Dýrafjörður
Dýrafjörður er fjörður á Vestfjarðakjálkanum og er á milli Arnarfjarðar og Önundarfjarðar. Dýrafjörður er þrjátíu og tveggja kílómetra langur og um níu kílómetrar að breidd yst. Hann er nú hluti af sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ.
Tvö fell, sitt hvoru megin fjarðarins, setja svip sinn á hann, Sandafell (362 m) að sunnan og Mýrafell (312 m) að norðan. Í sameiningu loka þau fyrir sýn inn fjörðinn svo að úr fjarðarmynninu sést ekki inn í botn en þegar siglt er inn fjörðinn opnast dyr á milli þeirra. Þess hefur verið getið til að fjörðurinn hafi upphaflega dregið nafn af þessu og heitið Dyrafjörður en samkvæmt Landnámabók heitir hann eftir landnámsmanninum Dýra frá Sunnmæri.
Nokkurt undirlendi er við fjörðinn innanverðan og þar eru allnokkrir bæir, báðum megin fjarðar. Dálítill dalur er inn af fjarðarbotninum en þar er engin byggð lengur. Inn af dalbotninum er Gláma, víðáttumikið hálendissvæði þar sem áður var jökull.
Á suðurströnd Dýrafjarðar, undir Sandafelli, er þorpið Þingeyri. Þar var þingstaður og verslunarstaður frá fornu fari og kauptún fór að myndast þar á 19. öld. Skammt fyrir utan Þingeyri er Haukadalur þar sem Gísli Súrsson bjó. Frá Þingeyri liggur vegur um Hrafnseyrarheiði yfir í Arnarfjörð en hann er jafnan lokaður nokkurn hluta vetrar. Rætt hefur verið um að gera jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Frá norðurströnd fjarðarins liggur svo góður vegur norður yfir Gemlufallsheiði til Önundarfjarðar.
Við norðanverðan Dýrafjörð, utan við Mýrafell, er Núpur, gamalt höfðingjasetur og kirkjustaður. Þar var stofnaður skóli árið 1907 og varð hann síðar héraðsskóli og var starfræktur til 1992. Þar er nú sumarhótel. Kirkjur eru einnig á Mýrum við norðanverðan fjörðinn og á Hrauni í Keldudal, yst í sunnnanverðum firðinum, en sú síðarnefnda er ekki lengur sóknarkirkja því dalurinn er í eyði. Áður var kirkja á Söndum en hún var síðar færð til Þingeyrar.
Landnám
[breyta | breyta frumkóða]Fjórir landnámsmenn námu land í Dýrafirði, Dýri, sem áður er nefndur og sagður hafa búið á Hálsum, Eiríkur í Keldudal, Vésteinn Végeirsson í Haukadal og Þórður Víkingsson, sem nam fyrstur land í Alviðru í Dýrafirði. Þórður var kallaður son Haralds konungs hárfagra, „en það mun þó varla vera satt“, skrifar Guðbrandur Vigfússon.
Gallerí
[breyta | breyta frumkóða]-
Um aldamót 1900.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Laist W.D.. 2017. North Atlantic Right Whales: From Hunted Leviathan to Conservation Icon. JHU Press. Retrieved on October 08, 2017
Íbúar
[breyta | breyta frumkóða]- Ásgeir Blöndal Magnússon fæddist í Dýrafirði.