Blagoje Marjanović

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Blagoje „Moša“ Marjanović (serbneska: Благоје "Моша" Марјановић) (f. 9. september 1907 - d. 1. október 1984) var knattspyrnumaður og -þjálfari frá Júgóslavíu. Hann var í keppnisliði Júgóslavíu á Ólympíuleikunum 1928 og fyrstu Heimsmeistarakeppninni árið 1930.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Marjanović fæddist í Belgrað og hóf ungur að æfa knattspyrnu hann var á sautjánda ári í meistaraliði SK Jugoslavija. Tæplega tvítugur gekk hann til liðs við BSK Belgrað sem var að hefja gullöld sína. Hann varð fimm sinnum júgóslavneskur meistari með liðinu á árunum 1931 til 1939 og einu sinni bikarmeistari. Samvinna Marjanović og liðsfélaga hans Aleksandar Tirnanić í framlínunni átti einna stærstan þátt í þessum árangri. Árið 1930 urðu þeir tveir fyrstu atvinnumenn Júgóslavíu þegar félagið tók að greiða fyrir þjónustu þeirra.

Landsliðsferill Marjanović stóð frá 1926 til 1938. Hann lék í allt 58 landsleiki og skoraði í þeim 37 mörk. Hann var í liðinu sem hélt á Ólympíuleikana í Amsterdam árið 1928 en tapaði fyrsta leik gegn Portúgal og var þar með úr leik. Betur tókst upp á HM í Úrúgvæ tveimur árum síðar. Júgóslavar mættu með kornungt lið sem var nær einvörðungu skipað Serbum vegna ósættis innan knattspyrnusambandsins.

Júgóslavía dróst í riðil með tveimur Suður-Ameríkuþjóðum, Brasilíu og Bólivíu. Brasilíska liðið var álitið sigurstranglegast en Júgóslavar unnu þá í fyrsta leik 2:1. Eftirleikurinn var auðveldur og Júgóslavar lögðu Bólivíu í næsta leik 4:0, þar sem Marjanović var meðal markaskorara. Í undanúrslitum náðu Júgóslavar forystu gegn heimamönnum en töpuðu að lokum 6:1.

Ekki tókst Júgóslavíu að komast á HM 1934 eftir dapra frammistöðu í forkeppni. Í Balkan-keppninni voru Júgóslavar hins vegar sigursælli og urðu meistarar í tvígang: 1934-35 og 1935 auk þess að hafna tvisvar í öðru sæti: 1929-31 og 1933. Í öll skiptin var Marjanović í liðinu.

Í einkalífinu var Marjanović kunnur glaumgosi og var áberandi í slúðurdálkum blaða. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar lenti hann í fangabúðum Þjóðverja en naut þar knattspyrnufrægðar sinnar og fékk að spila fótbolta með sýningarliði til að stytta föngum og fangavörðum stundir. Að stríði loknu sneri hann sér að þjálfun. Stýrði m.a. Tórínó á Ítalíu og gerði BSK Belgrað að bikarmeisturum en heilablóðfall batt þó snemma enda á þjálfaraferilinn. Hann lést árið 1984.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]