Bjarni Thorarensen
Bjarni Thorarensen | |
---|---|
Fæddur | 30. desember 1786 |
Dáinn | 25. ágúst 1841 (54 ára) |
Þjóðerni | Íslendingur |
Menntun | Hafnarháskóli |
Störf | Skáld og amtmaður fyrir norðan og austan |
Þekktur fyrir | Ljóð sín t.d. Eldgamla Ísafold |
Maki | Hildur Bogadóttir |
Börn | Fjöldi barna |
Foreldrar | Vigfús Þórarinsson sýslumaður og Steinunn Bjarnadóttir landlæknis Pálssonar |
Bjarni Thorarensen (30. desember 1786 - 25. ágúst 1841) var amtmaður fyrir norðan og austan sem bjó að Möðruvöllum. Þrátt fyrir miklar embættisannir orti Bjarni talsvert og var hann helsti boðberi rómantísku stefnunnar á Íslandi.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Bjarni fæddist á Brautarholti á Kjalarnesi. Móðir Bjarna var Steinunn, dóttir Bjarna Pálssonar landlæknis og faðir hans Vigfús Þórarinsson. Vigfús varð sýslumaður í Rangárvallasýslu 1789 og sat á Hlíðarenda í Fljótshlíð og er Bjarni alinn þar upp. Hann lærði hjá einkakennurum undir stúdentspróf og lauk því 15 ára.
Bjarni sigldi síðan til Kaupmannahafnar og lauk lagaprófi frá Hafnarháskóla er hann stóð á tvítugu en starfaði síðan í danska kansellíinu í nokkur ár. Bjarni mun hafa hlustað á einhverja af þeim fyrirlestrum sem Henrich Steffens hélt í Kaupmannahöfn 1802-1803 um rómantísku stefnuna og hann hreifst af skáldum er ortu í hennar anda, svo sem danska skáldinu Adam Oehlenschlager og þýska skáldinu Friedrich Schiller.
Bjarni sneri til Íslands 1811 og varð nokkru síðar dómari í Landsyfirréttinum og þjónaði auk þess stiftamtmanns- og amtmannsembættinu í suðuramtinu í afleysingum 1814-1815 og aftur 1817-1819. Hann varð síðan sýslumaður í Árnessýslu 1820 en 1822 varð hann aftur dómari við Landsyfirréttinn og bjó í Gufunesi. Eftir nokkrar raunir í kvennamálum, sem hann kenndi Magnúsi Stephensen alfarið um, kvæntist hann Hildi, dóttur Boga Benediktssonar úr Hrappsey, og áttu þau fjölda barna.
Bjarni kom að stofnun Fjallvegafélagsins árið 1831 sem hafði það að markmiði að bæta samgöngur á Íslandi. Bjarni var skipaður amtmaður í Norður- og austuramtinu árið 1833. Flutti hann þá að Möðruvöllum í Hörgárdal og bjó þar til dauðadags og þar er hann einnig grafinn.
Mörg þekktustu ljóð Bjarna eru ættjarðar- eða náttúruljóð, svo sem Íslands minni (Eldgamla Ísafold), Ísland (Þú nafnkunna landið sem lífið oss veitir) og Veturinn en hann orti einnig alkunn ástarljóð og erfiljóð. Af þeim síðastnefndu er þekktast kvæðisbrotið sem hann orti eftir Baldvin Einarsson og hefst á orðunum „Ísalands / óhamingju / verður allt að vopni.“
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Sýnisbók íslenskra bókmennta frá 1550 til 1900, Kristján Eiríksson tók saman, Reykjavík 2003.