Vigfús Erlendsson
Vigfús Erlendsson (d. 1521) var íslenskur lögmaður og hirðstjóri á 16. öld og bjó á Hlíðarenda í Fljótshlíð.
Vigfús var sonur Erlendar Erlendssonar sýslumanns á Hlíðarenda og Guðríðar Þorvarðsdóttur konu hans, en hún var dóttir Þorvarðar Loftssonar og Margrétar Vigfúsdóttur á Möðruvöllum. Bróðir hans var Þorvarður Erlendsson lögmaður. Hans er fyrst getið árið 1502, þegar hann fær kvittun hjá Benedikt Hersten hirðstjóra vegna höggs sem hann hafði veitt manni nokkrum við kirkjuna á Krossi í Landeyjum. Vigfús er sagður hafa verið bráðlyndur og nokkru síðar hjó hann hönd af öðrum manni. Vegna þess atviks fékk hann friðarbréf útgefið af Hans konungi 21. janúar 1505. Hann varð svo sjálfur hirðstjóri, líklega 1507, og hafði embættið til 1509.
Þorvarður lögmaður, bróðir Vigfúsar, fór utan sumarið 1512 og dó um veturinn og tók Vigfús þá við sem lögmaður sunnan og austan. Þegar Jón Sigmundsson lögmaður norðan og vestan var bannfærður var Vigfús kosinn í hans stað og var því lögmaður um allt land 1516-1518.
Á þessum árum var Týli Pétursson hirðstjóri og var ekki vinsæll, enda var hann óeirðamaður mikill og var róstusamt á Alþingi. Vigfús mun hafa haft mikinn hug á að verða hirðstjóri á ný og sóttist eftir vitnisburðum um frammistöðu sína í hirðstjóra- og lögmannstörfum og var það auðsótt, enda var hann vinsæll þrátt fyrir bráðlyndi sitt. Meðal annars naut hann stuðnings Ögmundar Pálssonar biskupsefnis. Sumarið 1520 sigldu þeir allir á sama skipi, Vigfús, Týli og Ögmundur, sem var að sækja sér biskupsvígslu. Um miðjan ágúst voru þeir í Harvík á Englandi, þar sem Ögmundur lánaði Vigfúsi peninga samkvæmt bréfum sem enn eru til. Síðan héldu þeir til Noregs og þar dó Vigfús, en Týli hélt þó ekki hirðstjórninni og var drepinn á Íslandi fáeinum árum síðar.
Vigfús var sagður mikilhæfur maður og var meðal annars góður læknir og græddi sár sem talin voru banvæn. Kona hans var Guðrún, laundóttir Páls Jónssonar á Skarði. Á meðal barna þeirra voru Kristín, fylgikona séra Magnúsar á Grenjaðarstað, sonar Jóns Arasonar, Páll lögmaður og Anna á Stóru-Borg, sem þekkt er af samnefndri skáldsögu Jóns Trausta. Síðari kona Vigfúsar var Salgerður (eða Valgerður) Snjólfsdóttir. Hún var sonardóttir Hrafns Brandssonar eldri. Með þeim Vigfúsi var fjórmenningsfrændsemi og dæmdi Ögmundur biskup hjónabandið ógilt eftir lát Vigfúsar.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
Fyrirrennari: Kai von Ahlefeldt |
|
Eftirmaður: Hans Rantzau | |||
Fyrirrennari: Þorvarður Erlendsson |
|
Eftirmaður: Erlendur Þorvarðarson |