Þorvarðar þáttur krákunefs

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þorvarðar þáttur krákunefs er einn Íslendingaþátta. Þar segir frá Vestfirðingnum Þorvarði krákunefi, sem hélt til Noregs og kom þar að máli við Harald konung harðráða og kvaðst vilja gefa honum segl. Konungur var drukkinn og tók því illa, kvaðst áður þegið hafa segl af Íslendingi sem hefði verið óvandað og brostið sundur á siglingu. Vildi hann því ekki þiggja seglið. Í staðinn gaf Þorvarður seglið Eysteini orra, sem var mágur konungs. Launaði Eysteinn honum með heimboði og gaf honum þar skreyttan skarlatskyrtil og skikkju úr algráu skinni, klædda skarlati. Taldi hann sig þá hafa launað seglið svo sem konungur hefði gert. En fyrir þá sök að hann sjálfur var ekki jafn tiginn konungi gaf hann Þorvarði gullhring.

Þegar Eysteinn og konungur sigldu saman um sumarið skreið skip Eysteins hraðar og spurði konungur þá hvar hann hefði fengið hið góða segl sitt. Sagði Eysteinn honum að þetta væri seglið sem hann hafði afþakkað.

Þorvarður sneri heim til Íslands með gripi sína og varð mikill maður fyrir sér.

Í Landnámu er minnst á Krákneflinga og þeir sagðir afkomendur Þórðar krákunefs; hefur Þorvarður líklega verið einn þeirra. Þórður krákunef er sagður sonur Vénýjar Þorsteinsdóttur, Oddleifssonar, Geirleifssonar, Eiríkssonar. Geirleifur sá var landnámsmaður á Barðaströnd, milli Vatnsfjarðar og Berghlíða. Hann er sagður hafa verið bróðursonur Úlfs skjálga.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

„Þorvarðar þáttur krákunefs“.