Fimmtarþraut

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fimmtarþraut er íþrótt þar sem keppt er í fimm íþróttagreinum. Þessar greinar hafa verið breytilegar og ólíkar greinar í karla- og kvennaflokki. Á hinum fornu Ólympíuleikum fór fimmtarþraut fram á einum degi og keppnisgreinar voru langstökk, tvær kastgreinar: spjótkast og kringlukast, spretthlaup og glíma.

Þegar Ólympíuleikarnir voru endurreistir á 20. öld varð til tvenns konar fimmtarþraut: Annars vegar byggð á hinum fornu Ólympíuleikum, þar sem keppt er í fimm greinum frjálsra íþrótta, og hins vegar nútímafimmtarþraut sem Pierre de Coubertin bjó til og byggðust á tengslum hinnar fornu fimmtarþrautar við herþjálfun. Nútímafimmtarþraut hefur verið keppnisgrein á Ólympíuleikunum frá 1912 til okkar daga. Frjálsíþróttafimmtarþraut hefur tvisvar verið á dagskrá Ólympíuleikanna, en er það ekki lengur.

Í karlaflokki var keppt í fimmtarþraut í frjálsum íþróttum á Ólympíuleikum frá því þeir voru enduruppteknir 1906 til 1924. Í karlaflokki eru greinarnar þær sömu og í Grikklandi hinu forna að öðru leyti en því að í stað glímu er nú 1500 metra hlaup. Á fyrstu enduruppteknu Ólympíuleikunum var grísk-rómversk glíma en henni var skipt út fyrir 1500 metra hlaup árið 1912.

Keppt var í fimmtarþraut í kvennaflokki á Ólympíuleikum frá 1964 - 1980 með sérstökum greinum sem ekki voru í karlaflokki og var keppt á tveimur dögum. Á fyrri deginum var keppt í 80 metra grindahlaupi, kúluvarpi og hástökki, en á þeim síðari langstökki og 200 metra hlaupi. Árið 1976 var 80 metra grindahlaupi breytt í 100 metra og 200 metra hlaupi í 800 metra. Árið 1984 var ekki lengur keppt í fimmtarþraut í kvennaflokki, en sjöþraut tekin upp í staðinn.

Þar sem nútímafimmtarþraut virtist í litlum tengslum við herþjálfun lengur eftir síðari heimsstyrjöld datt franska herforingjanum Henri Debrus í hug að uppfæra hana fyrir íþróttaþjálfun hermanna. Í herfimmtarþraut er þannig keppt í skotfimi, hindrunarhlaupi, hindrunarsundi, kastgreinum og víðavangshlaupi. Í flotafimmtarþraut er keppt í hindrunarhlaupi, björgunarsundi, sundi, sjómennsku og víðavangshlaupi með sundi. Í flughersfimmtarþraut er keppt í sex greinum: skotfimi, skylmingum, rathlaupi, körfuknattleik, hindrunarhlaupi og sundi.

Árið 2008 var í fyrsta sinn, til reynslu, keppt í fimmtarþraut í snjó í Québec. Yfir 1200 tóku þátt. Keppt var í hjólreiðum, víðavangshlaupi, skíðagöngu, skautahlaupi og snjóþrúguhlaupi. Slík mót hafa verið haldin árlega síðan, en Kanadamenn hafa nánast einokað verðlaunasæti.