Heart of Midlothian F.C.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heart of Midlothian Football Club
Fullt nafn Heart of Midlothian Football Club
Gælunafn/nöfn Hearts
The Jam TartsHMFC
The Jambos
Stytt nafn Hearts
Stofnað 1874
Leikvöllur Tynecastle Park
Edinborg
Stærð 19.852
Stjórnarformaður Fáni Skotlands Ann Budge
Knattspyrnustjóri Fáni Skotlands Robbie Neilson
Deild Skoska úrvalsdeildin
2022-2023 4. sæti
Heimabúningur
Útibúningur

Heart of Midlothian F.C. eða Hearts er knattspyrnufélag frá Edinborg, sem leikur í efstu deild í Skotlandi. Félagið var stofnað árið 1874 og heitir eftir samnefndri skáldsögu rithöfundarins Walter Scott. Einkennislitir Hearts eru vínrauður og hvítur. Heimavöllurinn nefnist Tynecastle Park og hefur hýst liðið frá 1886. Stuðningsmenn ganga undir viðurnefnunum The Jam Tarts og The Jamboos.

Hearts er eitt sögufrægasta lið Skotlands og í hópi þeirra sigursælli ef Celtic og Rangers eru undanskilin, með átta bikarmeistaratitla og fjóra skoska meistaratitla, þann síðasta árið 1960.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Steinhlaðna hjartað á Royal Mile sem mögulega gaf félaginu nafn sitt.

Fyrsti knattspyrnuleikur sem vitað er til að hafi farið fram í Edinborg var leikinn síðla árs 1873 af tveimur aðkomuliðum. Hópur ungra manna úr dansklúbbi í borginni, sem fylgdust með viðureigninni, ákváðu í kjölfarið að hefja knattspyrnuæfingar og stofnuðu félagið á árinu 1874, þótt nákvæm dagsetning sé óþekkt. Heimildir geta um að krikket með sama nafni hafi starfað í Edinborg tíu árum fyrr, en óljóst er hvort um tilviljun sé að ræða eða en ekki var óalgengt að krikketfélög tækju einnig upp fótbolta.

Hin óvenjulega nafngift félagsins, Heart of Midlothian átti ýmsar skírskotanir. Dansklúbburinn sem stofnendurnir voru félagar í bar sama heiti, það hafði einnig verið nafnið á hjartalaga mósaíkminnisvarða við the Royal Mile, aðalgötu borgarinnar, sem minnti á sögufrægt fangelsi í Edinborg. Merkið var raunar löngu horfið, en minnig þess var gerð ódauðleg í geysivinsælli skáldsögu eftir Walter Scott með sama nafni. Eftirgerð af mósaíkmyndinni týndu er í dag merki Heart of Midlothian F.C.

Ári eftir stofnun gekk Hearts til liðs við Skoska knattspyrnusambandið og gat þar með tekið þátt í bikarkeppninni. Liðið markaði ekki djúp spor í sögu keppninnar fyrstu árin, enda höfðu félög frá Glasgow og vestanverðu landinu talsverða yfirburði um þær mundir. Leiktíðina 1884-85 rataði Hearts þó í fréttir, þar sem það varð uppvíst að því að tefla fram tveimur atvinnumönnum í trássi við gildandi reglur. Um þær mundir var atvinnumennska að þróast sunnan landamæranna á meðan Skotar áttu að heita áhugamenn. Skoskir leikmenn fóru því í stríðum straumum til Englands og þurftu félög oft að fara á svig við reglur til að halda í betri leikmenn sína.

Stofnfélagar og kynslóðin sem hvarf[breyta | breyta frumkóða]

Deildarkeppni hófst í Skotlandi leiktíðina 1890-91 og var Hearts í hópi tíu félaga sem luku keppni fyrsta árið. Sama ár varð félagið í fyrsta sinn bikarmeistari, en alls vann Hearts fjóra bikarmeistaratitla á fimmtán ára tímabili frá 1891-1906. Liðið varð jafnframt skoskur meistari í tvígang, 1895 og 1897. Árin 1895 og 1902 var Hearts fulltrúi Skotlands í keppni við ensku meistaranna í móti sem haldið var óreglulega. Í fyrra skiptið beið liðið lægri hlut fyrir Sunderland A.F.C. en vann í seinna sinnið Tottenham Hotspur. Sigurvegarar þessara leikja hlutu sæmdartitilinn heimsmeistarar í knattspyrnu.

Celtic og Hearts keppa árið 1912.

Fyrri heimsstyrjöldin markaði djúp spor í sögu Heart of Midlothian. Liðið hóf leiktíðina 1914-15 með miklum látum og vann átta fyrstu leiki sína, þar á meðal meistara Celtic. Félagið hafði á afar efnilegu liði að skipa sem hafnað hafði í öðru og þriðja sæti árin áður. Mikill þrýstingur var á fullfríska menn að fara í stríðið í stað þess að spila fótbolta og gekk liðið nánast eins og það lagði sig í herinn. Sjö byrjunarliðsmenn féllu í stríðinu og hefur minningin um gullaldarliðið sem ekki varð að veruleika alla tíð legið þungt á stuðningsmönnum og eru vísanir í fórnir félagsins í styrjöldinni fyrirferðarmiklar í myndmáli og söngtextum.

Walker og gullöldin[breyta | breyta frumkóða]

Millistríðsárin einkenndust af titlaþurrð hjá Hearts sem endaði oftast nær um eða fyrir ofan miðja deild. Kunnasti leikmaður félagsins á þessum árum var Tommie Walker. Eftir langan og farsælan feril hjá Hearts, Chelsea F.C. og skoska landsliðinu tók Walker við þjálfun ungmennaliðsins árið 1948 og tók þegar að byggja upp öflugan hóp. Árið 1951 varð hann svo knattspyrnustjóri félagsins og gegndi því starfi til 1966. Þetta reyndust gfullaldarár Hearts sem varð Skotlandsmeistari árin 1958 og 1960, bikarmeistari árið 1956 auk þess að vinna deildarbikarinn fjórum sinnum undir stjórn Walker.

Ekki tókst að byggja á velgengni sjötta áratugarins og næstu árin seig Hearts sífellt neðar á töflunni. Vorið 1977 mátti liðið í fyrsta sinn þola fall úr efstu deild og flakkaði félagið milli deilda næstu árin. Þessi ár einkenndust af miklum fjárhagsvandræðum. Eigendaskipti urðu á félaginu árið 1981 þegar ungur athafnamaður, Wallace Mercer, eignaðist ráðandi hlut. Hearts var þá nýfallið úr efstu deild í þriðja sinn á fimm árum. Á skömmum tíma tókst að byggja upp sterkasta lið félagsins í um aldarfjórðung og leiktíðina 1985-86 var Hearts hársbreidd frá meistaratitlinum. Tap gegn Dundee F.C. í lokaleiknum á sama tíma og Celtic vann stórsigur þýddi að Hearts missti af titlinum á markatölu. Til að bætu gráu ofan á svart tapaði Hearts í úrslitum skoska bikarsins sama ár, þar sem mótherjarnir voru Aberdeen F.C. undir stjórn Alex Ferguson.

Eigendur í aðalhlutverki[breyta | breyta frumkóða]

Wallace Mercer lét ekki síður til sín taka utan vallar en innan. Hann sannfærðist um að fjárhagslegir yfirburðir Celtic og Rangers væru slíkir að minni félögin hefðu enga möguleika á að standa þeim á sporði. Hann beitti sér því fyrir sameiningu Hearts og erkifjendanna í Hibernian F.C.. Vildi hann að hið nýja félag kenndi sig við nafn borgarinnar og léki á Murrayfield Stadium, þjóðarleikvangi Skota í rúbbí. Tókst Mercer að tryggja sér talsverðan hlut í Hibernian til að ná fram markmiðum sínum, en ofsafengin mótmæli stuðningsmanna Hibs urðu til þess að þau fóru út um þúfur. Árið 1994 seldi Mercer svo hlut sinn í Hearts. Hann lést árið 2006, en í yfirlýsingu árið 2010 rifjaði fjölskylda hans upp sameingartilraunina og benti á að yfirburðir Glasgow-risanna tveggja áratugina á undan sýndu fram á að Mercer hafi haft á réttu að standa.

Árið 1998 vann Hearts sinn fyrsta titil í aldarfjórðung þegar liðið varð bikarmeistari undir stjórn Jim Jefferies, eins ástsælasta þjálfara í sögu félagsins. Undir hans stjórn hafði Hearts á mörgum ágætum leikmönnum að skipa en hélst illa á þeim, þar sem stórliðin í Glasgow og félög á Englandi hirtu alla vænlegustu bitana jafnóðum. Um tíma leit út fyrir að lausn væri fundin á fjárhagskröggum félagsins þegar Vladimir Romanov, athafnamaður frá Litháen festi kaup á Hearts árið 2004 og hafði uppi stór orð um að gera það að stórveldi með það að lokamarkmiði að vinna Meistaradeild Evrópu.

Leiktíðina 2005-06 virtist Romanov ætla að standa við stóru orðin. Hearts byrjaði af krafti og sat á toppi deildarinnar þegar eigandinn kom öllum á óvart með því að reka knattspyrnustjórann Craig Burley. Slíkt háttarlag átti eftir að fylgja honum. Þjálfarar voru látnir koma og fara, auk þess sem fregnir bárust af því að Romanov vildi sjálfur stilla upp liðinu. Þau níu ár sem Litháinn átti félagið gegndu sjö þjálfarar störfum. Besta uppskeran var 2. sæti í deildinni 2006 og bikarmeistaratitill sama ár.

Fjármálaveldi Romanovs reyndist byggt á sandi og árið 2011 var Hearts komið í verulegar fjárhaglegar ógöngur. Í ársbyrjun 2012 setti skoska deildin stjórnendum Hearts stólinn fyrir dyrnar ef útistandandi skuldir yrðu ekki greiddar tafarlaust. Það tókst með sölu Íslendingsins Eggerts Gunnþórs Jónssonar til Wolverhampton Wanderers. Síðar sama ár lenti félagið hins vegar í greiðslustöðvun og Romanov missti það endanlega úr höndunum. Eina glætan í þessum fjármálastormi var áttundi og síðasti bikarmeistaratitill félagins sem vannst vorið 2012, býsna óvænt.

Peningabasl hefur sett mark sitt á rekstur félagsins á liðnum árum. Það féll niður um deild vorið 2014 en skaust strax upp aftur og náði þriðja sæti sem nýliðar í úrvalsdeildinni árið eftir. Það reyndist svikalogn. Eftir þrjú ár í röð um miðja deild sat Hearts á botni skosku úrvalsdeildarinnar þegar COVID-19 varð til þess að mótið var flautað af. Hearts mátti una því að falla niður um deild þrátt fyrir hörð mótmæli stjórnenda þess og kærumál fyrir dómstólum. Dvölin í næstefstu deild varð þó ekki nema eitt tímabil.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

  • Úrvalsdeild (4): 1894–95, 1896–97, 1957–58, 1959–60
  • Skoski bikarinn (8): 1890–91, 1895–96, 1900–01, 1905–06, 1955–56, 1997–98, 2005–06, 2011–12
  • Skoski deildarbikarinn (4): 1954–55, 1958–59, 1959–60, 1962–63

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]