Fara í innihald

Bjarni Marteinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bjarni Marteinsson (d. fyrir 1488), kallaður Hákarla-Bjarni, var íslenskur höfðingi á 15. öld, bóndi á Ketilsstöðum á Völlum og síðar á Eiðum.

Bjarni var sonur Marteins Gamlasonar, sýslumanns á Ketilsstöðum, og konu hans Rannveigar Sturludóttur. Hann tók við búi á Ketilsstöðum eftir föður sinn en árið 1465 kvæntist hann Ragnheiði, dóttur Þorvarðar Loftssonar á Möðruvöllum, sem þá var löngu látinn, og Margrétar Vigfúsdóttur. Gifti Margrét dætur sínar þrjár samtímis og hélt brúðkaupsveislu þeirra á Möðruvöllum. Þorvarður hafði átt Eiða og eignir sem þeirri jörð fylgdu og fékk Bjarni þær með konu sinni. Þau fluttu fljótlega þangað og höfðu þar mikið bú.

Jafnframt búskapnum stundaði Bjarni útgerð. Sagt er að hann hafi verið með hákarlaútgerð i Bjarnarey og fengið viðurnefni sitt af því að hann - eða menn hans - hafi að jafnaði veitt 100 hákarla á hverju vori. Fiskiútgerð hafði Bjarni á Eiðabjargi, skammt frá Höfn í Borgarfirði eystra.

Bjarni bjó á Eiðum í um tvo áratugi og auðgaðist vel. Þau hjónin áttu þrjár dætur og þrjá syni. Á meðal barna þeirra má nefna Ragnhildi, konu Björns Guðnasonar sýslumanns í Ögri, Þorvarð, sem bjó fyrst á Eiðum eftir föður sinn og síðan í Njarðvík eystra, og Erlend sýslumann á Ketilsstöðum sem Englendingar drápu einhverntíma á öðrum eða þriðja áratug 16. aldar, að sögn með því að setja hann í gaddatunnu.

  • Höfuðbólið Eiðar á Fljótsdalshéraði. Lesbók Morgunblaðsins, 19. júní 1966“.
  • Ketilsstaðir á Völlum. Sunnudagsblað Tímans, 30. júní 1963“.