Carlos Menem
Carlos Menem | |
---|---|
Forseti Argentínu | |
Í embætti 8. júlí 1989 – 10. desember 1999 | |
Varaforseti | Eduardo Duhalde (1989–1991) Enginn (1991–1995) Carlos Ruckauf (1995–1999) |
Forveri | Raúl Alfonsín |
Eftirmaður | Fernando de la Rúa |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 2. júlí 1930 Anillaco, La Rioja, Argentínu |
Látinn | 14. febrúar 2021 (90 ára) Búenos Aíres, Argentínu |
Þjóðerni | Argentínskur |
Stjórnmálaflokkur | Réttlætisflokkurinn |
Maki | Zulema Yoma (g. 1966; sk. 1991) Cecilia Bolocco (g. 2001; sk. 2011) |
Börn | 4 |
Undirskrift |
Carlos Saúl Menem (2. júlí 1930 – 14. febrúar 2021) var argentínskur stjórnmálamaður sem var forseti Argentínu frá 1989 til 1999. Menem var perónisti úr hægri væng Réttlætisflokksins og á stjórnartíð sinni rak hann markaðsvæna efnahagsstefnu í anda nýfrjálshyggju. Undir lok forsetatíðar hans hófst efnahagskreppa í Argentínu sem endaði með gjaldþroti argentínska ríkisins árið 2001.[1] Menem reyndi að komast aftur til valda í forsetakosningum árið 2003 en dró framboð sitt til baka eftir fyrri kosningaumferð vegna slæms gengis í skoðanakönnunum gegn Néstor Kirchner.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Carlos Menem var af sýrlenskum ættum og ólst upp í íslamstrú. Hann snerist til kaþólskrar trúar seint á ævinni til þess að eiga auðveldara með að fóta sig í argentínskum stjórnmálum.[2]
Eftir að síðasta herforingjastjórn Argentínu leið undir lok árið 1983 var Menem kjörinn fylkisstjóri heimafylkis síns, La Rioja, sem var eitt fátækasta fylki Argentínu. Menem þótti litríkur persónuleiki og var þekktur sem glaumgosi með dálæti á glæsibifreiðum og fögrum konum. Árið 1989 bauð Menem sig fram fyrir peróníska Réttlætisflokkinn í forsetakosningum Argentínu og vann sigur með 49 prósentum atkvæða gegn Eduardo Angeloz, frambjóðanda Róttæka borgarabandalagsins, sem þá sat við stjórn landsins.[3]
Þegar Menem tók við forsetaembætti árið 1989 var efnahagsástandið í Argentínu mjög slæmt.[4] Landið var stórskuldugt og rambaði á barmi gjaldþrots.[5] Menem brást við ástandinu með því að ráðast í verulegan niðurskurð í ríkisútgjöldum og með einkavæðingu á fjölda ríkisfyrirtækja. Aðhaldsstefna Menems kom mörgum í opna skjöldu þar sem hún stakk í stúf við hefðbundna hugmyndafræði perónismans. Mörg verkalýðsfélög landsins, sem höfðu áður stutt Menem, snerust því gegn honum og sömuleiðir margir hefðbundnir perónistar á þinginu. Menem beitti ítrekað ákvæði í argentínsku stjórnarskránni sem heimilar forsetanum að gefa út tilskipanir til að fá vilja sínum framgegnt án aðkomu þingsins.[6]
Efnahagsstefna Menems bar ekki mikinn árangur fyrstu tvö stjórnarár hans en fór að bera ávöxt árið 1991 þegar stjórnin setti svokölluð „innleysanleikalög“ sem bundu gengi argentínska pesans við Bandaríkjadollara.[1] Um leið varð stjórn Menems þó einnig þekkt fyrir spillingu sem kom upp í tengslum við einkavæðingu ríkisfyrirtækja.[6]
Sömuleiðis varð það afar umdeilt þegar Menem ákvað að náða fjölda argentínskra herforingja sem höfðu verið ákærðir fyrir mannréttindabrot og fjöldamorð í skítuga stríðinu á tíma herforingjastjórnarinnar. Menem veitti sakaruppgjafirnar til að stuðla að „þjóðarsátt“ en þær vöktu verulega reiði árið 1995 eftir að listi var birtur af um 10.000 manns sem höfðu látið lífið vegna stjórnaraðgerða í skítuga stríðinu.[7] Gagnrýnendur Menems vændu hann um að gefa út sakaruppgjafirnar til að tryggja sér stuðning herforingjanna og forðast hugsanlegar uppreisnir gegn sér.[8]
Árið 1994 náði Menem fram breytingu á stjórnarskrá Argentínu sem heimilaði honum að bjóða sig fram til annars kjörtímabils. Menem bauð sig fram til endurkjörs næsta ár og vann sigur.[9] Vinsældir Menems fóru hins vegar dvínandi á öðru kjörtímabilinu vegna hneykslismála og versnandi kjara argentínsku millistéttarinnar og því fór svo að flokkur forsetans bað ósigur gegn bandalagi mið- og vinstriflokka í þingkosningum árið 1997.[10] Í aðdraganda forsetakosninga árið 1999 viðraði Menem hugmyndir um að breyta eða endurtúlka stjórnarskrána til þess að heimila sjálfum sér að bjóða sig fram til þriðja kjörtímabils í röð.[9] Þessar áætlanir runnu út í sandinn þegar hæstiréttur Argentínu staðfesti að Menem væri ókjörgengur til endurkjörs.[11]
Á síðustu stjórnarárum Menems versnaði efnahagur Argentínu á ný samhliða Asíukreppunni 1997 og gengisfesting pesans við Bandaríkjadollara fór að gera Argentínu erfiðara fyrir að bregðast við ástandinu. Efnahagskreppa var því aftur farin að skekja landið þegar Menem lét af völdum í lok ársins 1999 og fáeinum árum leiddi hún til þess að Argentína var lýst gjaldþrota.[1]
Stuttu eftir forsetatíð sína sat Menem um skeið í stofufangelsi vegna rannsókna á spillingarmálum stjórnar hans, meðal annars á fjárdrætti og ólöglegum vopnasölum til Króatíu og Ekvador.[12] Ákærurnar voru síðar látnar niður falla og Menem sleppt. Árið 2003 gaf Menem kost á sér til endurkjörs á forsetastól og sagðist munu leiða landið úr efnahagskreppunni sem þá tröllreið þjóðinni. Menem hlaut flest atkvæði, um 24,3 prósent, í fyrri umferð forsetakosninganna sem fóru fram í apríl 2003 en þetta nægði ekki til að sleppa við aðra kosningaumferð.[13] Stefnt var að því að kosið yrði á milli Menems og mótframbjóðanda hans, vinstrisinnaða perónistans Néstors Kirchner, en þar sem skoðanakannanir spáðu Menem afgerandi ósigri í annarri umferð ákvað hann að draga framboð sitt til baka áður en hún fór fram.[14]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 Helgi Hrafn Guðmundsson (18. ágúst 2009). „Þegar fyrirmyndarnemandinn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kolféll“. Dagblaðið Vísir. Sótt 30. september 2020.
- ↑ „Gerðist kaþólikki og bauð sig fram“. Morgunblaðið. 17. maí 1989.
- ↑ „Menem sigraði“. Dagblaðið Vísir. 16. maí 1989.
- ↑ „Efnahagslegt öngþveiti bíður hins nýkjörna forseta Argentínu“. Dagblaðið Vísir. 19. maí 1989.
- ↑ „4923% verðbólga á síðasta ári“. Tíminn. 8. febrúar 1990.
- ↑ 6,0 6,1 Kristján Jónsson (14. maí 1995). „Verðlauna kjósendur aðhaldsstefnuna?“. Morgunblaðið.
- ↑ „Menem siglir krappan sjó í kosningabaráttunni“. Morgunblaðið. 9. apríl 1995.
- ↑ Ásgeir Sverrisson (19. október 1997). „Hryllingssögur úr „skítuga stríðinu"“. Morgunblaðið. Sótt 30. september 2020.
- ↑ 9,0 9,1 Ásgeir Sverrisson (19. júlí 1998). „Heldur Menem krúnunni?“. Morgunblaðið.
- ↑ Ásgeir Sverrisson (2. nóvember 1997). „Menem sýnt gula spjaldið“. Morgunblaðið.
- ↑ Romero, Luis Alberto (2013) [1994]. A History of Argentina in the Twentieth Century. United States: The Pennsylvania University Press. ISBN 978-0-271-06228-0.
- ↑ Ásgeir Sverrisson (26. ágúst 2001). „Draugagangur í Argentínu“. Morgunblaðið.
- ↑ „„Veit að hann er þorpari og þjófur"“. Morgunblaðið. 29. apríl 2003.
- ↑ „Merki um efnahagsbata í Argentínu“. Morgunblaðið. 24. maí 2003.
Fyrirrennari: Raúl Alfonsín |
|
Eftirmaður: Fernando de la Rúa |