Genfarsamþykkt um höfundarétt
Genfarsamþykkt um höfundarétt var alþjóðasamningur um gagnkvæma vernd höfundaréttar sem var unninn af Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna og samþykktur í Genf í Sviss árið 1952. Ástæðan fyrir gerð þessa sáttmála var sú að Bandaríkin og Sovétríkin auk margra þróunarríkja vildu ekki staðfesta Bernarsáttmálann frá 1886; Bandaríkin vegna þess að staðfesting hefði þýtt róttækar breytingar á bandarískri löggjöf, og Sovétríkin og þróunarríkin vegna þess að þau töldu Bernarsáttmálann fyrst og fremst þjóna hagsmunum hugverkaútflytjandi vestrænna ríkja. Með Genfarsamþykktinni var þannig komið á alþjóðlegri gagnkvæmri viðurkenningu höfundaréttar.
Genfarsamþykktin gengur mun skemmra en Bernarsáttmálinn í veigamiklum atriðum og er ekki eins ítarleg. Genfarsamþykktin gerir til dæmis ráð fyrir því að hægt sé að skilyrða vernd höfundaréttar við ákveðin formskilyrði eins og skráningu verka í löndum þar sem það tíðkast. Lágmarkstímalengd verndar er 25 ár frá andláti höfundar en í Bernarsáttmálanum var þá kveðið á um vernd í 50 ár frá andláti höfundar.
Mörg lönd sem voru fyrir aðilar að Bernarsáttmálanum gerðust líka aðilar að Genfarsamþykktinni, þar á meðal Ísland sem undirritaði hana 1956.
Með tilkomu Samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum missti Genfarsamþykktin þýðingu sína að miklu leyti.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Genfartextinn frá 6. september, 1952.
- Parísartextinn frá 14. júlí, 1971.
- Aðilar að Genfarsamþykktinni með viðaukayfirlýsingu varðandi grein XVII og úrskurð um grein XI. Geymt 22 desember 2009 í Portúgalska vefssafnið.
- Aðilar að samþykktinni eftir endurskoðun hennar 24. júlí 1971 Geymt 22 desember 2009 í Portúgalska vefssafnið.