Fara í innihald

Het Wapen van Amsterdam

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Het Wapen van Amsterdam (stundum nefnt gullskipið) var hollenskt skip sem sigldi frá Austur-Indíum árið 1667. Það strandaði á Skeiðarársandi 19. september 1667. Skipið var hlaðið dýrmætum varningi og með 200 manns innanborðs. Af þeim björguðust 60 eftir mikla hrakninga en hinir 140 létust úr sjóvolki og kulda. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að finna skipið í sandinum en þær hafa ekki borið árangur. Ýmsir töldu að skipið hefði borið verðmætan farm frá Austur-Indíum sem hefði grafist með flakinu í sandinn en á móti hafa menn bent á heimildir sem gefa til kynna að skipið hafi verið rifið og viðir þess nýttir í áratugi eftir strandið.

Leitin að gullskipinu

[breyta | breyta frumkóða]

Saga skipulegrar leitar að skipsflakinu í sandinum hófst á því að Bergur Lárusson frá Kirkjubæjarklaustri fékk árið 1960 leyfi frá forsætisráðherra til að leita að skipinu gegn hlut í því sem fyndist. Leitin hófst samt ekki fyrr en árið 1971 þegar hópur athafnamanna með Kristinn Guðbrandsson, kenndan við fyrirtækið Björgun, innanborðs kom að málinu í samstarfi við Berg. 1974 kom ábending frá starfsmönnum Varnarliðsins um skipsflak á ákveðnum stað í sandinum. Uppgröftur leiddi ekkert í ljós en 1981 sýndu mælingar annað flak á öðrum stað en talið var að skipið hefði strandað. Mikill uppgröftur var hafinn þar með 50 milljón króna ríkisábyrgð árið 1983 en þegar til kom reyndist það vera flak af þýska togaranum Friedrich Albert frá Geestemünde sem strandaði 19. janúar 1903.

Bækur og kvikmyndir

[breyta | breyta frumkóða]

Tvær barnabækur eftir Ármann Kr. Einarsson frá 7. áratugnum fjalla um leit að gullskipinu, Óli og Maggi með gullleitarmönnum 1966 og Óli og Maggi finna gullskipið 1968. Kvikmynd Ágústs Guðmundssonar Gullsandur frá 1985 fjallar um tvo bandaríska hermenn sem hyggjast leita að skipinu. 1986 kom síðan út ævisagan Kristinn í Björgun eftir Árna Johnsen þar sem saga leitarinnar er rakin.

  • „Hvar er akkeri gullskipsins sem sökk undan ströndum Skeiðarársands?“. Vísindavefurinn.

Gullskipsleitin

  Þessi sögugrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.