Flokkur fólksins
Flokkur fólksins | |
---|---|
Fylgi | 8,8%¹ |
Formaður | Inga Sæland |
Stofnár | 2016 |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
Félagshyggja, réttindi fatlaðra, aldraðra og öryrkja, lýðhyggja |
Einkennislitur | Gulur |
Sæti á Alþingi | |
Listabókstafur | F |
Vefsíða | [1] |
¹Fylgi í síðustu Alþingiskosningum |
Flokkur fólksins er íslenskur stjórnmálaflokkur sem bauð fram í fyrsta sinn til Alþingiskosninganna 2016. Inga Sæland er fyrsti formaður flokksins.[1] Flokkurinn hlaut 3,5% atkvæða í kosningunum 2016, engan þingmann, en nóg til að fá ríkisstyrk. Síðla sumars árið 2017 mældist flokkurinn með 8,4% og tæplega 11% fylgi í könnunum.[2] Flokkurinn fundaði í fullum sal í Háskólabíói og fór í mál við ríkið fyrir hönd eldri borgara. Í kosningunum 2017 náði flokkurinn hins vegar fjórum mönnum á þing og hlaut 6,9% atkvæða.
Inga Sæland ætlaði að leiða lista flokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningnum 2018,[3] en þegar boðað var til Alþingiskosninga haustið 2017 bauð hún sig fram í þeim. Kolbrún Baldursdóttir leiddi lista Flokks fólksins og var hún kjörin í borgarstjórn, þar sem flokkurinn hlaut alls 4,3% greiddra atkvæða. Kolbrún er því fyrsti fulltrúi flokksins í sveitarstjórn á Íslandi, en flokkurinn bauð ekki fram annars staðar en í Reykjavík vorið 2018.[4] Í sveitarstjórnarkosningunum 2022 hlaut flokkurinn svipað fylgi og var Kolbrún enn eini borgarfulltrúi flokksins.[5] Sama ár bauð Flokkur fólksins einnig fram á Akureyri og hlaut einn fulltrúa, Brynjólf Ingvarsson.[6]
Í kjölfar Klaustursupptakanna sem birtar voru í lok ársins 2018 voru tveir af þingmönnum flokksins, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, reknir úr flokknum vegna „alvarlegs trúnaðarbrests“.[7] Flokkurinn taldi eftir það aðeins tvo þingmenn til sín, Ingu Sæland og Guðmund Inga Kristinsson.
Flokkurinn hlaut svo 8,8% atkvæða í Alþingiskosningum 2021 og fékk sex þingmenn kjörna, einn í hverju kjördæmi. Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Eyjólf Ármannsson, Guðmund Inga Kristinsson, Ingu Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Um Flokks fólksins“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. október 2016. Sótt 2. október 2016.
- ↑ Flokkur fólksins fengi fimm þingsæti.
- ↑ Segir fylgið ákall um breytingar og réttlæti Rúv, skoðað 3. sept, 2017
- ↑ http://www.visir.is/g/2018180529010/rynt-i-urslit-borgarstjornarkosninga-vidreisn-i-lykilstodu
- ↑ „Reykjavík 2022“. kosningasaga. 24. janúar 2022. Sótt 26. janúar 2024.
- ↑ „Akureyri 2022“. kosningasaga. 24. janúar 2022. Sótt 26. janúar 2024.
- ↑ „Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson reknir úr Flokki fólksins“. DV. 30. nóvember 2018. Sótt 1. desember 2018.