Fangarnir í sólhofinu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fangarnir í sólhofinu (á frummálinu Le temple du soleil eða „sólhofið“) er fjórtánda bókin í myndasöguflokknum Ævintýri Tinna eftir belgíska myndasöguhöfundinn Hergé.

Bókin er framhald af Sjö kraftmiklum kristallskúlum. Hún var fyrsta Tinnasagan sem birtist í tímaritinu Le journal de Tintin 1946 en Sjö kraftmiklar kristallskúlur hafði áður birst sem framhaldssaga í dagblaðinu Le Soir 1943-1944. Hún kom fyrst út á bók árið 1949.

Hún kom út árið 1974 á íslensku í þýðingu Lofts Guðmundssonar.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Tinni og Kolbeinn kafteinn eru komnir til Kallaó í Perú til þess að taka á móti fraktskipinu Pakakama. Vandráði prófessor var rænt í fyrri sögunni og Tinna grunar að honum sé haldið um borð í Pakakama. Interpól bað Skafta og Skapta að aðstoða lögregluforingjann í Kallaó. En skyndilega dregur Pakakama fána að húni sem tilkynnir að hættulegur smitsjúkdómur er um borð í skipinu. Tinni trúir þessu ekki og laumast um borð og finnur Vandráð. Hann kemst að því að honum var rænt fyrir að setja á sig armband inkans Raskars Kapaks og á að gjalda fyrir það með lífi sínu. Tinna tekst að sleppa og segir Kolbeini að hafa samband við lögreglu á meðan hann fylgist með mannræningjunum. Kolbeinn hringir í Skaftana.

Þegar þeir koma í fjöruna þar sem Tinni beið finna þeir hann hvergi. Þeir skipta liði og Kolbeinn hittir Tinna sem elti mannræningjana og komst að því að þeir væru á leið til fjallabæjarins Jaúga með lest. Tinni og Kolbeinn taka lestina en Tinni uppgötvar að það er búið að aftengja vagninn þeirra og þeir stökkva út. Á endanum koma þeir til Jaúga en lögregluforinginn þar vill engu svara þeim þegar þeir spyrja um Vandráð og það sama gildir um íbúa bæjarins. Á meðan hann er að spyrja fólk, sér Tinni tvo menn níðast á ungum appelsínusala. Tinni reynir að stöðva þá og þeir ráðast á hann, en Tinni og Tobbi sigra þá. Tinni kemst þá að því að appelsínusalinn er horfinn. Skyndilega heyrir hann í ungum strák sem felur sig á bak við vegg sem segir Tinna að hitta sig við brú Inkans við sólsetur. Eftir það hittir hann miðaldra indjána sem segir honum að hætta að leita að vini sínum, en Tinni segist ekki munu gera það. Þá gefur indjáninn Tinna verndargrip og segir að hann geti bjargað honum úr háska.

Tinni og Kolbeinn hitta unga strákinn við brúna sem reynist vera ungi appelsínusalinn. Hann segist heita Zorrínó og segir að inkarnir hafi farið með Vandráð í sólhofið og segist að hann ætla að leiða þá þangað. Leiðin liggur yfir snæviþakin fjöll og gegnum raka frumskóga. Þeir eru stöðugt eltir af njósnurum inka og Kolbeinn á í basli með dýralífið. Þegar þeir fara yfir foss dettur Tinni inn í hann. Hann kallar til Kolbeins og Zorrínós og segir þeim að koma. Hann hefur fundið þar leyniinngang að sólhofinu. Þeir brjótast inn í það og eru handsamaðir. Tinni lætur Zorrínó fá verndargripinn.

Þegar þeir standa fyrir framan syni sólarinnar, leiðtoga inkanna, segir hann að þeir munu verða brenndir á bálkesti með Vandráði. Tinni segir Zorrínó að sýna honum medalíuna. Indjáninn sem gaf Tinna hana kemur fram og reynist vera æðsti prestur sólarinnar. Hann segist hafa gefið Tinna verndargripinn þegar hann verndaði Zorrínó. Sonur sólarinnar hlífir Zorrino en leyfir Tinna og Kolbeini að velja daginn sem þeir verða brenndir. Á meðan þeir eru í fangelsi finnur Tinni dagblað sem Kolbeinn ætlaði að henda og hrópar upp himinlifandi. Tinni segir Kolbeini að treysta og sér og segja ekkert. Tinni segir syni sólarinnar hvaða dag þeir skuli brenndir því það sé afmælisdagur Kolbeins. Þann dag er þeim svo stillt upp á bálköst ásamt Vandráði. Tinni talar þá hátt við sólguðinn og segir honum að hafna fórninni með því að hylja andlit sitt og kemur þá sólmyrkvi. Tinni segir syni sólarinnar að hann láti sólina koma aftur ef hann láti sig og vini sína lausa og veki vísindamennina sjö úr dáinu. Hann lofar því og sólmyrkvinn hverfur. Tinni segir Kolbeini að dagsetningin með sólmyrkvanum hafi verið dagblaðinu. Tinni, Kolbeinn og Vandráður fá að fara og vísindamennirir vakna úr dásvefninum. Zorrínó ákveður að vera hjá inkunum og Tinni og félagar halda heim og lofa að segja engum hvar sólhofið er.