Beata Szydło
Beata Szydło | |
---|---|
Forsætisráðherra Póllands | |
Í embætti 16. nóvember 2015 – 11. desember 2017 | |
Forseti | Andrzej Duda |
Forveri | Ewa Kopacz |
Eftirmaður | Mateusz Morawiecki |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 15. apríl 1963 Oświęcim, Póllandi |
Þjóðerni | Pólsk |
Stjórnmálaflokkur | Lög og réttlæti |
Maki | Edward Szydło |
Börn | 2 |
Háskóli | Jagielloński-háskólinn |
Undirskrift |
Beata Maria Szydło (f. Kusińska; 15 apríl 1963) er pólsk stjórnmálakona.[1] Hún var forsætisráðherra Póllands frá 16. nóvember 2015 til 11. desember 2017.[2] Szydło var forsætisráðherraefni íhaldsflokksins Laga og réttlætis í þingkosningum Póllands árið 2015 og leiddi flokkinn til stórsigurs. Hún varð þriðji kvenforsætisráðherra Póllands á eftir Hönnu Suchocka og Ewu Kopacz.
Uppvöxtur
[breyta | breyta frumkóða]Szydło fæddist í Oświęcim og ólst upp nærri Brzeszcze. Faðir hennar var námuverkamaður. Hún útskrifaðist með mastersgráðu í mannfræði frá Jagielloński-háskólanum í Kraká árið 1989.
Frá 1989 til 1995 stundaði Szydło doktorsnám í heimspeki og sagnfræði við Jagielloński-háskólann. Árið 1997 lauk hún nýdoktorsrannsókn í menningarstjórnun við Verslunarháskólann í Varsjá. Síðan lauk hún áfanga í stjórnsýslu héraðsstjórna innan Evrópusambandsins við Verslunarháskólann í Kraká. Szydło vann við sögusafnið í Kraká og frá 1997 til 1998 var hún framkvæmdastjóri menningarmiðstöðvarinnar í Brzeszcze, þar sem hún starfaði til ársins 2005.
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Szydło var kjörin borgarstjóri Brzeszcze þegar hún var 35 ára gömul. Hún var kjörin á pólska þingið fyrir Lög og réttlæti í þingkosningum árið 2005.
Í aðdraganda kosninganna 2005 hafði Szydło reynt að ganga í Borgaraflokkinn en hafði ekki fundið sig þar og gekk því í Lög og réttlæti, sem er félagslega íhaldssamari flokkur.[3][4] Hún var kjörið á þingið í Chrzanów-kjördæmi með 14.499 atkvæðum, flestum atkvæðum allra frambjóðenda á kosningalistanum.[5] Á pólska þinginu sat Szydło í efnahagsnefnd og sveitastjórnanefnd.[6]
Szydło var endurkjörin á pólska þingið árið 2007 með 20.486 atkvæðum.[7] Þann 24. júlí 2010 varð hún varaformaður Laga og réttlætis. Í þingkosningum árið 2011 náði hún endurkjöri á þingið með 43.612 atkvæðum.[8] Í september 2014 tók hún við af Stanisław Kostrzewski sem gjaldkeri flokksins og gegndi því embætti í tvö ár. Á sjötta þingtímabili pólska þingsins sat Szydło í fjárlaganefnd sem varaformaður.[9] Í forsetakosningum Póllands árið 2015 stýrði Szydło kosningaherferð frambjóðanda Laga og réttlætis, Andrzej Duda, sem vann kosningarnar.[10]
Á landsþingi Laga og réttlætis þann 22. júní 2015 var Szydło valin forsætisráðherraefni flokksins í þingkosningum sem fóru fram í október sama ár. Lög og réttlæti unnu stórsigur í kosningunum og Szydło tók því við af Ewu Kopacz sem forsætisráðherra Póllands þann 16. nóvember 2015.
Á forsætisráðherratíð Szydło stóð stjórn hennar í samningaviðræðum við Evrópusambandið um lög og viðtöku hælisleitenda. Þar sem margir Pólverjar höfðu flutt til Bretlands var Szydło mótfallin tilraunum Breta til að takmarka réttindi innflytjendja frá aðildarríkjum ESB eftir að Bretar kusu að segja sig úr sambandinu.[11] Pólverjar létu af sumum kröfum sínum um þessi réttindi í skiptum fyrir stuðning Breta til að fá hersveitir Atlantshafsbandalagsins staðsettar í Póllandi.[12]
Árið 2015 hófst stjórnmálakreppa vegna umdeildra breytinga ríkisstjórnar Szydło á æðsta stjórnlagadómstóli Póllands. Stjórn hennar setti lög sem gerðu dómstólum erfiðara fyrir að ógilda lög sem væru talin brjóta gegn stjórnarskránni. Þegar stjórnlagadómstóllinn dæmdi þessi lög sjálf ólögleg neitaði ríkisstjórn Szydło að viðurkenna úrskurðinn og neitaði að birta dóminn með formlegum hætti. Þessi deila leiddi til efasemda um að pólskir dómstólar væru enn færir um að sinna stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu sem verndarar lýðræðis, réttarríkisins og mannréttinda.[13] Evrópuþingið gaf í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem „lömun“ stjórnarinnar á æðsta dómstól Póllands var lýst sem ógn við lýðræði í landinu.[14]
Þann 7. desember 2017 sagði Szydło af sér vegna þrýstings frá Jarosław Kaczyński, formanni Laga og réttlætis. Daginn eftir útnefndi Andrzej Duda forseti Mateusz Morawiecki fjármálaráðherra nýjan forsætisráðherra.[15]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Szydło er gift Edward Szydło og á með honum tvo syni. Hún er trúrækinn kaþólikki og er hlynnt hefðbundinni samfélags- og fjölskylduskipan.[16]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Beata Szydlo: Polish miner's daughter set to be PM, BBC News 2015-10-26.
- ↑ Poland's president designates finance minister Morawiecki as new PM, Reuters 2017-12-08
- ↑ „Beata Szydło chciała kiedyś do Platformy“. dziennik.pl. 7. október 2012. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ „Cezary Łazarewicz: Beata Szydło z Brzeszcz. To tu były początki jej kariery“. wp.pl. Wirtualna Polska. 25. nóvember. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ Polska Agencja Prasowa (16. nóvember 2015). „Beata Szydło – premier“ (pólska). Afrit af upprunalegu geymt þann 21. mars 2017. Sótt 5. febrúar 2016.
- ↑ „Strona sejmowa posła V kadencji“. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ „Serwis PKW – Wybory 2007“. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ „Rada Polityczna PiS: Lipiński, Ziobro, Szydło – wiceprezesami“. pis.org.pl. Lög og réttlæti. 24. júlí 2010. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ „Serwis PKW – Wybory 2011“. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ „Szydło szefową rządu? Polityk PiS: Byłaby dobrym premierem“. dziennik.pl. 27. maí 2015. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ Lianna Brinded (28. nóvember 2016). „Poland hints that the UK will have to soften its hard line on immigration during Brexit talks“. Business Insider. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ Jean Christou (3. janúar 2016). „Poland wants Britain's help over NATO troops in Brexit talks“. Cyprus Mail. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ „Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Polen“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 17. ágúst 2017. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ „Poland's 'paralysis' of top court is 'danger to democracy' – European Parliament“. Russia Today. 14. apríl 2016. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ Atli Ísleifsson (8. desember 2017). „Forsætisráðherra Póllands segir af sér“. Vísir. Sótt 15. nóvember 2021.
- ↑ „Beata Szydło modli się o zwycięstwo!“. Sótt 15. nóvember 2021.
Fyrirrennari: Ewa Kopacz |
|
Eftirmaður: Mateusz Morawiecki |