Dómkirkjan í Mainz
Dómkirkjan í Mainz er keisarakirkja í þýsku borginni Mainz og eru elstu hlutar hennar frá 10. öld. Í henni fóru fram nokkrar konungskrýningar. Í kirkjunni hvíla allmargir biskupar sem þjónað hafa í borginni.
Saga dómkirkjunnar
[breyta | breyta frumkóða]Byggingasaga
[breyta | breyta frumkóða]Byrjað var að reisa kirkjuna síðla á 10. öld að tilstuðlan erkibiskupsins Willigis, sem þá var kjörfursti í þýska ríkinu og á þessum tíma einnig ríkiskanslari. Áætlanirnar voru gerðar 975 og hófust framkvæmdir í framhaldi af því. Ein af ástæðum fyrir þessari glæsibyggingu var að flytja krýningar þýsku konunganna frá Aachen til Mainz og átti dómkirkjan að þjóna sem krýningarstaður. Borgin Mainz var lítil á þessum tíma og hafði þó nægar kirkjur fyrir. Fyrsta hlutanum, 75 metra löngu skipi, lauk 1009, og var hann helgaður heilögum Marteini frá Tours. Til beggja enda voru kórar. Talið er að kórarnir áttu að merkja veraldleg yfirráð biskupsins annars vegar og andleg yfirráð hans hins vegar. Á vígludeginum, 29. ágúst 1009, sennilega eftir vígsluna, brann kirkjan. Talið er að eldurinn hafi orsakast af hátíðarljósum. Kirkjan lá ónotuð næstu áratugi og fóru viðgerðir ekki fram fyrr en 1031-51. Hún var hins vegar vígð 1036 í viðurvist Konráðs II keisara. Kirkjan skemmdist enn í eldi 1081. Hinrik IV keisari lét endurbyggja kirkjuna í langbarðastíl í kringum árið 1100 og fékk hún þá núverandi mynd með þrjú skip. Hinrik dó 1106 og varð hún þá ekki fullkláruð fyrr en 1239, þar sem eftirmenn hans höfðu takmarkaðan áhuga á byggingunni. Árið 1184, nokkuð áður en kirkjan var fullkláruð, hélt Friðrik Barbarossa keisari veislu í kirkjunni af tilefni af því að synir hans tveir voru slegnir til riddara. Veisla þessi var talin mesta veisla miðalda.
Krýningar
[breyta | breyta frumkóða]Nokkrar konungskrýningar hafa farið fram í dómkirkjunni. Fjórir konungar voru krýndir þar og tvær drottningar. Aðalkrýningarstaður þýskra konunga var hins vegar Aachen.
Persóna | Krýningarár | Ath. | Krýnandi |
---|---|---|---|
Agnes frá Poitou | 1043 | Eiginkona Hinriks III | Bardo erkibiskup |
Rúdolf frá Rheinfelden | 1077 | Gagnkonungur | Siegfried frá Eppstein |
Matthildur frá Englandi | 1110 | Eiginkona Hinriks V | Friedrich I. erkibiskup frá Schwarzenburg |
Filippus | 1198 | Aimo biskup frá Tarantaise | |
Friðrik II | 1212 | Siegfried II frá Eppstein | |
Hinrik Raspe | 1246 | Gagnkonungur | Siegfried III frá Eppstein |
Seinni saga
[breyta | breyta frumkóða]1793 var franskur byltingarher í Mainz. Prússar gerðu umsátur um borgina og skutu á hana með fallbyssum. Í skothríðinni stórskemmdist dómkirkjan og nokkrar aðrar kirkjur. Prússar náðu borginni á sitt vald og notuðu dómkirkjuna sem vopnabúr fyrir herinn. Þegar Frakkar réðu Mainz aftur snemma á 19. öld aðskildu þeir kirkjuna frá ríkinu og leystu biskupsdæmið upp. Nokkrar kirkjur voru rifnar við það tækifæri og í upphafi stóð til að rífa dómkirkjuna einnig. Biskupinn Joseph Ludwig Colmar skaut málinu hins vegar til Napoleons sjálfs, sem ákvað að dómkirkjunni skyldi bjargað. Í kjölfarið hófust viðgerðir á byggingunni. En eftir hrakfrarir Napoleons í Rússlandi veturinn 1812-13 stöðvuðu Frakkar þessar framkvæmdir og notuðu kirkjuna sem herspítala. Hluti hennar var einnig notuð sem svínastía. Það var ekki fyrr en eftir brotthvarf Frakka 1814 að byggingin varð nothæf á ný sem kirkja. Kirkjan fékk þá nýtt hvolfþak en það var rifið 1870 þar sem það þótti of þungt fyrir langskipið. Í upphafi 20. aldar fór vatnsspegill miðborgar Mainz að grynnka vegna framkvæmda við varanlega árbakka Rínarfljóts. Því fóru undirstöður dómkirkjunnar að fúna en þær voru gerðar af sverum trjábolum. Jarðvegsvinna við grunn kirkjunnar dróst fram yfir heimstyrjöldina fyrri en sökum stríðsins stöðvuðust framkvæmdir. Á tíma var óttast að kirkjan væri í hættu. 1924-28 fékk hún þó steypu- og stálgrunn og bjargaðist byggingin við það. 1942 stórskemmdist kirkjan í hörðum loftárásum. Þá brunnu öll þökin niður og þótti það þó vel sloppið miðað við aðstæður. Viðgerðir stóðu allt fram á 8. áratuginn. 1975 lauk framkvæmdum og var þá haldin þúsaldarhátið fyrir tilvist kirkjunnar.
Listaverk og dýrgripir
[breyta | breyta frumkóða]1631 hertóku Svíar borgina Mainz í 30 ára stríðinu. Þeir fluttu ýmsa dýrgripi dómkirkjunnar til Svíþjóðar. Sumir þeirra eru til sýnis í söfnum í Uppsölum enn þann dag í dag.
Bronsdyr
[breyta | breyta frumkóða]Elsta listaverk dómkirkjunnar eru bronsdyrnar sem snúa að markaðstorginu. Þetta eru fyrstu málmdyr sem smíðaðar voru eftir daga Karlamagnúsar. Dyrnar voru reyndar í Frúarkirkjunni í Mainz í upphafi en hún var rifin 1803. Þá var ákveðið að setja þær upp í dómkirkjunni í stað þess að bræða þær. Efst í hurðunum er áletrun frá 1135, þar sem segir að erkibiskup Adalbert hafi veitt borginni Mainz borgarréttindi.
Maríualtari
[breyta | breyta frumkóða]Merkasta altari kirkjunnar er Maríualtarið. Það var búið til um 1510 í gotneskum stíl. Altaristaflan er nokkurs konar helgiskrín með viðarstyttu af Maríu mey með Jesúbarnið. Henni til sitthvorrar handar er heilagur Marteinn og heilagur Bonifatíus. Hliðartöflurnar sýna Jesú í jötunni, umkringdan foreldrum sínum og vitringunum þremur.
Minnisvarðar
[breyta | breyta frumkóða]Í dómkirkjunni í Mainz eru fleiri minnisvarðar um horfna biskupa en í nokkurri annarri þýskri kirkju. Biskuparnir voru yfirmenn stærsta biskupsstóls norðan Alpa en einnig kjörfurstar þýska ríkisins. Sumir voru því útnefndir kanslarar keisara og aðrir staðgenglar páfans. Elsti minnisvarðinn er frá 13. öld og er til minnis um erkibiskup Siegfried III frá Eppstein. Einn glæsilegasti minnisvarðinn er um erkibiskupinn og kardinálann Albrecht frá Brandenborg. Hann sýnir biskupinn í mannsstærð, í fullum skrúða með ríkisdjásn. Styttan stendur í fögrum boga. Neðst er áletraður platti. Oftar en ekki eru minnisvarðarnir í mannsmynd en á seinni tíð hefur minningarplatti verið látin duga. Flestir biskupanna hvíla einnig í dómkirkjunni. Þar eru tvær grafhvelfingar, hvor í sínum enda kirkjunnar. Í austurhvelfingunni er auk þess skrín með líkamsleifum heilagra frá Mainz.
Orgel
[breyta | breyta frumkóða]Fyrstu heimildir um orgel í dómkirkjunni eru frá 1334. Fleiri orgel fylgdu í kjölfarið. Núverandi orgel er eitt hið flóknasta í þýskri kirkju. Hún samanstendur af 7.984 pípum og er með 114 registur. Á hinn bóginn er hljómburður dómkirkjunnar ekki sérlega góður miðað við aðrar kirkjur.
Klukknaverk
[breyta | breyta frumkóða]Klukknaverk dómkirkjunnar samanstendur af níu klukkum. Þær elstu eru frá 1809 og voru smíðaðar meðan kirkjan var í viðgerð á franska tímanum. Það var Napoleon sjálfur sem gaf kirkjunni málminn en hann var upprunninn úr prússneskum fallbyssum sem Frakkar hernámu. Þyngsta klukkan vegur rúmlega 3,5 tonn og heitir Martinus.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Mainzer Dom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt maí 2010.