Fumio Kishida
Fumio Kishida | |
---|---|
岸田 文雄 | |
Forsætisráðherra Japans | |
Í embætti 4. október 2021 – 1. október 2024 | |
Þjóðhöfðingi | Naruhito |
Forveri | Yoshihide Suga |
Eftirmaður | Shigeru Ishiba |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. júlí 1957 Shibuya, Tókýó, Japan |
Stjórnmálaflokkur | Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn |
Maki | Yuko Kishida (g. 1988) |
Börn | 3 |
Háskóli | Waseda-háskóli |
Undirskrift |
Fumio Kishida (f. 29. júlí 1957) er japanskur stjórnmálamaður, fyrrverandi forsætisráðherra Japans og fyrrverandi forseti Frjálslynda lýðræðisflokksins. Hann tók við embætti þann 4. október 2021 eftir afsögn Yoshihide Suga.[1]
Kishida hefur setið á japanska þinginu frá árinu 1993 fyrir Hírosíma og gegndi embætti utanríkisráðherra frá 2012 til 2017 í ríkisstjórn Shinzō Abe.[2]
Kishida gaf kost á sér í forsetakjöri Frjálslynda lýðræðisflokksins í september 2021 eftir að flokksleiðtoginn og forsætisráðherrann Yoshihide Suga lýsti yfir að hann hygðist ekki sitja lengur. Hann vann sigur þann 29. september eftir kosningabaráttu á móti Taro Kono, sem stýrði aðgerðum stjórnvalda gegn COVID-19-faraldrinum, Seiko Noda, fyrrverandi jafnréttisráðherra, og þingkonunni Sanae Takaichi. Eftir kjör sitt á forsetastól hvatti Kishida flokksfélaga sína til að sýna Japönum að Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn væri endurborinn og væri þess verður að fara áfram með stjórn landsmála.[3]
Japanska þingið staðfesti Kishida sem nýjan forsætisráðherra Japans þann 4. október 2021. Kishida hefur talað fyrir breytingum á efnahagsstefnunni sem Japan hefur fylgt frá því á stjórnartíð Shinzō Abe, sem Kishida vill meina að þjóni fyrst og fremst hagsmunum stórfyrirtækja.[4]
Kishida leiddi Frjálslynda lýðræðisflokkinn í kosningum þann 31. október 2021. Flokkurinn viðhélt hreinum meirihluta á japanska þinginu.[5]
Óvinsældir Kishida jukust jafnt og þétt á kjörtímabilinu í takt við versnandi efnahagsástand og ásakanir um spillingu innan Frjálslynda lýðræðisflokksins. Kishida tilkynnti þann 14. ágúst 2024 að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs sem forseti flokksins í september og myndi láta af embætti forsætisráðherra þegar nýr flokksleiðtogi hefði verið kjörinn.[6] Shigeru Ishiba var kjörinn nýr leiðtogi flokksins þann 27. september 2024.[7]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Markús Þ. Þórhallsson (4. október 2021). „Japansþing kaus Kishida sem forsætisráðherra“. RÚV. Sótt 4. október 2020.
- ↑ Atli Ísleifsson (29. september 2021). „Allar líkur á að Kishida taki við embætti forsætisráðherra af Suga“. Vísir. Sótt 4. október 2020.
- ↑ Ásgeir Tómasson (29. september 2021). „Nýr leiðtogi Japans kjörinn“. RÚV. Sótt 4. október 2020.
- ↑ Atli Ísleifsson (4. október 2021). „Kishida staðfestur í embætti forsætisráðherra“. Vísir. Sótt 4. október 2021.
- ↑ Atli Ísleifsson (1. nóvember 2021). „Flokkur Kishida náði hreinum meirihluta“. Vísir. Sótt 27. nóvember 2021.
- ↑ „Óvinsæll forsætisráðherra stígur til hliðar“. mbl.is. 14. ágúst 2024. Sótt 14. ágúst 2024.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (27. september 2024). „Shigeru Ishiba verður næsti forsætisráðherra Japan“. RÚV. Sótt 1. október 2024.
Fyrirrennari: Yoshihide Suga |
|
Eftirmaður: Shigeru Ishiba |