Gerður G. Óskarsdóttir
Gerður G. Óskarsdóttir (fædd 5. september 1943) er fyrrverandi kennari, skólastjóri og fræðslustjóri Reykjavíkur. Gerður er einn af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar á Íslandi.
Menntun
[breyta | breyta frumkóða]Gerður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1963, kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1964, B.A. prófi í landafræði og þýsku frá Háskóla Íslands árið 1969 (eitt ár við Háskólann í Zürich, Sviss) og uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá HÍ 1971. Hún lauk meistaraprófi árið 1981 í menntunarfræði, námsráðgjöf, frá Bostonháskóla í Bandaríkjunum og doktorsprófi í menntunarfræði, stjórnun menntamála og stefnumörkun, frá Kalíforníuháskóla í Berkeley árið 1994.
Starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Gerður hefur verið kennari á grunnskólastigi (Vogaskóli, Kópavogsskóli, Garðaskóli), framhaldsskólastigi og háskólastigi. Hún var skólastjóri Gagnfræðaskólans í Neskaupstað, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands, kennslustjóri í kennaranámi framhaldsskólakennara við Háskóla Íslands, ráðunautur menntamálaráðherra og yfirmaður leik- og grunnskóla hjá Reykjavíkurborg (fræðslustjóri Reykjavíkur, síðar sviðsstjóri Menntasviðs Reykjavíkurborgar).
Gerður var forstöðumaður Rannsóknastofu um þróun skólastarfs á Menntavísindasviði HÍ og verkefnisstjóri rannsóknarverkefnanna Starfshættir í grunnskólum 2009-2014 (sjá ritstjórn bókar) og Starfshættir í framhaldsskólum, Menntavísindastofnun HÍ 2013-2018 og var í stýrihópi til undirbúnings sérrits Netlu um niðurstöður: Framhaldsskólinn í brennidepli, 2018. Gerður er höfundur yfir 100 tímaritsgreina, bókarkafla og skýrslna um menntamál. Hún hefur verið andmælandi við doktorsvarnir, ritrýnt fjölda tímaritsgreina og leiðbeint doktors- og meistaranemum. Hún starfar sem sjálfstætt starfandi fræðimaður og ráðgjafi.
Gerður hefur tekið virkan þátt í þróun námsráðgjafar í skólum hér á landi, gaf m.a. út námsefni og mótaði námsaðferðir í náms- og starfsfræðslu og beitti sér fyrir stofnun náms í námsráðgjöf við Háskóla Íslands og fjölgun námsráðgjafa á grunn- og framhaldsskólastigi.
Gerður hefur verið formaður eða fulltrúi í fjölda nefnda og ráða um menntamála á vegum opinberra aðila, s.s.:
- Menntamálaráðuneytis, m.a. í nefnd um endurskoðun grunnskólalaga (Lög um grunnskóla nr. 91/2008); bygginganefnd framhaldsskóla í Reykjavík 2005-2007; nefnd um símenntun 1998; stýrihópi úttektar á viðskipta- og rekstrarfræðimenntun á háskólastigi (H.Í., H.A., S.B. og T.Í.) 1996; hópi um úttekt á námi í byggingatækni við Tækniskóla Íslands 1995; nefnd um frumvarp til fyrstu laga um leikskóla (Lög um leikskóla nr. 48/1991); starfshópi sem formaður um endurskoðun grunnskólalaga (Lög um grunnskóla nr. 49/1991).
- Sveitarfélaga, m.a. í skólanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga 2005–2007; tómstundaráði (formaður), félagsmálaráði, barnaverndarnefnd og jafnréttisnefnd Neskaupstaðar á árunum 1976–1983; skólanefnd og barnaverndarnefnd Kópavogs á árunum 1970–1974.
- Háskóla Íslands, m.a. formaður íðorðanefndar í menntunarfræði á Menntavísindasviði HÍ frá 2009; í dómnefnd um framgang og hæfi umsækjenda um störf á Menntavísindasviði HÍ 2017–2019; í stjórn Endurmenntunar HÍ 1992–1996; í námsnefndum í uppeldisfræði, uppeldis- og kennslufræði og náms- og starfsráðgjöf á árunum 1984–1996.
Gerður var sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1999. Hún hlaut Shirley Cooper Award af AASA (American Association of School Administrators) 2007 ásamt Bruce Jilk, arkitekt, fyrir hönnun og undirbúning að hönnun Ingunnarskóla í Reykjavík. Hún var gerð að heiðursfélaga í Félagi náms- og starfsráðgjafa 2006 og áður Félagi íslenskra námsráðgjafa 1992.
Höfundur bóka
[breyta | breyta frumkóða]- (2012). Skil skólastiga. Frá leikskóla til grunnskóla og grunnskóla til framhaldsskóla. Reykjavik: Háskólaútgáfan og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.
- (2000). Frá skóla til atvinnulífs. Rannsóknir á tengslum menntunar og starfs. Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan.
- (1995). The Forgotten Half. Comparison of Dropouts and Graduates in Their Early Work Experience. The Icelandic Case. Reykjavík: Social Science Research Institute and University Press, University of Iceland.
- (1990). Námsráðgjöf og starfsfræðsla í fimm nágrannalöndum og samanburður við Ísland. Með viðauka um tvö lönd eftir Guðbjörgu Vilhjálmsdóttur og Harald Finnsson. Reykjavík: Námsgagnastofnun.
- (1990). Undirbúningur að náms- og starfsvali. Ég og atvinnulífið (3. útgáfa, endurskoðuð). Reykjavík: Námsgagnastofnun.
- (1985). Stelpur, strákar og starfsval. Reykjavík: Námsgagnastofnun.
- (1985). Undirbúningur að náms- og starfsvali. Framhaldsnám á Austurlandi. Reykjavík: Námsgagnastofnun.
- (1985). Undirbúningur að náms- og starfsvali. Framhaldsnám í Reykjavík. Reykjavík: Námsgagnastofnun.
Ritstjóri bóka
[breyta | breyta frumkóða]- (2014). Starfshættir í grunnskólum við upphaf 21. aldar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
- (2001). Starfslýsingar III. Almenn störf í framleiðslu og þjónustu. Reykjavík: Iðnú. Gefið út í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
- (2000). (Meðhöfundar: Busetta, P., Ginesté, J. og Papoutsakis, H.) Employability skills in non-professional occupations. A four-country comparative research project. Reykjavik: University Press, University of Iceland.
- (1996). Starfslýsingar II. Sérgreinar í iðnaði og þjónustu. Reykjavík: Iðnú. Gefið út í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
- (1990). Starfslýsingar. Sérfræði, tækni- og stjórnunarstörf. Reykjavík: Iðunn. Gefið út í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
- (1986). Ásamt Berit Johnsen og Sigurði Magnússyni. Litríkt land – lifandi skóli. Skólafólk skrifar til heiðurs Guðmundi Magnússyni fræðslustjóra sextugum, 9. janúar 1986. Reykjavík: Iðunn.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Olga Guðrún Árnadóttir (ritstj.) (2011). Á rauðum sokkum, baráttukonur segja frá. Háskólaútgáfan og RIKK. ISBN 9789979549260.
- Ritaskrá (Gerður G. Óskarsdóttir) Geymt 30 ágúst 2019 í Wayback Machine