Jón Magnússon á Svalbarði
Jón Magnússon ríki (1480 – 1564) var íslenskur höfðingi á 16. öld, bóndi og lögréttumaður á Svalbarði við Eyjafjörð. Hann hafði einnig bú á Skriðu (Rauðuskriðu) í Reykjadal og var stórauðugur. Hann var ættfaðir Svalbarðsættar.
Jón var sonur Magnúsar Þorkelssonar, bónda á Grýtubakka í Höfðahverfi, Grenivík, Svalbarði og síðast í Rauðuskriðu og um tíma sýslumanns í Vaðlaþingi, og konu hans Kristínar, dóttur Eyjólfs Arnfinnssonar riddara á Urðum og víðar, sonar Arnfinns Þorsteinssonar hirðstjóra. Magnús faðir Jóns gaf honum hálft höfuðbólið Svalbarð árið 1517 en hinn helminginn keypti hann í nokkrum bútum á árunum 1518-1522 og áttu afkomendur hans jörðina mjög lengi.
Jón var sagður vitur maður og forspár og var talinn fjölkunnugur. Til er bréf frá 1543 þar sem Jón Arason biskup gefur Jóni Filippussyni prófasti umboð til að veita Jóni Magnússyni aflausn fyrir „fordæðuskap, fjölkynngi og galdra“. Guðbrandur Þorláksson biskup hafði þetta bréf í bréfasafni sínu og hefur líklega stuðst við það þegar hann kærði Jón lögmann, son Jóns Magnússonar, fyrir ýmsar sakir og sagði í kæruskjalinu að faðir lögmanns hefði meðkennt upp á sig allra handa galdra og einnig að hann hefði „þá brúkað í langa tíð, og það, að hann hafi þar með mörgum manni skaða gert“. Þrátt fyrir þetta hélt Jón Magnússon virðingu sinni og var alltaf í röð mestu höfðingja.
Jón sýktist af sárasótt sem gekk á Íslandi um 1560 „í þá daga áður menn færi að brúka tóbak“, eins og segir í Magnúsar sögu prúða, og er sagt að hann hafi ekki viljað þiggja lækningu. 10. ágúst 1562 segist hann vera mjög að þrotum kominn vegna elli og krankleika, en hann dó 1564.
Fyrri kona Jóns var Ragnheiður á rauðum sokkum, dóttir Péturs Loftssonar ríka, bónda í Stóradal í Eyjafirði. Þau eignuðust sjö börn sem upp komust og urðu flest nafnkunn. Elst var Steinunn, sem fyrst var fylgikona séra Björns Jónssonar á Melstað, giftist svo Ólafi Jónssyni í Snóksdal og seinast Eggert Hannessyni; þá Sólveig kona Filippusar Brandssonar á Svínavatni á Ásum, sem vó Hrafn Brandsson lögmann; Þórdís kona Þorgríms Þorleifssonar í Lögmannshlíð; og synirnir, Magnús prúði, Staðarhóls-Páll, Jón lögmaður á Vindheimum og Sigurður sýslumaður á Reynistað.
Ragnheiður var dáin fyrir 1540 og árið 1553 giftist Jón aftur Guðnýju Grímsdóttur, dóttur Gríms Pálssonar sýslumanns á Möðruvöllum og ekkju Jóns Sturlusonar í Dunhaga, en Elín dóttir Guðnýjar og Magnús prúði sonur Jóns höfðu gengið í hjónaband nokkru fyrr. Jón og Guðný áttu ekki börn saman en launsonur Jóns var Kolbeinn klakkur, bóndi á Einarslóni á Snæfellsnesi. Afkomendur Jóns ríka kallast Svalbarðsætt - stundum Svalbarðsætt síðari því önnur eldri ætt hafði verið kennd við Svalbarð.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Þorkelsson: Saga Magnúsar prúða. Prentuð á kostnað Sigurðar Kristjánssonar, Kaupmannahöfn, 1895.