Fara í innihald

José María Aznar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
José María Aznar
Aznar árið 2003.
Forsætisráðherra Spánar
Í embætti
5. maí 1996 – 16. apríl 2004
ÞjóðhöfðingiJóhann Karl 1.
ForveriFelipe González
EftirmaðurJosé Luis Rodríguez Zapatero
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. febrúar 1953 (1953-02-25) (71 árs)
Madríd, Spáni
ÞjóðerniSpænskur
StjórnmálaflokkurÞjóðarflokkurinn
MakiAna Botella (g. 1977)
Börn3
HáskóliComplutense-háskólinn í Madríd
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

José María Alfredo Aznar López (f. 25. febrúar 1953) er spænskur stjórnmálamaður úr Þjóðarflokknum sem var forsætisráðherra Spánar frá 1996 til 2004.

José María Aznar fæddist árið 1953 í Madríd. Faðir hans var blaðamaður og afi hans sendiherra.[1] Eftir að hafa lokið lögfræðinámi við Complutense-háskólann í Madríd varð Aznar starfsmaður hjá spænska skatteftirlitinu.[2] Aznar var fyrst kjörinn á þing fyrir spænska Þjóðarflokkinn árið 1982, þá 29 ára gamall. Árið 1987 bauð Aznar sig fram í embætti forseta sjálfsstjórnarsvæðisins Kastilíu-León og náði kjöri þrátt fyrir talsvert mótlæti flokksfélaga sinna.[1]

Hann varð leiðtogi Þjóðarflokksins árið 1989 og tók við af Manuel Fraga, fyrrum ráðherra í einræðisstjórn Francisco Franco. Þjóðarflokkurinn vonaðist til þess að yngja ímynd flokksins og fjarlægjast arfleifð Franco-stjórnarinnar. Fraga hafði sjálfur stutt Aznar sem eftirmann sinn og hafði hafnað öðrum formannsefnum.[2] Aznar boðaði sókn Þjóðarflokksins að miðjunni og reyndi að gera flokkinn boðlegri spænskum kjósendum með því að leggja áherslu á hann sem hófsaman kristilegan lýðræðisflokk fremur en sem arftaka einræðisstjórnarinnar. Aznar tókst með þessu að auka verulega fylgi við Þjóðarflokkinn auk þess sem hann naut góðs af pólitískum spillingar- og hneykslismálum sem skóku ríkisstjórn Felipe González, leiðtoga Sósíalíska verkamannaflokksins.[3][4]

Undir forystu Aznars vann Þjóðarflokkurinn nauman sigur á sósíalistum í þingkosningum árið 1996 en náði þó ekki hreinum þingmeirihluta.[1] Aznar myndaði minnihlutastjórn með stuðningi þjóðernisflokka í Baskalandi og Katalóníu auk nokkurra þingmanna frá Kanaríeyjum.[5] Stuðningur þjóðernishreyfinganna við minnihlutastjórn Aznars þótti óstöðugur um hríð[6] en stjórnin hélt þó út kjörtímabilið. Sem forsætisráðherra var Aznar umhugað að tryggja að Spánn yrði meðal stofnríkja Efnahags- og myntbandalags Evrópusambandsins (EMU). Þetta þótti metnaðarfullt markmið þar sem verðbólga var há á Spáni og skilyrði fyrir stofnaðild að EMU voru ströng. Meðal annars var gert ráð fyrir því að halli á ríkisútgjöldum yrði undir andvirði 3% vergrar þjóðarframleiðslu.[7] Stjórn Aznars náði því markmiði og efnahagur Spánar vænkaði jafnframt nokkuð á stjórnartíð hans með lækkandi atvinnuleysi og verðlagi og samningum sem gerðir voru við verkalýðsfélög um aukinn sveigjanleika við ráðningu starfsmanna.[5]

Stjórn Aznars vann stórsigur í þingkosningum árið 2000 og Þjóðarflokkurinn vann í fyrsta skipti hreinan meirihluta á spænska þinginu.[8] Seinna kjörtímabil Aznars litaðist hins vegar að nokkrum deilumálum, sér í lagi einörðum stuðningi stjórnar hans við Bandaríkin í Íraksstríðinu og stríðinu gegn hryðjuverkum. Stuðningur Aznars við Íraksstríðið varð mjög óvinsæl meðal Spánverja, sem voru flestir mótfallnir því. Einnig voru margir landsmenn óánægðir með viðbrögð stjórnarinnar við olíuslysi þegar gríska olíuskipið Prestige sökk við strendur Galisíu í nóvember árið 2003 og olli bæði skemmdum á náttúrulífi og erfiðaði útgerðir frá Spáni. Stjórn Aznars vann engu að síður varnarsigur gegn sósíalistum í héraðskosningum árið 2003 og horfur Þjóðarflokksins til sigurs í þriðja skipti í röð þóttu góðar í aðdraganda þingkosninga ársins 2004.[9][10] Aznar ákvað þó að vera ekki aftur forsætisráðherraefni flokksins og steig til hliðar úr formannsstól Þjóðarflokksins fyrir samstarfsmanni sínum, Mariano Rajoy.[11]

Þann 11. mars árið 2004, fáeinum dögum áður en þingkosningar áttu að fara fram, voru framdar mannskæðar sprengjuárásir í Madríd. Aznar var fljótur að kenna basknesku sjálfstæðishreyfingunni ETA um árásina, en brátt kom í ljós að hryðjuverkasamtökin Al-Kaída stóðu á bak við hana. Margir Spánverjar töldu að Spánn hefði orðið að skotmarki Al-Kaída vegna stuðnings Aznars við Íraksstríðið og vændu Aznar jafnframt um að villa um fyrir almenningi með því að útmála ETA sem sökudólgana í aðdraganda kosninganna. Árásin og viðbrögð Aznars við henni áttu sinn þátt í því að í kosningunum tapaði Þjóðarflokkurinn óvænt gegn Sósíalistaflokknum. Þegar kjörtímabili Aznars lauk þann 16. apríl 2004 tók því leiðtogi sósíalista, José Luis Rodríguez Zapatero, við af honum sem forsætisráðherra.[12]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. 1,0 1,1 1,2 „Aznar í erfiðri stöðu“. Morgunblaðið. 5. mars 1996. bls. 29.
 2. 2,0 2,1 Bogi Arason (6. júní 1993). „Aznar berst við vofu Francos“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
 3. Ragnar Bragason (31. desember 1994). „Þörf á pólitískri og siðferðislegri endurnýjun“. Morgunblaðið. bls. 20-21.
 4. Ásgeir Sverrisson (3. mars 1996). „Spillingin vegur þyngra en persónutöfrar Gonzalez“. Morgunblaðið. bls. 12.
 5. 5,0 5,1 Ásgeir Sverrisson (24. janúar 1999). „Aznar gengur allt í haginn“. Morgunblaðið. bls. 14.
 6. Ásgeir Sverrisson (19. nóvember 1997). „Þjóðernissinnar hafa í hótunum við Aznar“. Morgunblaðið. bls. 6.
 7. Ásgeir Sverrisson (23. mars 1997). „Er leiðtoginn sterkur eða strengjabrúða?“. Morgunblaðið. bls. 12-13.
 8. Ásgeir Sverrisson (14. mars 2000). „Sigri Aznars lýst sem „pólitískum landskjálfta". Morgunblaðið. bls. 24.
 9. „Aznar hratt sókn sósíalista“. Morgunblaðið. 27. maí 2003. bls. 16.
 10. Ásgeir Sverrisson (14. mars 2004). „„Þrenna" Þjóðarflokksins?“. Morgunblaðið. bls. 14.
 11. Ásgeir Sverrisson (11. mars 2004). „Grái maðurinn kveður“. Morgunblaðið. bls. 38-39.
 12. „Öfgalaus og yfirvegaður“. Fréttablaðið. 17. mars 2004. Sótt 13. júní 2020.


Fyrirrennari:
Felipe González
Forsætisráðherra Spánar
(4. maí 199616. apríl 2004)
Eftirmaður:
José Luis Rodríguez Zapatero