Fara í innihald

Jón Pálsson Maríuskáld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jón Pálsson Maríuskáld (um 13901471) var íslenskur prestur, prófastur og skáld á 15. öld. Hann var eitt helsta skáld síns tíma og orti Maríulykil og fleiri lofkvæði um Maríu guðsmóður. Sumum samtímamönnum hans þótti nóg um lofið og fékk hann af því viðurnefnið Maríuskáld.

Ekki er vitað um ætt Jóns þótt ýmsar tilgátur hafi komið fram. Hann var ráðsmaður á Hólum fram til 1429 og prófastur í Hegranesþingi 1426-1429. Þegar Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup kom til að taka við biskupsdæmi sínu fór Jón þaðan og var prestur á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjarsýslu frá 1427 til 1430 og síðan á Breiðabólstað í Fljótshlíð frá 1431 til 1440. Þá fór hann aftur norður á Grenjaðarstað og var þar prestur til dauðadags. Hann var prófastur í Þingeyjarþingi 1440-1448. Hann var einn af voldugustu og auðugustu prestum landsins á sinni tíð, fyrirferðarmikill og deildi við höfðingja, ekki síst Jón Vilhjálmsson Craxton. Marcellus Skálholtsbiskup setti Jón líka í bann um tíma en ekki er vitað af hverju það var.

Fylgikona Jóns var Þórunn Finnbogadóttir, dóttir Finnboga Jónssonar gamla í Ási í Kelduhverfi. Þau áttu nokkur börn en þekktastur þeirra er Finnbogi Jónsson lögmaður í Ási, sem kallaður var Finnbogi Maríulausi, líklega af því að hann þótti ekki jafnhollur Maríu mey og faðir hans. Einnig er talið að Brandur Jónsson lögmaður á Hofi á Höfðaströnd hafi verið sonur Jóns, sem hann hefur þá átt ungur. Ekki er vitað hver móðir hans var.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Ásverja saga. Vísir, 1. nóvember 1967“.