Fara í innihald

Magnús Jónsson prúði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Magnús prúði og Ragnheiður Eggertsdóttir ásamt börnum þeirra. Óþekktur listamaður, 16. öld.

Magnús Jónsson prúði (f. 1532/1533 – d. 1591) var íslenskur sýslumaður og höfðingi á 16. öld. Hann bjó í Rauðuskriðu í Þingeyjarsýslu, Ögri við Ísafjarðardjúp og Saurbæ (Bæ) á Rauðasandi.

Magnús var af Svalbarðsætt, sonur Jóns Magnússonar sýslumanns á Svalbarði og konu hans, Ragnheiðar Pétursdóttur á rauðum sokkum. Bræður hans voru Sigurður sýslumaður á Reynistað, Staðarhóls-Páll og Jón lögmaður á Vindheimum en elsta systir hans var Steinunn, fylgikona Björns Jónssonar prests á Melstað, síðar gift Eggert Hannessyni lögmanni.

Magnús fór ungur til útlanda til náms og dvaldi allmörg ár í Þýskalandi. Þegar hann kom heim varð hann fyrst sýslumaður í Þingeyjarsýslu og bjó í Rauðuskriðu, en árið 1564 fluttist hann í Ísafjarðarsýslu og settist að í Ögri. Sú jörð var í eigu Eggerts Hannessonar, sem þá var mágur Magnúsar og varð skömmu síðar tengdafaðir hans. Þegar Eggert fluttist til Hamborgar um 1580 flutti Magnús sig að Bæ, þar sem Eggert hafði búið, og varð sýslumaður í Barðastrandarsýslu.

Magnús þótti mikilhæfur maður en harður í horn að taka eins og bræður hans og lítið gefinn fyrir að láta hlut sinn. Hann þótti þó rækja embætti sitt vel og án þess að sýna öðrum uppivöðslusemi, eins og viðurnefni hans ber vitni um. Hann var skörungur í héraðsstjórn og góður lagamaður. Fara sögur af því að hann hafi þótt glæsilegasti höfðingi á Íslandi um sína daga og hafði hann stóran flokk vopnaðra manna með sér þegar hann reið til þings.

Honum voru varnir landsins hugleiknar og er hans ekki síst minnst fyrir svokallaðan Vopnadóm, sem hann fékk samþykktan á héraðsþingi í Tungu í Örlygshöfn 12. október 1581, en þar er kveðið á um að hver fulltíða maður skyldi eiga vopn og bera þau. Hefur það sjálfsagt haft áhrif að tveimur árum áður höfðu erlendir ribbaldar rænt Eggerti tengdaföður hans og krafist hárrar fjárhæðar í lausnargjald. Þessi dómur var þó aldrei leiddur í lög á alþingi og óvíst að vopnaeign manna hafi aukist nema e.t.v. á Vestfjörðum, þar sem hún var meiri en annars staðar á öndverðri 17. öld eins og kom í ljós í Spánverjavígunum 1615, þar sem Ari sonur Magnúsar var í forystuhlutverki.

Magnús var vel lærður og fékkst við fræðistörf og ritun en þekktastur er hann þó sem rímnaskáld og eru til tveir rímnaflokkar eftir hann, Amíkus rímur og Amilíus og Pontus rímur (þó aðeins þrettán fyrstu rímurnar), sem nutu mikilla vinsælda.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Fyrri kona Magnúsar var Elín Jónsdóttir, sem var dóttir Guðnýjar Grímsdóttur, stjúpmóður Magnúsar, og fyrri manns hennar. Elín dó 1564 og voru þau barnlaus. 22. september 1565 kvæntist hann Ragnheiði (1550 - 6. ágúst 1642), dóttur Eggerts Hannessonar, og var hún þá fimmtán ára en hann líklega um fertugt. Þau eignuðust fjölda barna og urðu flestir synir og tengdasynir Magnúsar sýslumenn.

Börnin voru: Jón (eldri), sýslumaður í Haga á Barðaströnd; Ragnheiður, kona Einars sýslumanns Hákonarsonar í Ási í Holtum; Elín, kona Sæmundar Árnasonar sýslumanns á Hóli í Bolungarvík; Sesselja, kona Ísleifs Eyjólfssonar umboðsmanns í Saurbæ á Kjalarnesi; Ari, sýslumaður í Ögri; Jón danur, bóndi á Eyri í Seyðisfirði við Ísafjarðardjúp; Björn, sýslumaður í Saurbæ á Rauðasandi; Þorleifur, sýslumaður á Hlíðarenda; Guðrún, kona Hinriks Gíslasonar sýslumanns á Innra-Hólmi; Katrín, kona Bjarna Hákonarsonar klausturhaldara í Mörk og á Keldum; Kristín og Pétur, sem dóu ógift.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Jón Þorkelsson: Saga Magnúsar prúða. Prentuð á kostnað Sigurðar Kristjánssonar, Kaupmannahöfn, 1895.
  • „Íslensk rímnaskáld: Magnús Jónsson prúði. Dagskrá, 13. mars 1897“.
  • „Afvopnun og vígbúnaður. Morgunblaðið, 31. mars 1988“.