Basil Lanneau Gildersleeve

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Basil Lanneau Gildersleeve

Basil Lanneau Gildersleeve (23. október 1831 í Charleston í Suður-Karólínu9. janúar 1924) var bandarískur fornfræðingur.

Gildersleeve brautskráðist frá Princeton-háskóla árið 1849, átján ára gamall. Þá hélt hann til Þýskalands til þess að nema hjá Johannes Franz í Berlín, Friedrich Ritschl í Bonn og Schneidewin í Göttingen, þaðan sem hann hlaut doktorsgráðu árið 1853. Frá 1856 til 1876 gegndi hann stöðu prófessors í grísku við Virginíu-háskóla og kenndi einkum latínu árin 1861 til 1866. Árið 1875 tók Gildersleeve við kennslustöðu í fornfræði við Johns Hopkins University í Baltimore.

Árið 1880 var American Journal of Philology stofnað undir ritstjórn Gildersleeves. Hann gaf út latneska málfræðibók, Latin Grammar, árið 1867 (sem var endurskoðuð af Gonzalez B. Lodge 1894 og aftur 1899) og ýmsar latneskar lestrarbækur fyrir framhaldsskóla. Hann ritstýrði einnig útgáfu á verkum Persiusar (1875).

Gildersleeve gaf út Ólympíu- og Pýþíukvæði Pindarosar árið 1885 og bók um gríska setningafræði, Syntax of Classic Greek, árið 1900. Ritgerðasafn hans Essays and Studies Educational and Literary kom út 1890.

Gildersleeve var kosinn forseti American Philological Association árið 1877 og aftur 1908. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við ýmsa háskóla, m.a. College of William and Mary (1869), Harvard-háskóla (1896), Yale (1901), University of Chicago (1901) og University of Pennsylvania (1911).

Gildersleeve lét af kennslu árið 1915. Hann lést árið 1924.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.