Finnur Magnússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Finnur Magnússon
Finnur bjó í Klausturstræti 21 í Kaupmannahöfn

Finnur Magnússon (einnig þekktur sem Finn Magnusen) (27. ágúst 1781 - 24. desember 1847) var íslenskur fornfræðingur og leyndarskjalavörður í Kaupmannahöfn og einn helsti rúnafræðingur á Norðurlöndum. Faðir Finns var Magnús Ólafsson lögmaður úr Svefneyjum og föðurbróðir Finns var Eggert Ólafsson náttúrufræðingur og skáld. Móðir Finns var Ragnheiður dóttir Finns Jónssonar biskups.

Finnur var einnig rómaður hagyrðingur og ljóðaþýðandi. Hann hafði umsjón með Íslandshluta stúdentabókarinnar Studenterviser i dansk, islandsk, latinsk og græsk Maal, sem gefin var út í Danmörku árið 1819 og valdi stúdentasöngva á íslensku til birtingar. Suma stúdentasöngva þýddi hann úr öðrum tungumálum yfir á íslensku og nokkrir eru frumortir af honum. Í stúdentabókinni má einnig finna Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Finnur var í fóstri hjá Hannesi biskupi Finnssyni móðurbróður sínum og nam hjá honum skólavísindi þangað til Hannes andaðist árið 1796. Vorið 1797 útskrifaði Geir Vídalín biskup hann og fór hann ári seinna til náms í Kaupmannahöfn. Finnur sneri til Íslands þegar faðir hans lést og árið 1806 var hann settur málafærslumaður við landsyfirréttinn í Reykjavík og var í því starfi þangað til Jörundur hundadagakonungur svipti hann embætti. Finnur fór þá til Kaupmannahafnar en þegar Jörundur var hrakinn frá völdum tók hann aftur við embætti sínu. Finnur var á Íslandi þangað til sumarið 1812 en þá fór hann aftur til Kaupmannahafnar og lagði stund á fornfræði. Í árslok 1816 var Finnur skipaður í Fornminjanefndina (Oldsagskommissionen).

Finnur varð prófessor að nafnbót og forstöðumaður leyndarskjalasafnsins í Kaupmannahöfn. Hann var etatsráð en það er tignarheiti án embættis. Hann var í miklu áliti meðal samtíðarmanna sinna. Finnur var í miklu dálæti hjá konungi og má rekja það til þess að þegar Jörundur hundadagakonungur ríkti á Íslandi neitaði Finnur sem þá var embættismaður á Íslandi að svíkja konung og vinna fyrir Jörund.

Rannsóknir og útgáfur[breyta | breyta frumkóða]

Finnur rannsakaði það sem hann taldi rúnir í Runamo í Blekinge í Svíþjóð. Honum hugkvæmdist að lesa þær afturábak gegnum spegil og gat þannig lesið vísu. Hann skrifaði 750 blaðsíðna rit um rúnirnar í Runamo. Jarðvísindamenn telja að risturnar í Runamo séu jökulrákir.

Sögulega skáldsagan Ævitími skugganna (da.: Skyggers levetid) eftir danska rithöfundinn Gorm Rasmussen fjallar um Finn Magnússon.

Bókin Runamo Skriften der kom og gik eftir Rud Kjems kom út í Danmörku 2006.

Þegar Jón Sigurðsson kom til Kaupmannahafnar vann hann um tíma sem skrifari hjá Finni.



Fyrirrennari:
Enginn
Ritstjóri Skírnis
(18271827)
Eftirmaður:
Þórður Jónassen


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Erlendir