Biskupastríðin
Biskupastríðin (latína: Bellum Episcopale) voru tvenn vopnuð átök milli Karls 1. og skoskra sáttmálamanna 1638 og 1640 sem áttu þátt í því að hrinda Ensku borgarastyrjöldinni og Þríríkjastríðunum af stað.
Aðdragandi
[breyta | breyta frumkóða]Í kjölfar skosku siðbótarinnar 1560 voru áfram deildar meiningar um það hvernig stjórn skosku ríkiskirkjunnar skyldi háttað og tvær fylkingar komu fram sem studdu öldungakirkju annars vegar, þar sem kirkjuráð stjórnar kirkjunni, og biskupakirkju hins vegar, þar sem biskupar stjórna kirkjunni. Róttækir kirkjumenn hneigðust fremur að fyrri stefnunni en konungur að þeirri síðari. Jakob 6. Skotakonungur lýsti því yfir að enginn biskup væri það sama og enginn konungur og við upphaf 17. aldar fullmannaði hann stöður biskupa innan skosku kirkjunnar. Við það fékk kirkjan nánast nákvæmlega sömu stjórn og hún hafði haft fyrir siðaskiptin þótt hún væri nú kalvínísk hvað kenningu varðaði.
Biskupar konungs voru ekki síður ógnun við skoska aðalinn sem taldi sig hafa mátt þola síminnkandi áhrif, einkum eftir að Jakob flutti til London og gerðist konungur Englands 1603. Karl 1. bætti svo um betur á 4. áratugnum með því að skipa biskupa í leyndarráð sitt og embætti innan skoska framkvæmdavaldsins.
Alvarleg kreppa kom þó ekki upp fyrr en Karl 1. ákvað að láta skosku kirkjuna taka upp nýja bænabók árið 1637 sem var í anda ensku biskupakirkjunnar (raunar gegn ráði helstu biskupa) án nokkurs samráðs. Í kjölfarið tóku öldungakirkjumenn höndum saman við aðalinn og gerðu með sér Þjóðarsáttmálann í febrúar 1638 þar sem allri kirkjuskipan Karls var hafnað. Sáttmálamenn ráku síðan alla biskupana á kirkjuþingi í Glasgow í nóvember sama ár. Skoska kirkjan var þar með orðin öldungakirkja. Karl krafðist þess að ákvarðanir þingsins yrðu dregnar til baka en sáttmálamenn neituðu.
Fyrsta biskupastríðið (1639)
[breyta | breyta frumkóða]Karl hafði stjórnað Englandi án enska þingsins í ellefu ár og átti því erfitt með að blása til styrjaldar gegn Skotum þar sem stríðsskattur á íbúa landsins hefði krafist samþykkis þingsins. Boðun nýs þings var hins vegar áhættusöm vegna opinnar andstöðu við stefnumál hans. Hann reyndi því þess í stað að mynda bandalag gegn sáttmálamönnum og safna saman því liði sem hann gat með þeim hætti. Andstaða við sáttmálamenn var mest í hálöndunum og Aberdeenskíri undir stjórn markgreifans af Huntley og við það bættust írskar hersveitir.
Herförin var illa skipulögð og hermennirnir voru illa þjálfaðir og illa búnir, flutningur með skipum var vandkvæðum bundinn og bækistöðvar illa vistaðar. Huntley beið ósigur fyrir Montrose í orrustunni um Dee-brú, eina alvarlega bardaga stríðsins, og þar með var megninu af andstöðunni við sáttmálamenn innan Skotlands lokið.
Karl kom til Berwick með her sinn í lok maí. Vistir voru af skornum skammti og sjúkdómar höfðu komið upp. Þegar veðrið tók að versna vantaði skjól og engin tré voru í nágrenninu sem hægt væri að nota til að byggja kofa úr. Hætta var á bólusóttarfaraldri. Hinum megin við landamærin var skoski herinn litlu betur settur en hvorugur herinn vildi taka af skarið til að hefja orrustu. Því var samningaleiðin eina færa leiðin.
Friðarsáttmálinn í Berwick
[breyta | breyta frumkóða]Karli varð ljóst að leiðangurinn var mistök þegar hann frétti að ekki væri von á herstyrk frá Írlandi og enskir aðalsmenn sögðu við hann að hann yrði að boða þingið ef hann hygðist halda uppi hernaði gegn Skotum. Hann ákvað því að taka boði Skota um samningaviðræður.
Friðarviðræður hófust 11. júní og sex Skotar og sex Englendingar mættust í búðum konungs til að ræða skilmála. Brátt birtist Karl sjálfur og bauð nýtt þing til að ákveða kirkjuskipanina. Báðir samþykktu að leysa upp her sinn og halda brott. Karl neitaði að vísu að samþykkja ákvarðanir kirkjuþingsins í Glasgow, en samþykkti að boða nýtt kirkjuþing í Edinborg 20. ágúst og nýtt löggjafarþing stuttu síðar. Friðarsáttmálinn var undirritaður 18. júní.
Uppreisnin fest í sessi
[breyta | breyta frumkóða]Líkt og við var búist staðfesti kirkjuþingið í Edinborg allar ákvarðanir þingsins í Glasgow, þar með að embætti biskupa væru lögð niður, og bætti um betur með því að banna öllum kirkjunnar mönnum að taka við veraldlegum embættum. Skipan biskupa var ekki aðeins dæmd röng framkvæmd heldur einnig gagnstæð lögmáli guðs. Með því lýsti skoska kirkjan því yfir að enska biskupakirkjan væri í raun andstæð ritningunni. Löggjafarþingið sem kom saman skömmu síðar staðfesti síðan þessar ákvarðanir allar og buðu þar með einveldi konungs birginn.
Með þessu var Karl kominn í ómögulega stöðu. Hann gat ekki ríkt sem þingbundinn konungur í einu ríki en sem einvaldur í hinum tveimur. Sérstaklega gilti þetta um England þar sem bæði var hefð og vilji fyrir þingbundinni konungsstjórn.
Annað biskupastríðið (1640)
[breyta | breyta frumkóða]Karl hóf því strax að leggja á ráðin um nýja herför gegn Skotum. Hann boðaði til sín frá Írlandi William Wentworth, 2. jarl af Strafford sem gerðist hægri hönd hans ásamt William Laud erkibiskup af Kantaraborg. Karl var með í höndunum bréf frá Skotum til Loðvíks 13. þar sem þeir báðu hann um að hafa milligöngu um sáttagerð við konung. Karl og Strafford voru sannfærðir um að enska þingið myndi líta á þetta bréf sem landráð. Skamma þingið sem boðað var í apríl 1640 hunsaði hins vegar bréfið og studdi ekki frekari stríð gegn Skotum. Eftir þrjár vikur var það leyst upp og Karl stóð verr að vígi á eftir.
Þessir atburðir sannfærðu sáttmálamenn enn frekar um að Karl hefði ekki stuðning Englendinga og boðuðu því stéttaþing, án konungsumboðs. Þingið skipaði framkvæmdanefnd til að sjá um landvarnir. Skoski herinn safnaðist saman við landamærin þegar leið á sumarið en konungur var í London og safnaði til sín því liði sem hann gat. 17. ágúst hélt skoski herinn yfir landamærin öllum að óvörum og gersigraði sveitir konungs í orrustunni við Newburn og hertóku síðan Newcastle. Með því var síðara biskupastríðinu í raun lokið.
Friðarviðræður hófust í Ripon 2. október. Skotar kröfðust þess að enska þingið kæmi að samningnum þar sem þeir gætu ekki lengur treyst konungi. Bráðabirgðasamningur fól í sér að Skotar fengu greiddan kostnað 850 sterlingspund á dag og héldu áfram norðurhéruðum Englands þar til endanlegur samningur yrði gerður í London. Langa þingið og sáttmálamenn komu í kjölfarið saman til viðræðna 3. nóvember.
Viðræðum lauk með samningi sem konungur staðfesti í ágúst 1641. Karl samþykkti að draga til baka allar yfirlýsingar sínar gegn sáttmálamönnum og staðfesta ákvarðanir kirkjuþingsins í Edinborg. Stríðsskaðabætur hljóðuðu upp á 300.000 pund og skoski herinn dró sig til baka frá norðurhéruðunum við fyrstu greiðslu.