Krabbinn með gylltu klærnar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krabbinn með gylltu klærnar
(Le Crabe aux pinces d'or)
Forsíða ensku útgáfunnar
ÚtgefandiCasterman
Útgáfuár1941
RitröðÆvintýri Tinna
Höfundar
ListamaðurHergé
Upphafleg útgáfa
Útgefið íLe Soir (fyrsti hlutinn í Le Soir Jeunesse)
Dagsetning útgáfu17. október 1940 - 18. október 1941
TungumálFranska
ISBNISBN 2-203-00108-9
Þýðing
ÚtgefandiFjölvi
Útgáfuár1973
ÞýðendurLoftur Guðmundsson
Tímatal
UndanfariVeldissproti Ottókars konungs, 1938 - 1939
FramhaldDularfulla stjarnan, 1942

Krabbinn með gylltu klærnar (heitir á frummálinu Le crabe aux pinces d'or) er níunda bókin í Tinna-teiknimyndaflokknum, Ævintýri Tinna. Hún var samin af belgíska teiknaranum Hergé. Í bókinni kynnist Tinni fyrst vini sínum Kolbeini kafteini.

Krabbinn með gylltu klærnar er fyrsta sagan sem Hergé gaf út eftir innrás nasista í Belgíu 1940. Fyrir innrásina var hann byrjaður að gefa út söguna Svarta gullið í aukablaði dagblaðsins Le Vingtième Siècle fyrir börn: Le Petit Vingtième. Í þeirri sögu er aðalóvinurinn þýskur hermdarverkamaður, dr. Müller. Nasistar lokuðu skrifstofum blaðsins og Hergé varð atvinnulaus. Hann fékk vinnu hjá dagblaðinu Le Soir sem fékk að halda áfram útgáfu, og varð ritstjóri aukablaðs þess fyrir börn, Le Soir Jeunesse. Þar byrjaði hann á Krabbinn með gylltu klærnar í október árið 1940 og forðaðist markvisst pólitískt viðkvæm málefni af ótta við Gestapó.

Sagan birtist í dagblaðinu, tvær heilsíður í hverri viku, þar til útgáfu aukablaðsins var hætt í september 1941 vegna pappírsskorts. Sagan hélt þó áfram eftir stutt hlé sem teiknimyndasyrpa (ein lína í senn) í aðalblaðinu, Le Soir, sem neyddi Hergé til að endurskoða skipulag frásagnarinnar. Þessi svart-hvíta frumútgáfa sögunnar kom út á bók árið 1941 en fyrir nýja útgáfu í lit árið 1943 var sagan teiknuð algerlega upp á nýtt.

Bókin kom fyrst út í íslenskri þýðingu Lofts Guðmundssonar hjá Fjölva árið 1973.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Tinni og Tobbi eru í gönguferð. Tobbi fer að róta í rusli og festir trýnið í tómri krabbadós með rifinn miða. Tinni losar Tobba og hendir dósinni. Seinna hittir hann Skaftana sem eru rannsaka mál sem snýst um um falsaða peninga. Þeir biðja hann um aðstoð. Þeir Tinni skoða veski drukknaðs manns við höfnina. Í því eru nokkrir falsaðir peningar og miði sem virðist hafa komið af sömu krabbadós og Tinni henti. Hann reynir að finna hana en hún er horfin. Hann fær að halda miðanum og sér að nafnið „Karaboudjan“ er skrifað aftan á hann. Skyndilega öskrar kona húsvarðarins og Tinni flýtir sér til hennar. Hún segir honum að Japani hafi ætlað að færa honum bréf en hafi verið rænt.

Næsta morgunn hringja Skaftarnir í Tinna og segja honum að drukknaði maðurinn hafi heitið Herbert Dawes og verið háseti á flutningaskipinu Karaboudjan. Tinni fer um borð með Sköftunum og ákveður að skoða skipið meðan þeir ræða við stýrimanninn Hörð. Tinni er rotaður og síðan keflaður og Sköftunum er sagt að hann hafi farið í land á undan þeim. Skipið leggur úr höfn og Tinna tekst að sleppa með hjálp Tobba. Hann felur sig í lestinni og kemst að því að áhöfnin er að smygla heróíni í krabbadósum. Tinni reynir að sleppa úr lestinni og klifrar upp í káetu skipstjórans Kolbeins sem er kófdrukkinn. Tinni kemst að því að Hörður helli Kolbein fullan svo áhöfnin komist upp með smyglið. Tinni fær Kolbein í lið með sér og tekst að senda loftskeyti um eiturlyfin. Saman sleppa Tinni og Kolbeinn frá Karaboudjan í björgunarbáti.

Á siglingunni ræðst flugvél að þeim en þeim tekst að handsama flugmennina og ákveða að fljúga henni til Spánar. Kolbeinn finnur viskíflösku og drekkur sig fullan. Í ölæðinu rotar hann Tinna sem veldur því að flugvélin brotlendir í miðri Saharaeyðimörkinni. Flugmennirnir flýja og Tinni, Tobbi og Kolbeinn halda áfram, en falla í yfirlið út af hitanum. Björgunarsveit frá eyðimerkurvirki bjargar þeim. Þeir segja virkisstjóranum sögu sína, en heyra svo í útvarpinu að Karaboudjan hafi sokkið. Tinni og Kolbeinn trúa því ekki og ákveða að halda til Bagghar.

Í Bagghar ákveða félagarnir að spyrja hafnaryfirvöld um Karaboudjan. Á leiðinni þangað kemur Tinni auga á Hörð og eltir hann, en verður viðskila við Kolbein. Tinni týnir Herði og ákveður að finna kafteininn. Á meðan lendir Kolbeinn í basli með lögregluna í Bagghar þegar hann sér Karaboudjan í höfninni undir nafninu Djebel Amilah. Einn af mönnum Harðar sér Kolbein og Hörður skipar þeim að ræna honum. Tinna tekst ekki að bjarga Kolbeini, en hittir Skaftana. Þeir segja Tinna að þeir hafi fengið loftskeytið og flogið til Bagghar en áhöfn Karaboudjan neitað að það væru eiturlyf um borð. Tinni segir þeim frá krabbadósunum og þeir komast að því að þær eiga að fara til kaupsýslumannsins Ómars Ben Salad. Tinni fær Skaftana að tala við Ben Salad á meðan hann leitar að Herði.

Eftir að hafa loksins fundið Hörð eltir Tinni hann að verslun einni. Tobba tekst að lokka búðareigandann í burtu og Tinni laumast niður í vínkjallarann þar sem hann finnur leynidyr í tómri víntunnu. Tinni finnur Kolbein og tekst að frelsa hann, en skothríð hefst og þeir lokast inni í litlu herbergi fullu af vínflöskum. Í skotbardaganum brotna flöskurnar og Tinni og Kolbeinn verða ölvaðir af vínandanum. Í ölæðinu tekst Kolbeini að rota alla menn Harðar og eltir svo Hörð sjálfan.

Á meðan hafa Skaftarnir farið á fund Ómars Ben Salad og ásaka hann um eiturlyfjasmygl. Um leið og Ben Salad mótmælir, hleypur Hörður út um leynidyr í höll hans og í látunum rotast Ben Salad. Tinni kemst að því að Ben Salad er foringi smyglaranna. Herði tekst að komast undan á stolnum hraðbát, en Tinni veitir honum eftirför og tekst að handsama hann. Síðan finnur lögreglan Japanann sem var rænt í lestinni á Djebel Amilah. Hann segir Tinna að hann heiti Bunji Kuraki og vinni fyrir rannsóknarlögregluna í Yokohama í Japan. Hann segir Herbert Dawes hafi undir áhrifum áfengis ætlað að bjóða honum eiturlyf, en aldrei mætt til fundar við sig. Hann segir að hann hafi beðið Dawes um nafnið á skipinu og Dawes hafi skrifað það á miðann af krabbadósinni. Síðan drap áhöfnin á Karaboudjan Dawes og lét það líta út sem slys. Karaki ætlaði að vara Tinna við en var þá rænt. Þegar búið er að koma smyglhringnum á bak við lás og slá eru Tinni og Kolbeinn hylltir sem hetjur. Kolbeinn heitir því að hætta að drekka.

Annað[breyta | breyta frumkóða]

Söguþráður kvikmyndarinnar Ævintýri Tinna: Leyndardómur Einhyrningsins er að hluta byggður á efni bókarinnar.