Fara í innihald

Néstor Kirchner

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Néstor Kirchner
Néstor Kirchner árið 2005.
Forseti Argentínu
Í embætti
25. maí 2003 – 10. desember 2007
VaraforsetiDaniel Scioli
ForveriEduardo Duhalde
EftirmaðurCristina Fernández de Kirchner
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. febrúar 1950
Río Gallegos, Santa Cruz, Argentínu
Látinn27. október 2010 (60 ára) El Calafate, Santa Cruz, Argentínu
ÞjóðerniArgentínskur
StjórnmálaflokkurRéttlætisflokkurinn
MakiCristina Fernández de Kirchner (g. 1975)
Börn2
HáskóliÞjóðarháskólinn í La Plata
Undirskrift

Néstor Carlos Kirchner (25. febrúar 1950 – 27. október 2010) var argentínskur stjórnmálamaður sem var forseti Argentínu frá 2003 til 2007. Hann hafði áður verið fylkisstjóri Santa Cruz frá 1991 til 2003. Kirchner var vinstrisinnaður perónisti og eftir forsetatíð sína var hann formaður peróníska Réttlætisflokksins (sp. Partido Justicialista) frá 2008 til 2010. Eftirmaður Kirchners á forsetastól var eiginkona hans, lögfræðingurinn Cristina Fernández de Kirchner. Margir bjuggust við því að Kirchner hygðist snúa aftur á forsetastól að loknu kjörtímabili konu sinnar en ekkert varð úr því þar sem hann lést fyrir aldur fram úr hjartastoppi árið 2010.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Néstor Kirchner fæddist árið 1950 í bænum Río Gallegos og var lögmenntaður. Hann var fylkisstjóri heimafylkis síns, Santa Cruz, í Patagóníu frá 1991 til 2003. Sem fylkisstjóra var Kirchner hrósað fyrir skilvirka stjórnsýslu og lágt atvinnuleysi í héraðinu. Aftur á móti var hann gagnrýndur fyrir að nota olíuhagnað til að fjármagna opinber störf og til að afla sér vinsælda.[1]

Kirchner bauð sig fram til forseta árið 2003 á meðan Argentína var í miðri fjármálakreppu og skuldaði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tugi milljarða Bandaríkjadala í kjölfar stærsta greiðslufalls ríkis í sögunni. Helsti andstæðingur hans í kosningunum var fyrrum forsetinn Carlos Menem, sem heyrði til hægri væng Perónistaflokksins og talaði fyrir lausnum í anda markaðshyggju og einkavæðingar. Kirchner kenndi Menem um að hafa orsakað skuldakreppu ríkis síns á tíu ára valdatíð sinni frá 1989 til 1999 og talaði þess í stað fyrir auknum ríkisumsvifum til að taka á kreppunni. Í fyrri umferð kosninganna hlaut Menem um 24,3% atkvæða en Kirchner 22%.[2] Þar sem kannanir bentu til þess að Kirchner ætti sigur vísan í seinni kosningaumferð sem átti að fara fram ákvað Menem að draga framboð sitt til baka. Kirchner var þar með sjálfkjörinn forseti Argentínu og tók við embætti þann 25. maí 2003.[1]

Sama ár og Kirchner tók við embætti tókst stjórn hans að gera hagstæðan samning við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að enduráætla um 84 milljarða dollara af erlendum skuldum Argentínu við alþjóðastofnanir. Árið 2005 var fallist á að ríkið myndi borga skuldir fallinna einkafyrirtækja upp á um 81 milljarð með skuldabréfum en að vextir upp á 20 milljarða frá því eftir greiðslufallið yrðu látnir falla niður. Sama ár ákvað Kirchner að greiða alla 9,8 milljarða skuld ríkisins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í einni greiðslu. Skuldin var greidd í uppsöfnuðum gjaldeyristekjum í seðlabankanum og með efnahagsaðstoð frá Hugo Chávez, forseta Venesúela.[3]

Á forsetatíð Kirchners var talsvarður vöxtur í efnahagslífi Argentínu, einkum vegna mikillar aukningar í útflutningi landbúnaðarafurða.[4] Néstor og eiginkona hans, öldungadeildarþingmaðurinn Cristina Fernández de Kirchner, nutu því talsverðrar alþýðuhylli og var þeim líkt við fræg forsetahjón eins og Juan og Evu Perón og Bill og Hillary Clinton.[5] Sem forseti hóf Kirchner einnig rannsóknir á glæpum sem framdir höfðu verið í skítuga stríðinu á tíma herforingjastjórnarinnar sem ríkti í Argentínu frá 1976 til 1983.[4] Atvinnuleysi og verðbólga voru þó áfram töluverð á stjórnartíð Néstors[3] og hagfræðingar sökuðu hann um að falsa efnahagstölur sér í hag.[6]

Þrátt fyrir miklar vinsældir ákvað Néstor að bjóða sig ekki fram til endurkjörs árið 2007. Þess í stað ákvað hann að stíga til hliðar og styðja Cristinu til framboðs sem forsetaefni vinstriarms perónistahreyfingarinnar.[3] Haft var fyrir satt að Néstor ætlaði sér að bjóða sig aftur fram til forseta að loknu kjörtímabili Cristinu og að þessi hlutverkaskipti hjónanna væri í reynd tilraun þeirra til að framlengja valdatíð sína með því að stíga í kringum reglur sem meina forseta Argentínu að sitja fleiri en tvö kjörtímabil í röð.[5][7] Cristina var kjörin forseti Argentínu árið 2007 með um 46,3% atkvæða og hét því að viðhalda efnahagsstefnu eiginmanns síns.[8]

Néstor naut enn talsverðra áhrifa á bak við tjöldin eftir að eiginkona hans varð forseti. Auk þess að vera eiginmaður forsetans var hann jafnframt þingmaður, formaður Réttlætisflokksins og framkvæmdastjóri Unasur, samtaka Suður-Ameríkuríkja, síðustu æviár sín. Árið 2009 tapaði Kirchner þingsæti sínu um leið og Réttlætisflokkurinn tapaði þingmeirihluta sínum. Kirchner lést úr hjartastoppi árið 2010 og því varð ekkert úr fyrirhugaðri endurkomu hans á forsetastól.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „„Óþekkti maðurinn" tekur við í Argentínu“. Morgunblaðið. 16. maí 2003. Sótt 1. nóvember 2019.
  2. „„Veit að hann er þorpari og þjófur". Morgunblaðið. 29. apríl 2003. Sótt 1. nóvember 2019.
  3. 3,0 3,1 3,2 Helgi Hrafn Guðmundsson (18. ágúst 2009). „Þegar fyrirmyndarnemandinn hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kolféll“. Dagblaðið Vísir. Sótt 1. nóvember 2019.
  4. 4,0 4,1 4,2 Karl Blöndal (28. október 2010). „Leiddi Argentínu inn í uppsveiflu“. Morgunblaðið. Sótt 1. nóvember 2019.
  5. 5,0 5,1 Ásgeir Sverrisson (18. febrúar 2007). „Frúin í stað forsetans?“. Morgunblaðið. Sótt 1. nóvember 2019.
  6. Ingibjörg B. Sveinsdóttir (19. júlí 2008). „Rifrildi forsetahjóna og full ferðataska af dollurum“. 24 stundir. Sótt 1. nóvember 2019.
  7. Ásgeir Sverrisson (3. júlí 2009). „Eiginkona Kirchners í forsetaframboð“. Morgunblaðið. Sótt 1. nóvember 2019.
  8. „Crist­ina Fern­and­ez kjör­in for­seti Arg­entínu“. mbl.is. 28. október 2007. Sótt 1. nóvember 2019.


Fyrirrennari:
Eduardo Duhalde
Forseti Argentínu
(25. maí 200310. desember 2007)
Eftirmaður:
Cristina Fernández de Kirchner