Fara í innihald

Enskunám

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Enskunám er nám í ensku fyrir þá sem ekki hafa ensku að móðurmáli.

Saga enskunáms á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta kennslan í nútímaensku á Íslandi er ef til vill veturinn 1813-1814 en þá dvaldi Rasmus Kristján Rask hjá Árna HelgasyniReynivöllum í Kjós og er sagður hafa sagt nemendum Árna til í ensku. Við Bessastaðaskóla varð enska valgrein og nemendur máttu velja milli hebresku og ensku og frá árinu 1850 milli frönsku og ensku. Fyrsti enskukennari Bessastaðaskóla var Sigurður Sívertsen sonur Bjarna Sívertsen riddara. Sigurður var þá var kominn um sextugt. Hann kenndi ensku 1847-1848 og svo 1849-1850. Halldór Kr. Friðriksson kennari tók við enskukennslunni af Sigurði.

Árið 1850 tóku fjórir nemendur stúdentspróf í ensku en það sama ár er enska afnumin sem prófgrein og gerð að aukafagi. Því varð ekki breytt aftur fyrr en árið 1904. Bjarni Jónsson rektor tók við kennslu í frönsku og ensku árið 1853.

Þegar gufuskip hófu að sigla til Íslands árið 1858 komu til landsins margir enskumælandi ferðamenn sem þurfu enskumælandi leiðsögumenn. Fyrsti leiðsögumaðurinn var sennilega Geir Zoëga eldri. Fyrsta kennslubókin í ensku sem kom út á Íslandi var Leiðarvísir í enskri tungu eftir Odd V. Gíslason cand. theol en hún kom út árið 1863. Bókin er eins konar handbók fyrir leiðsögumenn og þá sem eiga samskipti við útlendinga sem hingað koma.

Halldór Briem guðfræðingur gaf árið 1873 út kennslubókina Kennslubók í enskri tungu. Vasabók fyrir vesturfara og aðra, er eiga viðskipti við Englendinga eða vilja læra ensku. Bók Halldórs var hugsuð fyrir Vesturfara en einnig þá sem seldu til Bretlands kvikfénað á fæti en um 1870 voru það mikil viðskipti og um 2500 hross árlega seld breskum kaupmönnum. Halldór gaf aftur út enskukennslubækur 1875 og 1889.

Árið 1873 setti Handiðnamannafélagið í Reykjavík upp sunnudagaskóla fyrir fullorðna og var enska vinsælasta námsgreinin. Oddur V. Gíslason kenndi enskuna og notaði bók Hallórs.

Um 1880 þegar skólum tekur að fjölga þá er enska kennd víðar en í lærða skólanum. Enskukennsla hófst í Kvennaskólanum um 1890 og voru fyrstu enskukennarar þar sennilega þær Jarþrúður Jónsdóttir og Þórunn Richardsdóttir. Í Möðruvallaskóla var Jón Hjaltalín skólastjóri og enskukennari en hann hafði starfað í nokkur ár sem bókavörður í Edinborg. Enska var kennd fimm stundir í viku við skólann og lagði Jón áherslu á talmál. Ensk lestrarbók eftir Jón Hjaltalín kom út árið 1882 og árið 1883 gaf hann út Orðasafn íslenzkt og enskt.

Jón Ólafsson skáld og þingmaður varð enskukennari við lærða skólann 1881. Hann gaf út kennslubókina English Made Easy þegar hann hafði starfað þar í eitt ár og árið 1888 gaf Jón Ólafsson út samtalsbók fyrir úflytjendur Vesturfara túlk.

Frá árinu 1899 kenndi dóttir hans Sigríður Jónsdóttir ensku í Kvennaskólanum í Reykjavík en hún kenndi síðar einnig ensku í Barnaskóla Reykjavíkur.

Geir T. Zoëga tók við enskukennslu af Jóni. Árið 1889 gaf hann út Enskunámsbók Geirs T. Zoëga (Geirsbók). Hún var endurbætt, orðasafni bætt við og gefin út sjö sinnum allt til ársins 1934. Geir T. Zoëga gaf út ensk-íslenska orðabók árið 1896, íslensk-enska orðabók 1904 og árið 1910 forníslenska-enska orðabók. Geirsbók varð aðalbyrjendabók í ensku í Gagnfræðaskólanum á Akureyri, Kennaraskólanum, Kvennaskólanum í Reykjavík og Flensborg í Hafnarfirði.