Frímúrarareglan
Frímúrarareglan er alþjóðlegt bræðrafélag sem að eigin sögn byggist á sameiginlegum siðferðisgildum meðlima og trú á æðri máttarvöld. Ekki er vitað um uppruna Frímúrarareglunnar en því hefur verið haldið fram að hún hafi verið stofnuð allt frá tímum byggingar Musteris Salómons konungs og fram á 17. öld. Áætlað er að í dag séu um fimm milljónir félaga, þar af tvær milljónir í Bandaríkjunum og um hálf milljón í Englandi, Skotlandi og Írlandi. Leynd hvílir yfir þeim siðum sem viðhafðir eru á fundum frímúrara og hefur það kallað á margar samsæriskenningar, tortryggni og jafnvel ofsóknir í gegnum tíðina. Sem fyrr segir rekur Frímúrarareglan sögu sína a.m.k. aftur til miðalda en ekki er þekkt hvernig hún varð til þó að margar tilgátur hafi verið settar fram um það.
Samsæriskenningar
[breyta | breyta frumkóða]Frímúrarareglan hefur lengi verið alræmd fyrir leyndarhyggju sína, táknfræði og sambönd marga hátt settra reglubræðra sem ná inn í hagkerfi, lagakerfi, stjórnsýslu, listaheim, fjölmiðla og iðnað vestrænna ríkja. Þetta hefur leitt til þess að Frímúrarareglan hefur orðið vinsælt viðfangsefni margra samsæriskenninga í gegnum aldirnar, eitthvað sem reglunni hefur aldrei tekist að losna við þrátt fyrir margar tilraunir til að bæta ímynd sína út á við.[1] Enn sem komið er hefur engum tekist að sanna ásakanir um samsæri eða illvirki frímúrara.
Helsta hráefni samsæriskenningana í kringum Frímúrararegluna kemur frá táknfræði reglunar, sem notast töluvert við þekkt gnóstísk dulspekitákn, en eitt slíkt er hið „Alsjáandi auga“ eða „Auga forsjónarinnar“[2]. Ein vinsælasta samsæriskenningin í samtímanum eru áætluð tengsl Frímúrarareglunar við aðra mun alræmdari, leynilega dulspekireglu sem kallast Illuminati, en sú regla notaðist við svipaða táknfræði. Bæði Illuminati reglan og Frímúrarareglan voru gerðar útlægar í Bæjaralandi af Karli Theódór kjörfursta árið 1784 vegna tortryggni hans á leynimakki reglana.[3]
Kaþólski fræðimaðurinn Léon de Poncins (1897) talar bæði um Frímúrararegluna og Illuminati í ritinu Launstríðið (1936), sem gefur aðra sýn á mannkynssöguna sem vettvang dulspekilegs stríðs leynilegra afla sem vilja öðlast vald yfir hugarheimi almennings.[4]
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Hlekkir
[breyta | breyta frumkóða]- Heimasíða Frímúrarareglunnar á Íslandi
- Alþjóðleg frímúrararegla karla og kvenna Le Droit Humain - Íslandssambandið
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Conspiracy Theories in American History: An Encyclopedia
- ↑ "Freemasonry and the All-seeing Eye". Grand Lodge of British Columbia and Yukon.
- ↑ René le Forestier, Les Illuminés de Bavière et la franc-maçonnerie allemande, Paris, 1914, pp. 453, 468–9, 507–8, 614–5
- ↑ Léon de Poncins, Emmanuel Malynski, La Guerre occulte, Beauchesne 1936