Fara í innihald

Steinunn Jónsdóttir á Melstað

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Steinunn Jónsdóttir (um 1513 – eftir 1593) var íslensk hefðarkona á 16. öld. Hún var af Svalbarðsætt, dóttir Jóns Magnússonar ríka á Svalbarði og Ragnheiðar á rauðum sokkum Pétursdóttur, konu hans, og var hún elst af börnum þeirra.

Steinunn gerðist fylgikona séra Björns Jónssonar, sonar Jóns biskups Arasonar, og er kaupmáli þeirra dagsettur 25. apríl 1534. Sama ár hófu þau búskap á Melstað í Miðfirði, þar sem Björn var prestur, og bjuggu þar uns hann var tekinn af lífi í Skálholti haustið 1550 ásamt föður sínum og bróður. Þau áttu þá sjö börn, það elsta tólf ára, og því er sagt að Björn hafi sagt, þegar hann var leiddur á höggstokkinn: „Æ og æ, börnin mín, bæði ung og mörg.“

Börnin voru: Jón sýslumaður á Holtastöðum og síðar á Grund í Eyjafirði (1538 – 1613), Bjarni bóndi á Brjánslæk (um 1540 – eftir 1616), Árni bóndi á Sauðafelli í Dölum (um 1540 - um 1590), Magnús bóndi á Hofi á Höfðaströnd og víðar (1541 – eftir 1625), Ragnheiður (f. um 1545), kona Sigurðar Bjarnasonar lögréttumanns á Stokkseyri og formóðir Stokkseyrarættar, Halldóra (f. um 1545), kona Bjarna Pálssonar á Skriðu í Hörgárdal, og Teitur (um 1549 – 1619), lögréttumaður á Hofi í Vatnsdal og Holtastöðum í Langadal.

Ekki löngu eftir aftöku Björns giftist Steinunn Ólafi Jónssyni, syni Jóns Einarssonar sýslumanns á Geitaskarði í Langadal og konu hans Kristínar, dóttur Gottskálks Nikulássonar biskups. Þau bjuggu í Snóksdal og hugsanlega áður á Hofi í Vatnsdal. Þau eignuðust eina dóttur, Guðrúnu (1553 – 1648), sem giftist Hannesi Björnssyni lögréttumanni í Snóksdal.

Seinasti maður Steinunnar var Eggert Hannesson hirðstjóri og lögmaður í á Rauðasandi og víðar, og var hún seinni kona hans. Hann fluttist til Hamborgar 1580 og dó þar þremur árum síðar. Höfðu þau Steinunn þá slitið samvistir og varð hún eftir á Vestfjörðum og lifði fram yfir 1593.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Hofmenn höggva. Sunnudagsblað Tímans, 28. júní 1970“.
  • Íslendingabók á Netinu, www.islendingabok.is