Fara í innihald

Jón Jónsson (lögmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sjá aðgreiningarsíðu fyrir aðra einstaklinga sem heita Jón Jónsson.

Jón Jónsson (um 153624. júní 1606) var íslenskur lögmaður, sýslumaður og klausturhaldari á 16. öld. Hann bjó um tíma á Vindheimum í Skagafirði og var oft kallaður Vindheima-Jón. Síðar bjó hann á Reynistað og Þingeyrum.

Jón var af Svalbarðsætt, sonur Jóns ríka Magnússonar á Svalbarði og konu hans, Ragnheiðar Pétursdóttur á rauðum sokkum. Bræður hans voru þeir Staðarhóls-Páll, Magnús prúði og Sigurður á Reynistað en systur hans Steinunn fylgikona séra Björns Jónssonar á Melstað, síðar gift Eggerti Hannessyni lögmanni, og Þórdís húsfreyja í Lögmannshlíð. Voru þeir Svalbarðsbræður mjög áberandi og valdamiklir á síðari hluta 16. aldar.

Jón sigldi utan með Páli bróður sínum og fleiri höfðingjum 1568 og hafa þeir þá verið um tvítugt. Vorið eftir fékk hann verndarbréf Friðriks konungs 2. ásamt fyrirmælum til Valkendorfs höfuðsmanns um að veita Jóni Reynistaðarklaustursumboð. Hann var kosinn lögmaður þegar Ormur Sturluson var settur úr embætti 1573.

Hann þótti kappsamur lögmaður, stóð fast móti biskupum og klerkavaldi og naut til þess stuðnings ýmissa annarra embættismanna, svo sem Þórðar Guðmundssonar lögmanns sunnan og austan. Töldu þeir að kirkjan væri að reyna að svæla undir sig vald og eignir. Biskupar héldu því aftur á móti fram að lögmennirnir væru of uppivöðslusamir og vildu sveigja allt undir sig og ekki lúta valdi Alþingis. Hvorugur vildi láta hlut sinn og fór því oft svo að höfuðsmaður réði því sem hann vildi og skaraði eld að sinni köku eða konungsvaldsins. Guðbrandur biskup var helsti andstæðingur Jóns og inn í þetta blönduðust einnig hatrammar deilur um Morðbréfamálið svonefnda. Um deilur Jóns og biskups segir Jón Sigurðsson í Lögsögumannatali og lögréttumanna: „Ekki skulum vér rannsaka hér hver réttara muni hafa haft í hverju máli, því hafi nokkurtíma sannazt máltækið: „sjaldan veldr einn þá tveir deila,“ þá hefir það sannazt á þeim.“

Jón þótti fjáraflamaður og fékk Þingeyraklaustursumboð og sýsluvöld í Húnavatnssýslu og ýmsar fleiri sposlur nyrðra og seinna líka Stapaumboð og sýsluvöld í Snæfellsnessýslu. Hann hélt lögmannsembættinu til dauðadags en hlutverk lögmanna breyttist með konungsbréfi 6. desember 1593, þar sem gefin var út tilskipan um yfirrétt; þar með var lögsagnarhutverki lögmannanna lokið.

Síðustu árin hafði Jón hægara um sig og sættist við Guðbrand biskup, að minnsta kosti að nafninu til. Vorið 1606 kom nýr höfuðsmaður til landsins, Herluf Daa, og fór Jón suður að Bessastöðum að finna hann. Nýi höfuðsmaðurinn veitti vel og Jón var ölvaður þegar hann gekk til hvílu í tjaldi sínu. Er sagt að hann hafði þá þóst kominn í gott vinfengi við höfuðsmanninn, ætlað að takast aftur á við Guðbrand biskup og sagt kampakátur „nú skal Gutti setja ofan“. En um morguninn var hann látinn.

Kona Jóns var Guðrún (d. 1597), dóttir Gísla Hákonarsonar bónda á Hafgrímsstöðum í Tungusveit og systir Árna Gíslasonar sýslumanns á Hlíðarenda. Þau voru barnlaus. Ári eftir lát hennar giftist Jón Guðrúnu Einarsdóttur (d. 1638) frá Staðarstað, sonardóttur Marteins biskups. Börn þeirra dóu ung. Eftir lát Jóns giftist Guðrún Steindóri Gíslasyni sýslumanni á Knerri, syni Gísla Þórðarsonar lögmanns, þekktum svallara sem sóaði öllum eignum þeirra beggja svo að þau dóu örsnauð.


Fyrirrennari:
Ormur Sturluson
Lögmaður norðan og vestan
(15731606)
Eftirmaður:
Jón Sigurðsson