Fara í innihald

Páll Briem

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Páll Jakob Briem (19. október 185617. desember 1904) var íslenskur sýslumaður, amtmaður og alþingismaður sem þótti einhver lögfróðasti maður sinnar samtíðar.

Uppruni og nám[breyta | breyta frumkóða]

Páll var fæddur á Espihóli í Eyjafirði, sonur Eggerts Briem sýslumanns og konu hans Ingibjargar Eiríksdóttur. Hann ólst upp í Eyjafirði og síðan Skagafirði frá árinu 1861, þegar faðir hans varð sýslumaður þar. Á meðal systkina Páls voru alþingismennirnir Eiríkur Briem, Gunnlaugur Briem og Ólafur Briem og tvíburasystir Páls, Elín Briem, stofnandi Hússtjórnarskóla Reykjavíkur.

Páll lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum árið 1878 og lögfræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1884. Hann kom þó ekki strax hem til Íslands, heldur var hann fulltrúi hjá yfirréttarmálaflutningsmanni í Kaupmannahöfn í eitt ár og árið 1885 var honum veittur styrkur til rannsókna á íslenskum lögum. Að þeim vann hann 1885-1886.

Embættisferill[breyta | breyta frumkóða]

Hann varð sýslumaður í Dalasýslu 1886 og bjó eitt ár á Staðarfelli en varð svo málaflutningsmaður við landsyfirréttinn. Árið 1890 varð hann sýslumaður í Rangárvallasýslu og bjó í Odda og síðan Árbæ í Holtum. Þann 12. sepember 1894 var hann skipaður amtmaður í norður- og austuramtinu með aðsetri á Akureyri og gengdi því embætti í tíu ár en 1. ágúst 1904 voru amtmannsembættin lögð niður. Páll flutti þá til Reykjavíkur og varð bankastjóri Íslandsbanka en lést fáeinum mánuðum síðar.

Hann var alþingismaður Snæfellinga 1887-1892 og var kjörinn alþingismaður Akureyringa 1904 en lést áður en hann náði að setjast á þing. Hann var einnig bæjarfulltrúi á Akureyri um skeið. Hann hafði mikinn áhuga á fræðslumálum, einkum menntun alþýðu, svo og búnaðarmálum og ræktunarmálum og sinnti þeim af áhuga.

Fyrri kona Páls (1886) var Kristín Guðmundsdóttir (13. mars 1865 – 24. október 1887). Árið 1895 gekk hann svo að eiga Álfheiði Helgu Helgadóttur (11. nóvember 1868 – 28. september 1962).

Kvenfrelsi[breyta | breyta frumkóða]

Páll Briem var fylgismaður kvenréttinda og hélt fyrirlestur þann 19. júlí 1885 sem hét Um frelsi og menntun kvenna: sögulegur fyrirlestur.

Fyrirlesturinn var haldinn á fyrsta fundi Thorvaldsensfélag en þá voru tíu ár liðin frá stofnun félagsins. Seinna var fyrirlesturinn gefinn út í Reykjavík og var það Sigurður Kristjánsson prentari og bóksali sem sá um útgáfuna.

Í fyrirlestrinum rekur Páll sögu kvenréttindabaráttu í Bandaríkjunum og nokkrum löndum Evrópu og fræðir um ýmsa kvenskörunga.[1]

Þar segir meðal annars: "Þegar jeg tala um baráttuna fyrir frelsi kvenna, þá á jeg eigi við baráttu til þes að losa kvennfólk undan kúgun og þrældómi- mjer virðist að slíkt eigi sjer hvergi stað í menntuðum löndum – heldur tala jeg um baráttuna fyrir því, að kvennmenn fái rjettindi, fái vald. …Nátengt frelsi kvenna er menntun þeirra, því að það, sem kvennfrelsismenn æskja einna mest, er, að kvennmenn fái rjett til að geta náð menntun jafnt við karlmenn, og þá enn fremur fengið ýmsar stöður sem jafn menntaðir karlmenn geta fengið…"[2]

Eitt og annað[breyta | breyta frumkóða]

Við Pál amtmann var lengi kennd gata á Akureyri, Páls Briems-gata. Við hana var aðeins eitt hús og var það númer 20.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Æviágrip á vef Alþingis, skoðað 10. febrúar 2011“.
  • „Páll amtmaður Briem. Þjóðviljinn, 29. desember 1904“.


  1. [1] „Um frelsi og menntun kvenna: sögulegur fyrirlestur“
  2. Páll Briem. (1885). Um frelsi og menntun kvenna : Sögulegur fyrirlestur. Reykjavík: Sigurður Kristjánsson.