Fara í innihald

Þorvarður Erlendsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorvarður Erlendsson (um 14661513) var íslenskur lögmaður og sýslumaður á 16. öld. Hann bjó á Strönd í Selvogi og Möðruvöllum í Eyjafirði.

Þorvarður var sonur Erlendar Erlendssonar sýslumanns á Hlíðarenda og Guðríðar Þorvarðsdóttur konu hans, dóttur Þorvarðar Loftssonar og Margrétar Vigfúsdóttur á Möðruvöllum. Vigfús Erlendsson lögmaður og hirðstjóri var bróðir Þorvarðar. Árið 1486, þegar hann var um tvítugt, gaf Margrét amma hans honum nokkrar jarðir, þar á meðal Engey og Laugarnes. Hann var orðinn sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu um 1490. Árið 1499 varð hann lögmaður sunnan og austan og gegndi því embætti til dauðadags.

Þorvarður deildi í nærri tuttugu ár við Grím Pálsson sýslumann um Möðruvallaeignir, það er að segja arf eftir hjónin Pál Brandsson sýslumann á Möðruvöllum og Ingibjörgu, móðursystur Þorvarðar. Þau hjón og synir þeirra dóu öll í plágunni síðari 1494, fyrst Ingibjörg svo synirnir og loks Páll. Grímur var óskilgetinn sonur Páls og átti ekki erfðarétt en hann átti aftur á móti skilgetna syni og samkvæmt erfðatali Jónsbókar voru þeir næstir til arfs eftir afa sinn. Þorvarður vísaði aftur á móti í réttarbót Hákonar háleggs frá 1313 en samkvæmt henni átti móðir hans að taka arf eftir systur sína.

Finnbogi Jónsson lögmaður dæmdi 1495 að farið skyldi eftir íslenskum lögum, þar sem réttarbótin gilti einungis í Noregi og var sá dómur staðfestur af Alþingi og aftur af Finnboga 1499, en þá var Þorvarður sjálfur orðinn lögmaður og nefndi dóm í sínu umdæmi sem úrskurðaði að réttarbótin skyldi gilda. Gekk nú á dómum og stefnum á víxl í nokkur ár, en 24. nóvember 1507 staðfesti konungur að allar réttarbætur Hákonar háleggs skuli gilda á Íslandi. Var sú staðfesting kölluð Möðruvallaréttarbót, en af mörgum réttarspillir. Grímur neyddist því til að sleppa Möðruvöllum, þar sem hann hafði búið, en þó ekki fyrr en 1511. Þorvarður fluttist þá þangað. Þó voru enn óuppgerð ýmis mál og fóru þeir Þorvarður og Benedikt sonur Gríms til Noregs haustið 1512 að láta skera úr þeim. En Þorvarður dó þar um veturinn og úrskurðurinn var Grími í hag. Hann hóf þá tilkall sitt til Möðruvalla að nýju og settist þar að. Á Alþingi 1515 sættist hann svo við Vigfús og Hólmfríði, systkini Þorvarðar, og fékk Möðruvelli og miklar eignir aðrar. Lauk þar með Möðruvallamálum.

Fyrri kona Þorvarðar var Margrét, dóttir Jóns Egilssonar bryta í Skálholti og systir Stefáns biskups, og voru börn þeirra Erlendur Þorvarðarson lögmaður og Ragnheiður, kona Orms Einarssonar bónda í Saurbæ á Kjalarnesi, sem veginn var í Viðey 1518 af Erlendi mági sínum. Þorvarður giftist síðan árið 1508 Kristínu (d. 14. apríl 1578), dóttur Gottskálks Nikulássonar biskups, og áttu þau eina dóttur. Kristín giftist aftur 28. janúar 1515 Jóni Einarssyni sýslumanni á Geitaskarði.



Fyrirrennari:
Helgi Oddsson
Lögmaður sunnan og austan
(14991512)
Eftirmaður:
Vigfús Erlendsson