Ólöf Loftsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ólöf ríka Loftsdóttir (um 14101479) var íslensk hefðarkona og stórbokki á 15. öld. Hún var af ætt Skarðverja og bjó á Skarði á Skarðsströnd.

Foreldrar Ólafar voru Loftur ríki Guttormsson og Ingibjörg Pálsdóttir kona hans. Hún ólst upp með foreldrum sínum í miklu eftirlæti. Í sumum heimildum segir að hún hafi átt tvö börn í föðurgarði og hafi annað þeirra verið Sigvaldi Gunnarsson langalíf en enginn fótur virðist vera fyrir því. Hún giftist Birni Þorleifssyni, syni Þorleifs Árnasonar sýslumanns í Vatnsfirði og konu hans Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur. Þau bjuggu á Skarði og voru auðugustu hjón á Íslandi, áttu fjöldamargar jarðir og mikið af lausafé. Meðal annars áttu þau mikinn fjölda af eirkötlum (pottum) og öðrum búsgögnum sem þau leigðu út og höfðu af góðar tekjur.

Um 1455 héldu þau í utanför en lentu í hrakningum og við Orkneyjar réðust skoskir sjóræningjar á skipið, rændu hjónunum og fluttu þau til Skotlands en Kristján 1. Danakonungur greiddi lausnargjald fyrir þau og fóru þau síðan til Danmerkur og fengu góðar viðtökur. Björn var þá gerður að hirðstjóra yfir öllu Íslandi og falið það hlutverk að hefta verslun Englendinga á Íslandi. Þegar þau hjón komu heim hófu þau þegar að sinna þessu hlutverki, fóru um landið með sveina sína og ráku Englendinga burtu og gerðu fé þeirra upptækt. Árið 1467 sló í bardaga milli Björns og manna hans annars vegar og Englendinga hins vegar á Rifi á Snæfellsnesi, þar sem Englendingar höfðu verslun, og lauk honum þannig að Björn var drepinn ásamt nokkrum mönnum sínum en Þorleifur sonur þeirra hjóna tekinn til fanga. Sagt er að Ólöf hafi þá sagt: „Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði.“

Ólöf keypti Þorleif lausan og fór síðan með hjálp sona sinna að herja á Englendinga hvar sem hún náði til þeirra. Sagt er að hún hafi tekið fjölda Englendinga til fanga og flutt þá í böndum heim að Skarði, þar sem hún hafi látið þá vinna ýmsa þrælavinnu, einkum við grjótburð og garðhleðslu, áður en hún lét hálshöggva þá alla, 50 talsins.

Ólöf ríka dó 1479. Sagt er að hún hafi áður beðið guð um að láta eitthvað eftirminnilegt gerast við dauða sinn og þegar hún lést hafi brostið á mikið fárviðri sem nefnt var Ólafarbylur.

Börn þeirra Björns voru Þorleifur Björnsson hirðstjóri á Reykhólum, Árni, sem sagður er hafa fallið í orrustu með Kristjáni konungi 1., Einar Björnsson jungkæri á Skarði, sem einnig dó erlendis, og Solveig Björnsdóttir á Skarði, sem átti fyrst mörg börn með Jóni Þorlákssyni en giftist síðan Páli Jónssyni lögmanni á Skarði.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Ólöf ríka á Skarði. Sunnudagsblað Tímans, 28. júní 1964“.