spænsku borgarastyrjöldinni.[5] Eftir komuna til Spánar dvaldi Hallgrímur stuttlega í herskóla í Albacete en var síðan sendur í liðsforingjaskóla í Madrigueras. Þar sem Hallgrímur talaði bæði þýsku og Norðurlandamál gegndi hann mikilvægu hlutverki sem túlkur milli mismunandi þjóðerna innan Thälmannsveitanna í lýðveldishernum. Talið er að hann hafi einnig verið pólitískur leiðtogi innan sveitanna sem var falið að skikka til hermenn og viðhalda aga.[6] Hallgrímur barðist í orrustunni um Ebro og hlaut heiðursmerki og liðþjálfatign fyrir framgöngu sína í baráttunni um Gandesa og Batea.[7]

Hallgrímur fór frá Spáni þann 20. nóvember árið 1938 eftir að stjórn lýðveldisins ákvað að senda alla erlenda sjálfboðaliða heim. Hann kom heim til Íslands þann 4. desember og ferðaðist um landið til að halda fyrirlestra um reynslu sína úr Spánarstríðinu. [8]

Handtaka og dauði[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Bretar hertóku Ísland í seinni heimsstyrjöldinni komst Hallgrímur árið 1941 í kast við yfirvöld í tengslum við Dreifibréfsmálið svokallaða.[9] Hallgrímur var sakaður um að hafa þýtt dreifibréf á ensku þar sem breskir hermenn voru hvattir til að ganga ekki í störf íslenskra verkamanna sem voru í verkfalli. Fyrir vikið var Hallgrímur handtekinn og fyrst haldið í Hegningarhúsinu en svo á Litla-Hrauni, þar sem honum var haldið í einangrunarvist í 52 daga.[10] Hallgrímur veiktist í fangavistinni og lá á röntgendeild Landspítalans á meðan kona hans, Oddný Pétursdóttir, fæddi dóttur þeirra í júlí 1941.[11]

Hallgrími var sleppt úr fangelsi þann 20. desember 1941 og hóf fljótt störf í stjórn- og verkalýðsmálum á ný. Haustið 1942 ferðaðist hann um Austfirði sem erindreki Sósíalistaflokksins og flutti erindi um Spánarstyrjöldina. Þann 14. nóvember fékk hann far með línuveiðaranum Sæborg áleiðis til Húsavíkur. Skipið skilaði sér hins vegar aldrei á leiðarenda. Talið er að það hafi rekist á tundurdufl á leiðinni og farist ásamt öllum innanborðs.[11]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hallgrímur Hallgrímsson (2019). Einar Kári Jóhannsson; Styrmir Dýrfjörð (ritstjórar). Undir fána lýðveldisins: Endurminningar frá Spánarstyrjöldinni (2. útgáfa). Reykjavík: Una útgáfuhús. ISBN 978-9935-24-504-5.
Tilvísanir
  1. „Hallgrímur Hallgrímsson“. Landneminn. 31. desember 1942. Sótt 22. ágúst 2019.
  2. Undir fána lýðveldisins, bls. 190.
  3. Undir fána lýðveldisins, bls. 191.
  4. Undir fána lýðveldisins, bls. 192.
  5. 5,0 5,1 Undir fána lýðveldisins, bls. 194.
  6. Undir fána lýðveldisins, bls. 207.
  7. Undir fána lýðveldisins, bls. 206.
  8. Undir fána lýðveldisins, bls. 208.
  9. „Um dreifibréfsmálið“. Landneminn. 25. maí 1941. Sótt 22. ágúst 2019.
  10. Undir fána lýðveldisins, bls. 209.
  11. 11,0 11,1 Undir fána lýðveldisins, bls. 211.