Fara í innihald

Kirkjuból (Miðnesi)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kirkjuból

Kirkjuból

Kirkjuból er jörð og áður bær á Miðnesi, norðarlega. Kirkjuból var mikil og góð jörð fyrr á öldum en hefur hrakað mjög vegna landbrots og auðnar í Miðnesheiði af völdum hrísrifs og ofbeitar.

Um 1430 bjó á Kirkjubóli Ívar Vigfússon Hólm, sonur Vigfúsar Ívarssonar hirðstjóra (d. 1420) og hjá honum var systir hans, Margrét. Árið 1432 var Jón Gerreksson biskup í Skálholti og hafði um sig sveit manna, sem voru hinir verstu ribbaldar. Forsprakki þeirra hét Magnús og er titlaður kæmeistari, en það mun líklega vera sama og bryti. Sagt er að hann hafi beðið Margrétar Vigfúsdóttur, en fengið hryggbrot. Til þess að hefna fyrir þá hneisu gerðu sveinar Jóns Gerrekssonar áhlaup á bæinn á Kirkjubóli. Lögðu þeir eld í bæinn og drápu alla nema Margréti, en hún komst ein úr brennunni og gat flúið á hesti. Komst hún norður í land segir sagan, og sór að giftast þeim manni einum, sem hefndi brennunnar. Til þess urðu Þorvarður Loftsson (sonur Lofts ríka Guttormssonar) á Möðruvöllum í Eyjafirði og vinur hans, Teitur Gunnlaugsson í Bjarnanesi í Hornafirði, en þeir fóru með her í Skálholt og drápu biskupssveina og drekktu Jóni biskupi í Brúará. Voru þeir frekar að hefna harma sinna en Margrétar, en hún giftist síðar Þorvarði og voru þau ríkustu hjón á Íslandi á sinni tíð.

Löngu síðar gerðust aftur sögulegir atburðir á Kirkjubóli á Miðnesi. Eftir aftöku Jóns Arasonar og sona hans í Skálholti haustið 1550, var Kristján skrifari, sem hét réttu nafni Christian Schriver og var umboðsmaður hirðstjóra konungs, á ferð suður með sjó til að innheimta afgjöld konungsjarða. Það mun hafa verið seinni hluta vetrar 1551. Þá fengu norðlenskir vermenn, sem voru fjölmennir á Suðurnesjum, fregnir af því að hann mundi gista á Kirkjubóli. Söfnuðu þeir liði og gerðu árás á bæinn og drápu þar Kristján skrifara og fylgdarmenn hans alla til hefnda eftir Jón Arason. Bóndinn á Kirkjubóli var ákærður fyrir að hafa verið í vitorði með norðlingum og var hann dæmdur til dauða. Hann var hálshöggvinn í Straumi við Straumsvík vorið 1551.

Skagagarðurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Snemma á öldum var akuryrkja á Garðskaga. Þá var hlaðinn veggur eða garður frá túngarði á Kirkjubóli í beina stefnu að Útskálum í Garði, en þetta er um 1,3 kílómetra leið. Garðurinn hefur líklega verið reistur á 10. öld. Garður þessi var mikið mannvirki og mótar fyrir honum enn í dag, þar sem hann er sokkinn í jörð. Tilgangurinn með mannvirkinu er talinn hafa verið að verja akurlöndin fyrir búfé, sér í lagi kindum. Garðurinn var stöllóttur þeim megin sem að akurlöndunum sneri, en þverhníptur hinum megin. Þetta var til þess að hægt væri að reka kindur, sem inn komust, beint á garðinn og stukku þær þá upp stallana að innanverðu og út af honum að utanverðu. Af þessum garði dregur Garðskagi nafn sitt, svo og sveitarfélagið Garður.