Finnbogi Jónsson (lögmaður)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Finnbogi Jónsson Maríulausi (um 1440 – eftir 1513) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 15. og 16. öld. Hann bjó í Ási í Kelduhverfi.

Finnbogi var sonur Jóns Pálssonar Maríuskálds, prests á Grenjaðarstað, og fylgikonu hans Þórunnar Finnbogadóttur gamla Jónssonar í Ási. Líklega hefur Finnbogi fengið viðurnefnið af því að hann hefur ekki þótt jafnguðrækinn og hliðhollur Maríu mey og faðir hans. Hann varð lögmaður norðan og vestan eftir lát Hrafns Brandssonar og gegndi embættinu frá 1484 til 1508. Hann er þó kallaður lögmaður í dómi frá 1481 en þar var Hrafn lögmaður sjálfur annar málsaðilinn og hefur Finnbogi þá verið fenginn til að hlaupa í skarðið. Hann þótti lögfróður og skarpvitur en hafði misjafnt orð á sér fyrir lagakróka og ásælni.

Jón Sigmundsson fór utan árið 1508 og fékk veitingu fyrir lögmannsembættinu hjá Kristjáni 2. Hann kom þó ekki til landsins fyrr en eftir Alþingi 1509 en líklega hefur Finnbogi verið búinn að fá fregnir af því að hann hefði misst embættið því hann kom ekki til þings það sumar. Hann kom þó næsta ár og vann þá mál sem snerist um eignarhald á Grund í Eyjafirði og fleiri jörðum, sem hann taldi sig hafa erft eftir dóttur sína. Finnbogi er nefndur í Leiðarhólmssamþykkt 1513 og hefur þá verið á lífi en árið eftir er Þorsteinn sonur hans orðinn sýslumaður í Þingeyjarsýslu og ekki ólíklegt að Finnbogi sé þá látinn.

Kona Finnboga var Málmfríður Torfadóttir (f. um 1545), dóttir Torfa Arasonar hirðstjóra og Akra-Kristínar Þorsteinsdóttur, og giftust þau haustið 1467. Á meðal barna þeirra voru Jón prestur í Múla og á Grenjaðarstað og príor í Möðruvallaklaustri 1524-1546, Jón prestur í Laufási, Þorsteinn sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu, Guðlaug móðir Orms Sturlusonar lögmanns og Sigurður sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, faðir Ísleifs sýslumanns á Grund, sem giftur var Þórunni dóttur Jóns Arasonar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Hrafn Brandsson (eldri)
Lögmaður norðan og vestan
(14841508)
Eftirmaður:
Jón Sigmundsson