Fara í innihald

Jeffrey Epstein

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jeffrey Epstein
Jeffrey Epstein árið 2013.
Fæddur20. janúar 1953
Dáinn10. ágúst 2019 (65 ára)
Metropolitan-fangelsinu, New York, Bandaríkjunum
DánarorsökHengdur eða kyrktur (umdeilt)
ÞjóðerniBandarískur
MenntunCooper Union (óútskrifaður)
Courant Institute (óútskrifaður)
StörfFjársýslumaður, bankamaður
Undirskrift

Jeffrey Edward Epstein (20. janúar 1953 – 10. ágúst 2019) var bandarískur fjársýslumaður og dæmdur kynferðisafbrotamaður. Epstein hagnaðist verulega sem banka- og kaupsýslumaður á níunda og tíunda áratugnum og umgekkst marga af frægustu og ríkustu mönnum heims á þeim tíma. Árið 2008 var hann dæmdur af dómstól í Flórída fyrir að kaupa kynlíf af ólögráða stúlku og dvaldi í fangelsi í 13 mánuði.

Epstein var handtekinn í annað sinn árið 2019 í tengslum við stórtækan kynlífsþrælkunarhring sem hann rak í Flórída og New York. Hann lést í fangelsi þann 10. ágúst 2019. Eftir krufningu á líki hans var komist að þeirri niðurstöðu að Epstein hefði fyrirfarið sér[1] en sú niðurstaða hefur verið mjög umdeild.[2] Ákærur gegn Epstein voru felldar niður eftir dauða hans.[3]

Jeffrey Epstein fæddist árið 1953 í Brooklyn-hverfi í New York-borg.[4] Hann lagði stund á eðlisfræði í Cooper Union-skólanum í Manhattan og síðar í háskólanum Courant Institute en lauk ekki námi. Á áttunda áratugnum kenndi Epstein stærðfræði og eðlisfræði við Dalton-skólann á Manhattan en skipti um starfsgrein eftir að hann kynntist föður eins nemanda síns sem var vel tengdur á Wall Street. Hann fékk vinnu hjá verðbréfafyrirtækinu Bear Stearns árið 1976 og varð einn eigenda fyrirtækisins eftir nokkur ár.[5]

Epstein hætti störfum hjá Bear Stearns árið 1981 og stofnaði eigin fjárfestingarsjóð sem sérhæfði sig í þjónustu við milljarðamæringa. Hann efnaðist vel á næstu árum og vingaðist við marga af þekktustu og auðugustu mönnum heims á þessum tíma, meðal annars Bill Gates, Woody Allen, Bill Clinton, Donald Trump og Andrés Bretaprins.[5]

Árið 2005 tilkynnti fjórtán ára stúlka að Epstein hefði misnotað sig kynferðislega á setri sínu á Palm Beach. Hún sakaði hann um að hafa greitt sér 300 dollara í skiptum fyrir að afklæðast og nudda hann. Ellefu mánaða lögreglurannsókn sem fór fram árin 2005-2006 leiddi í ljós að Epstein hefði með skipulögðum hætti tælt til sín fjölda stúlkna sem hann vissi að voru undir lögaldri og greitt þeim fyrir kynlíf. Epstein og tveir aðstoðarmenn hans voru kærðir fyrir barnaníð í maí árið 2006. Epstein gerði samning við fylkissaksóknarann Alexander Acosta um að játa á sig að hafa haft milligöngu um vændissölu og var fyrir vikið aðeins dæmdur í þrettán mánuða fangelsi. Alvarlegri ákærur sem hefðu getað skilað honum lífstíðardómi voru hins vegar felldar niður.[5]

Epstein var undir áhrifum af hugmyndum arfbótastefnu og samkvæmt umfjöllun The New York Times um hann hafði hann uppi hugmyndir um að nota glæsibúgarð sinn í Nýju-Mexíkó sem frjóvgunarmiðstöð þar sem hann gæti frjóvgað fjölda kvenna með sæði sínu.[6]

Í júlí árið 2019 var Epstein handtekinn í annað sinn og hann ákærður fyrir mansal eftir endurskoðun á fyrri samningi hans við stjórnvöld.[7] Hann var sakaður um að stjórna víðfeðmum samtökum sem stunduðu mansal og barnaníð í Flórída og New York.[8] Í ákæru New York-fylkis gegn Epstein var hann sakaður um að hafa skapað víðfemt net fórnarlamba, aðallega stúlkna undir lögaldri, sem hann tældi til sín og greiddi fyrir kynlíf í lúxusíbúðum sínum á Manhattan og Palm Beach í Flórída. Þá hafi hann greitt mörgum þeirra til að finna fleiri fórnarlömb og hafi þannig útvíkkað mansalshringinn sem hann rak.[9]

Þann 24. júlí fannst Epstein hálfmeðvitundarlaus með áverka á hálsi í klefa sínum fangelsi í New York. Áverkarnir leiddu til gruns um að Epstein hefði reynt að svipta sig lífi eða orðið fyrir árás.[10] Þann 10. ágúst fannst Epstein látinn í klefa sínum. Réttarlæknir staðfesti fimm dögum síðar að um sjálfsmorð hefði verið að ræða en sú skýring hefur verið mjög umdeild og dauði Epsteins hefur orðið kveikjan að fjölda samsæriskenninga.[11][12]

Samverkakona og fyrrverandi kærasta Epsteins, Ghislaine Maxwell, var handtekin þann 2. júlí 2020 og ákærð fyrir að aðstoða Epstein við að misnota ólögráða stúlkur. Réttarhöld í máli hennar hófust í nóvember 2021.[13] Maxwell var sakfelld fyrir alla ákæruliði nema einn í desember sama ár.[14]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Róbert Jóhannsson (17. ágúst 2019). „Staðfest að Epstein fyrirfór sér“. RÚV. Sótt 18. nóvember 2019.
  2. Fanndís Birna Logadóttir (30. október 2019). „Segir að Jeffrey Ep­stein hafi verið myrtur“. Fréttablaðið. Sótt 18. nóvember 2019.
  3. Róbert Jóhannsson (30. október 2019). „Málið gegn Epstein fellt niður“. RÚV. Sótt 18. nóvember 2019.
  4. Tinna Eiríksdóttir (9. júlí 2019). „Hver er Jeffrey Epstein?“. RÚV. Sótt 18. nóvember 2019.
  5. 5,0 5,1 5,2 Kristjana Björg Guðbrandsdóttir; Ólöf Skaftadóttir (17. ágúst 2019). „Níddist á brotnum stúlkum“. Fréttablaðið. Sótt 18. nóvember 2019.
  6. Kristín Ólafsdóttir (1. ágúst 2019). „Epstein sagður hafa viljað kynbæta mannkynið með frjóvgunarmiðstöð á búgarði sínum“. Vísir. Sótt 19. nóvember 2019.
  7. „Ep­stein ákærður fyr­ir man­sal“. mbl.is. 7. júlí 2019. Sótt 19. nóvember 2019.
  8. „Lokkaði ung­ar stúlk­ur í glæsi­hýsi sín“. mbl.is. 8. júlí 2019. Sótt 19. nóvember 2019.
  9. „Fékk stúlk­urn­ar til að finna ný fórn­ar­lömb“. mbl.is. 8. júlí 2019. Sótt 19. nóvember 2019.
  10. Kristín Ólafsdóttir (25. júlí 2019). „Ep­stein fannst „hálf­með­vitundar­laus" í fanga­klefa“. Vísir. Sótt 19. nóvember 2019.
  11. Róbert Jóhannsson (14. ágúst 2019). „Tveir fangaverðir reknir vegna Epstein“. RÚV. Sótt 19. nóvember 2019.
  12. Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (16. ágúst 2019). „Stað­fest að Ep­stein framdi sjálfs­víg“. Vísir. Sótt 19. nóvember 2019.
  13. „Réttarhöld yfir Maxwell að hefjast“. mbl.is. 27. nóvember 2021. Sótt 3. desember 2021.
  14. Urður Ýrr Brynjólfsdóttir (29. desember 2021). „Ghisla­ine Maxwell sak­felld í öllum ákæruliðum nema einum“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. júní 2022. Sótt 29. desember 2021.