Fara í innihald

Jónas Guðlaugsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jónas Guðlaugsson (27. ágúst 188715. apríl 1916) var íslenskt ljóðskáld, ritstjóri, blaðamaður og rithöfundur. Hann skrifaði í fyrstu ljóð á íslensku og gaf seinna út smásögur, skáldsögur og ljóð á dönsku. Hann skrifaði einnig greinar í norsk blöð, dönsk og sænsk.

Uppvaxtarár

[breyta | breyta frumkóða]

Jónas fæddist að Staðarhrauni í Mýrarsýslu, sonur séra Guðlaugs Guðmundssonar og Margrétar Jónasdóttur. Jónas fór að heiman um tólf ára aldur og fór þá að búa sig undir skóla. Faðir hans gat ekki liðsinnt honum mikið vegna vaxandi ómegðar. Þrátt fyrir lítil peningaráð tókst Jónasi að komast í skóla og settist í Latínuskólann, þar var hann m.a. bekkjarbróðir Ásmundar Guðmundssonar biskups. Jónas lauk ekki stúdentsprófi og var ástæðan sú að öllum í bekk hans var vikið úr skóla vegna óspekta. Seinna var þeim gefinn kostur á að ljúka prófinu en ekki vildi Jónas þá þekkjast það boð. Þess í stað fór hann átján ára gamall að starfa við blaðamennsku og stjórnmál. Hann var um tíma ritsjóri Valsins á Ísafirði. Hann var ekki nema sextán ára þegar hann var orðinn áróðursmaður fyrir Landvarnarflokkinn.

Jónas kvænist

[breyta | breyta frumkóða]

Snemma ætlaði Jónas sér stóra hluti og hann taldi sig enga framtíð eiga á Íslandi og vildi komast til útlanda. Fyrst fór hann í ferðalag með móðurbróður sínum til Danmerkur, en það ferðalag reyndist honum afdrifaríkt. Á hóteli er þeir frændur gistu í ferðinni kynntist Jónas óvenjulega glæsilegri konu, Thorborg Schójen að nafni. Hún var dóttir yfirhershöfðingja Norðmanna.

Ferðalag þeirra frænda hélt áfram og eftir að hafa starfað veturinn 1907-1908 sem blaðamaður við danska blaðið Social-Demokraten sneri Jónas heim til Íslands. Thorborg var ekki með öllu ósnortin af hinu unga skáldi, því hún hélt á eftir Jónasi til Íslands og þar lyktaði ævintýrinu svo, að sögn Jóhönnu systur Jónasar, að þau Jónas og Thorborg Schójen gengu í hjónaband og hófu búskap í Kirkjustræti 8 í Reykjavík. Þau Jónas og Thorborg eignuðust saman eina dóttur, Áslaugu Margréti (f. 1909). Þau urðu að koma henni í fóstur til Þórðar Thoroddsen læknis, vegna veikinda Thorborgar. Telpan dó á fyrsta ári úr lungnabólgu.

Nokkru eftir dauða dóttur þeirra fóru ungu hjónin til Noregs þar sem þau dvöldu um tíma í góðu yfirlæti hjá móður Thorborgar. Jónas skrifaði þar í blöð og orti kvæði og kynntist norskum skáldum sem urðu góðir vinir hans. En fátæktin plagaði þau. Þaðan fór Jónas með konu sinni til Kaupmannahafnar. Eftir að þau fluttust þangað þurfti Jónas að fara í ferðalag til Þýskalands. Á meðan hann var í Þýskalandi kynntist Thorborg sænskum barón af tignum ættum og giftist honum nokkru seinna og bjó á Skáni.

Jónas vann fyrir nauðþurftum sínum sem blaðamaður hjá Politiken. Nokkru seinna lenti hann í illdeilum við Valtý Guðmundsson og lyktaði þeim deilum með því að Jónas missti stöðuna. Hann slóst í hóp hinna ungu upprennandi skálda sem hópuðust í kringum Jóhann Sigurjónsson. Ekki voru allir jafn hrifnir af Jónasi. Sagt er að Gunnar Gunnarsson hafi haft Jónas að fyrirmynd persónunnar Davíðs Jónmundssonar í Fjallkirkjunni. Um það eru deildar meiningar. Aðrir voru mjög hrifnir af Jónasi, þar á meðal Guðmundur G. Hagalín.

Skáldafrægð

[breyta | breyta frumkóða]

Jónasi tókst að að hasla sér völl í dönskum bókmenntum. Fyrsta bókin sem hann skrifaði á dönsku var ljóðabókin Sange fra Nordhavet, sem kom út hjá Gyldendal haustið 1911. Viðtökur voru mjög góðar. Önnur ljóðabók Jónasar á dönsku var Viddernes Poesi, og festi hún hann í sessi sem athyglisvert og efnilegt skáld. Auk frumsaminna verka þýddi hann Fólkið við hafið, eftir Harry Söiberg og Marie Grubbe eftir J.P. Jacobsen á íslensku. Jónas var einnig afkastamikill greinahöfundur og skrifaði fyrir blöð í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Árið 1915 fékk hann Carl Möllers humoristiske Legat sem voru verðlaun fyrir gott skopskyn. Í dönsku blöðunum (Sund Sans) stóð: „...nú kastar þó tólfunum þegar nefndin hefir veitt styrkinn hinum íslenska harmagráti, Jónasi Guðlaugssyni, manni, sem aldrei hefir komið nokkuð gamansamt í hug“. [1]

Jónas kvænist á ný

[breyta | breyta frumkóða]

Jónas kom síðast til Íslands árið 1911. Hann kvæntist í annað sinn árið 1912, þýskri konu af hollenskum ættum, Marietje Ingenohl og var hún sjúkraþjálfari að mennt. Eftir að Jónas kvæntist Marietje gaf hann út fjórar bækur: skáldsögurnar Solrun og hendes Bjelere og Monika, smásagnasafnið Bredefjordsfolk og ljóðabókina Sange fra de blaa Bjærge. Sögur Jónasar hlutu góðar viðtökur. Hann bjó síðustu æviár á Skagahóteli á Skagen (þ.e. Vendilskaga). Jónas eignaðist einn son með Marietje, Sturla hét hann og var lengi deildarstjóri við konunglega listastafnið í Haag. Sturla dó 1971, ókvæntur.

Jónas lést á Skagahóteli. Hann dó að morni dags, og var í þann veginn að flytjast til Kaupmannahafnar og voru kona hans og sonur farin á undan honum frá Vendilskaga. Um nóttina hafði Jónas unnið að því að pakka saman búslóð þeirra Marietje. Um morgunin fékk hann blóðspýting og dó. Þýskir læknar töldu að hann hefði fengið magablæðingu. Við dánarbeð hans sat Mor Anni, sem rak Skagehótel. Andlátsorð hans samkvæmt henni voru: Það er gott að deyja inn í sólina og vorið. Þá nefndi hann nafn konu sinnar og sonar og dó að svo mæltu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Landar erlendis; grein í Morgunblaðinu 1915
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.